Fara í efni

Ungmennaráð Múlaþings og Fjarðabyggðar senda bréf á ráðherra og forsvarsmenn Skólahreystis

23.03.2023 Fréttir

Í síðustu viku tóku Múlaþing og Ungmennaráð Fjarðabyggðar sig saman og skrifuðu bréf til Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, Willum Þórs Þórsson, heilbrigðisráðherra, Andrésar og Láru hjá Skólahreysti ásamt helstu styrktaraðilum þess efnis að hvetja forsvarsmenn Skólahreystis til að endurskoða staðsetningu keppninnar og að halda undankeppni á Austurlandi, eins og áður hefur verið gert.

Ljóst er að mikið ójafnvægi hefur myndast á milli þeirra liða sem ekki hafa tök á því að senda með sér stuðningslið til að hvetja sína keppendur áfram. Á Austurlandi eru 12 grunnskólar sem fá ekki sömu tækifæri í Skólahreysti vegna þessa fyrirkomulags. Það hefur reynst mörgum grunnskólum of dýrt að senda stuðningslið með keppendum. Þar af leiðandi hafa nemendur frá Austurlandi sem keppa í Skólahreysti ekki sama stuðning í undankeppninni og aðrir.

Mikil stemning hefur myndast hjá liðunum þegar vinir, samnemendur, kennarar og foreldrar hvetja þau áfram. Það gefur keppendum aukinn kraft og þor sem þau annars missa af. Með bréfi ungmennaráðanna vilja þau hvetja styrktaraðila Skólahreystis til að auka við styrki sína til að koma keppninni aftur austur. Það er mikilvægt fyrir nemendur úti á landi að hafa sömu möguleika á því að taka þátt en bæði ungmennaráð Múlaþings og Fjarðarbyggðar eru öll af vilja gerð að aðstoða við að það geti orðið að veruleika.

 

Ungmennaráð Múlaþings og Fjarðabyggðar senda bréf á ráðherra og forsvarsmenn Skólahreystis
Getum við bætt efni þessarar síðu?