Fara í efni

Sumarsýning ARS LONGA

03.07.2023 Fréttir Djúpivogur

Verið hjartanlega velkomin á opnun sumarsýningar ARS LONGA, hvað var - hvað er - hvað verður?

Laugardaginn 8. júlí kl. 15 mun Signý Ormarsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, opna sýninguna formlega. Gjörninga flytja þau Ásta Fanney Sigurðardóttir, Sigurður Ámundason og Sigurður Guðmundsson.

Sýningin verður opin fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 17 í Vogalandi 5, Djúpavogi

Annað árið í röð kemur saman breiður hópur listafólks og sýnir verk sín í ARS LONGA á Djúpavogi. Á sýningunni, sem ber yfirskriftina hvað var – hvað er – hvað verður?, eru verk 16 íslenskra samtímalistamanna sett upp í safninu yfir sumartímann.

ARS LONGA er sjálfstætt listasafn sem hóf starfsemi sína með sýningu Sigurðar Guðmundssonar, Alheimurinn er ljóð, sem fór fram í Bræðslunni sumarið 2021 en Sigurður gaf öll verk sýningarinnar í safneignina. Aðdragandann að safninu má þó rekja til Eggjanna í Gleðivík eftir Sigurð og sýninga Rúllandi snjóbolta í Bræðslunni.

Stofnun sjálfstæðs samtímalistasafns á Djúpavogi er metnaðarfull framkvæmd og á sér ekki hliðstæðu hér á landi. Víðsvegar um heim má þó finna fordæmi slíkra stofnana þar sem söfn eða tiltekin listaverk í þeirra eigu verða lykilþáttur í aðdráttarafli áfangastaðarins. Metnaður er lagður í að safna og varðveita listaverkaeign eftir bæði íslenska og alþjóðlega listamenn og fjölbreytt sýningahald verður mikilvæg viðbót við menningarlandslagið á Austurlandi, um leið og safninu er ætlað að vera leiðandi vettvangur alþjóðlegrar samtímalistar á landinu öllu.

ARS LONGA er lifandi vettvangur fyrir samtímalist og framlög listamannanna í ár eru fjölbreytt, bæði í efni og inntaki verkanna. Núverandi ástand húsnæðisins setur takmarkanir á hvað er mögulegt að sýna en gert er ráð fyrir stórfelldum endurbótum á húsnæðinu á komandi árum. Stofnendur safnsins, Sigurður Guðmundsson og Þór Vigfússon, í samvinnu við sitjandi stjórn safnsins, vinna að endurhönnun byggingarinnar sem unnin verður í áföngum samhliða sýningarhaldi yfir sumartímann á komandi árum.

Að hluta til tilheyra verk sýningarinnar sístækkandi safneign ARS LONGA. Má þar nefna nokkur lykilverk íslenskrar listasögu: verk Sigurðar Guðmundssonar, Galti, a nice girl and a boy, frá 1969, og tvö verk Kristjáns Guðmundssonar, Vörðubrot, sem sýnt var á útisýningunni á Skólavörðuholti árið 1970, og Þríhyrningur í ferningi frá 1971–72. Verkin hafa listamennirnir nýverið fært safninu að gjöf, sem styður við mikilvægi safneignarinnar sem ómetanlegs menningararfs til frambúðar.

Titill sýningarinnar, hvað var – hvað er – hvað verður?, kemur frá latneska hugtakinu ‘quid est’, sem vísar í essens eða kjarna hlutanna og heimspekilegar vangaveltur, ekki einungis um rökrétta sýn á fortíð, nútíð og framtíð, heldur einnig hið óræða, líkt og falinn þríhyrningur í verki Kristjáns sem greinir sig aðeins frá ferningnum með blessun moldarinnar.

Sýningin er sett upp með stuðningi frá Múlaþingi, Myndstef og Myndlistarsjóði.

Listamenn / Artists:

Arnfinnur Amazeen
Ásta Fanney Sigurðardóttir
Emma Heiðarsdóttir
Guðlaug Mía Eyþórsdóttir
Haraldur Jónsson
Helgi Þórsson
Hildigunnur Birgisdóttir
Hrafnkell Sigurðsson
Kristín Ómarsdóttir
Kristján Guðmundsson
Níels Hafstein
Ragna Róbertsdóttir
Sigurður Ámundason
Sigurður Guðjónsson
Sigurður Guðmundsson
Unnar Örn J. Auðarson

Sýningarteymi / Curatorial team:
Arnar Freyr Guðmundsson, Hildur Rut Halblaub, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Sigurður Guðmundsson & Þór Vigfússon.

Mynd / Image: Kristján Guðmundsson, Þríhyrningur í ferningi / Triangle in a Square, 1971-72. Safneign / Collection of Ars longa.

Sumarsýning ARS LONGA
Getum við bætt efni þessarar síðu?