Fara í efni

Undirritun samkomulags um húsnæði við voginn á Djúpavogi ARS LONGA – samtímalistasafn

01.03.2022 Fréttir Djúpivogur

Þann 24. febrúar sl. undirrituðu sveitafélagið Múlaþing og ARS LONGA samtímalistasafn undir samkomulag um húsnæði við voginn á Djúpavogi. Húsnæðið mun hýsa hið nýstofnaða listasafn en gert er ráð fyrir stórfelldum endurbótum á húsnæðinu á komandi árum.

Safninu er ætlað að vera lifandi vettvangur í sífelldri endurnýjun um leið og safneign þess mun halda um ómetanlegan menningararf til frambúðar. Lagt er uppi með að viðburðir og sýningarhald hefjist án mikilla breytinga húsnæðisins strax í sumar með Rúllandi snjóbolta sem farið hefur fram í Bræðslunni á Djúpavogi frá árinu 2013. Við sýningarlok verður farið í framkvæmdir en unnið er að fjármögnun og skipulagi við endurbætur húsnæðisins.

Sigurður Guðmundsson gaf nýverið tuttugu og sjö listaverk sem spanna meira en 50 ára tímabil af ferli hans til safnsins. Mynda verkin stofn að safnkosti ARS LONGA en má vænta að innan fárra ára verði þessi safneign orðin lítil innan um ný aðföng af listaverkum eftir samtímalistamenn jafnt erlendra sem íslenskra listamanna.


Samtímalistasafnið ARS LONGA er sjálfseignarstofnun en stofnendur eru myndlistarmennirnir Sigurður Guðmundsson og Þór Vigfússon sem stýra faglegu starfi í samvinnu við sitjandi stjórn. Stjórnina skipa þau Bjarki Diego, Fríða Björk Ingvarsdóttir, Greta Mjöll Samúelsdóttir, Jóhann G. Jóhannsson, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, ásamt þeim Sigurði og Þór.

Markmið með stofnun safns fyrir alþjóðlega myndlist á Djúpavogi er að safna og varðveita listaverkaeign eftir íslenska og alþjóðlega listamenn, vera leiðandi vettvangur alþjóðlegrar samtímalistar á Íslandi og efla tengsl og samvinnu við listamenn og aðra fagaðila á alþjóðavísu með metnaðarfullu sýningarhaldi. Sjálfstætt safn fyrir alþjóðlega samtímalist á Djúpavogi á sér ekki hliðstæðu hér á landi. Listin er tengivagn við hinn stóra heim með öflugri og metnaðarfullri starfsemi sem ætlað er að endurspegla strauma og stefnur samtímalistarinnar. Safnið mun styðja við frjóan jarðveg grasrótar listamanna samhliða sýningum á verkum þekktari listamanna víðsvegar að. Uppbygging alþjóðlegs samtíma­listasafns á svæðinu mun efla samfélagið í heild og þar með efnahagslega framþróun þess.

Aðdragandann að safninu má rekja til Eggjanna í Gleðivík eftir Sigurð Guðmundsson sem voru keypt með dyggri aðstoð Djúpavogshrepps þrátt fyrir erfitt efnahagsástand í upphafi hrunsins. Það hefur þó sannast á þeim 12 árum sem verkið hefur staðið að ekki einungis geta listaverk haft jákvæð áhrif á íbúa og gesti staðarins, heldur geta þau orðið að einkenni og ímynd svæðisins sem gerir hann að sérstökum áfangastað. Í samvinnu við Kínversk-evrópsku menningarmiðstöðina (CEAC), hafa stofnendur safnsins staðið fyrir árlegum sýningum undir heitinu Rúllandi snjóbolti frá árinu 2013. Sýningarverkefnið er orðið að þekktu fyrirbrigði í íslensku menningarlandslagi og sýningargestir talið tugþúsundum. Sveitarstjórn og íbúar Djúpavogs eiga heiður skilið fyrir þátttöku í þessu menningarlega átaki sem Snjóboltinn hefur verið og er hann prófsteinn sem hvetur til frekari uppbyggingar og starfsemi. Mikilvæg reynsla hefur komið með skipulagðri menningarstarfsemi á svæðinu og telst hún ómetanleg fyrir væntanlegt safn á Djúpavogi.

Björn Ingimarsson, sveitastjóri Múlaþings og Sigurður Guðmundsson, myndlistarmaður og formaður stjór…
Björn Ingimarsson, sveitastjóri Múlaþings og Sigurður Guðmundsson, myndlistarmaður og formaður stjórnar ARS LONGA.
Getum við bætt efni þessarar síðu?