Fara í efni

Ungmennaþing 2022

10.05.2022 Fréttir

Miðvikudaginn 4. maí 2022 fór fram Ungmennaþing undir yfirskriftinni Hvað þýðir sameining fyrir okkur? Var það ungmennaráð Múlaþings sem hafði veg og vanda að skipulagningu þingsins sem fram fór í Valaskjálf á Egilsstöðum.

Þingið sátu grunnskólanemendur úr 8.-10. bekk allra grunnskóla í Múlaþingi auk nemenda úr Menntaskólanum á Egilsstöðum. Einar Freyr Guðmundsson, formaður ungmennaráðs Múlaþings, Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings og Guðni Th. Jóhannesson ávörpuðu þingið en Erla Jónsdóttir, fyrrum formaður ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs, sá um fundarstjórn.

Unnið var með ýmis málefni á þinginu en voru þinggestum hugleiknust málefni íþrótta- og tómstunda, félagsmiðstöðva og grunnskóla, samgöngumál og umhverfismál. Kom meðal annars fram hvað ungmennum þykir jákvætt við sínar félagsmiðstöðvar og hvað þau telja að megi bæta. Aukið val í skólum, hvernig bregðast skuli við ójafnrétti, hvernig bæta megi sorpflokkun og samgöngur á milli staða í tengslum við íþróttaæfingar voru atriði sem komu fram og unnið verður áfram með.

Tókst ungmennaþing með miklum ágætum og verður ályktun ungmennaþings 2022 gefin út í maí.

Á ljósmyndinni er Einar Freyr Guðmundsson, formaður ungmennaráðs Múlaþings.
Á ljósmyndinni er Einar Freyr Guðmundsson, formaður ungmennaráðs Múlaþings.
Getum við bætt efni þessarar síðu?