Fara í efni

Unglingar í Múlaþingi með þeim fyrstu til að sjá nýjustu Spider man myndina

16.12.2021 Fréttir Seyðisfjörður

“Það er alveg frábært að geta boðið upp á þessa bíósýningu fyrir krakkana okkar og þau eru mjög spennt,” segir Ashley Milne, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar á Seyðisfirði. Á föstudagskvöldið verður ný Spider man mynd frumsýnd víða um heim en áður en filman fer að rúlla í kvikmyndahúsum Evrópu verður sérstök forsýning í Herðubíó fyrir unglinga í Múlaþingi.

Ein af stórmyndum ársins

Kvikmyndaklúbburinn Föruneytið, úr Nýung á Egilsstöðum, fer með rútu á forsýninguna en mikill spenningur er í hópnum. “Að geta boðið unglingunum okkar að sjá eina af stórmyndum ársins í alvöru bíói í okkar sveitarfélagi, er ekkert nema snilld” segir Reynir Hólm Gunnarsson, starfsmaður Nýungar.

Öflugt samstarf milli félagsmiðstöðva

Í sveitarfélaginu eru þrjár félagsmiðstöðvar; á Seyðisfirði, Egilsstöðum og Djúpavogi, og er samstarfið á milli þeirra allra mjög virkt. “Það er mikilvægt að hafa öflugt samstarf á milli félagsmiðstöðva í sveitarfélaginu,” segir Ashley. “Það gefur unglingunum okkar tækifæri til þess að kynnast fleirum á svæðinu, skiptast á hugmyndum og það eflir líka tilfinninguna um að þau séu hluti af einhverju stærra batteríi.” Undir þetta tekur Reynir Hólm. “Við starfsfólkið græðum auðvitað líka á þessari samvinnu, það er gott að geta kastað á milli hugmyndum og unnið að sameiginlegum viðburðum eins og þessum,” segir Reynir.

Kvikmyndasýningin er síðasti viðburður haustannar í félagsmiðstöðvum Múlaþings en starfið hefst aftur af fullum krafti eftir jól.

Unglingar í Múlaþingi með þeim fyrstu til að sjá nýjustu Spider man myndina
Getum við bætt efni þessarar síðu?