Fara í efni

Tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi - covid 19

28.01.2022 Fréttir Covid - 19

Þann 25. janúar var slakað á reglum um sóttkví. Frá og með miðnætti í kvöld verður svo að auki slakað lítillega á innanlandstakmörkunum. Þarna eru vonandi fyrstu skref stigin að afléttingu takmarkana að fullu. Þangað erum við hinsvegar enn ekki komin. Hægt er að kynna sér nýjar sóttvarnareglur og afléttingar á vef heilbrigðisráðuneytis. Stjórnarráðið | Heilbrigðisráðuneytið (stjornarradid.is)

 

Aðgerðastjórn vekur athygli á að enn eru takmarkanir í gildi og staðan á landsbyggðinni viðkvæm sem fyrr, sér í lagi hjá heilbrigðisstofnunum. Svo er og um ástand hér í umdæminu þar sem mannaflastaða sjúkrastofnana er þannig að smit sem þangað berst getur haft veruleg áhrif til hins verra á þjónustu við íbúa. Af því hefur aðgerðastjórn áhyggjur. Af þeim sökum beinir aðgerðastjórn því til fólks sem telur sig útsett fyrir smiti utan heimilis og sem samkvæmt nýju reglunum lendir því ekki í sóttkví, að fara varlega, að forðast umgengni við þá sem viðkvæmir eru, vini til að mynda og ættingja, sem og að fara ekki inn á heilbrigðisstofnun nema í samráði við fagmann þar.

 

Stjórnin hvetur því til þess að við förum hægt um gleðinnar dyr sem smátt og smátt eru að opnast, gætum áfram að eigin persónubundnu sóttvörnum og förum ofurvarlega um svæði þar sem við erum veikust fyrir, á sjúkrastofnunum og gagnvart þeim sem þar dvelja og starfa.

 

Njótum aukins frjálsræðis en förum vel með það sem fyrr.

Tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi - covid 19
Getum við bætt efni þessarar síðu?