Fara í efni

Umræður um Fjarðarheiðargöng teknar fyrir á sveitarstjórnarfundi

12.08.2022 Fréttir Seyðisfjörður

Á 26. sveitarstjórnarfundi Múlaþings þann 10. ágúst 2022 var fjallað um fyrirhugaðar framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng.

Eftirfarandi tillaga var lögð fram:

Í ljósi þeirrar umræðu sem að undanförnu hefur átt sér stað bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þar sem fram hafa komið meðal annars fullyrðingar um að fyrirhuguð gangnagerð undir Fjarðarheiði sé ekki vænlegur kostur vill sveitarstjórn Múlaþings koma eftirfarandi á framfæri.

Fyrirhuguð göng undir Fjarðarheiði byggja á vandaðri vinnu verkefnishóps um undirbúning að ákvarðanartöku um Seyðisfjarðargöng er skipaður var í september 2017 af þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Verkefnishópurinn var skipaður fulltrúum Vegagerðarinnar, Seyðisfjarðarkaupstaðar, atvinnulífs, samtaka sveitarfélaga á Austurlandi og Byggðastofnunar og skilaði af sér lokaskýrslu í júní 2019. Í skýrslu verkefnishópsins er farið með faglegum hætti yfir valkosti og áhrif jarðganga til Seyðisfjarðar fyrir Seyðisfjörð og Austurland allt. Skýrsla verkefnishópsins er aðgengileg á heimasíðu Innviðaráðuneytisins og hvetur sveitarstjórn Múlaþings fólk til að kynna sér efni hennar.

Sveitarstjórn Múlaþings leggur áherslu á mikilvægi þess að áfram verði unnið að því að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjist í samræmi við fyrirliggjandi samgönguáætlun.

Tillagan var samþykkt samhljóða með handaupréttingum.

Þeir sem vilja kynna sér umræðurnar í kringum tillögurnar eru hvattir til þess að horfa á upptöku af fundinum, umræðurnar byrja á mínútu 29:15.

Mynd: Daníel Örn Gíslason
Mynd: Daníel Örn Gíslason
Getum við bætt efni þessarar síðu?