Fara í efni

Úthlutun styrkja til menningarstarfs í Múlaþingi

27.01.2023 Fréttir

Byggðaráð Múlaþings auglýsti í nóvember 2022 til umsóknar styrki til menningarstarfs á árinu 2023. Úthlutun fór fram 24. janúar síðastliðinn.

Alls bárust umsóknir frá 32 aðilum vegna 35 verkefna. Sótt var um styrki fyrir 21 milljón, en heildarkostnaður verkefna nam rúmum 113 milljónum. Veittir styrkir vegna verkefna voru alls 7.640.000 kr. 

Múlaþing er ríkt af skapandi og drífandi fólki sem sýnir sig í gæðum og fjölbreytni umsókna. Meðal verkefna sem eru styrkt eru fjöldi tónleika sem spanna nánast alla flóruna, myndlistarverkefni, námskeiðahald, listsýningar, bókaútgáfur, leiksýningar og sirkus.

Hægt er að sjá alla styrki hér en hæstu styrki hlutu:

 

Apolline Alice Penelope Barra
Fiskisúpa - Ljósmyndasósa 2023

Fiskisúpa- Ljósmyndasósa er röð viðburða sem ætlað er að bjóða ljósmyndurum og myndlistarmönnum að kynna verk sín og spjalla við samfélagið á ýmsum stöðum á Austurlandi. Boðið verður á reglulega samfélagsfundi, lagður grunnur að listræn samræðum og miðlað að því að virkja og efla hina ýmsu menningarstaði okkar.

“Við erum að búa til huggulega stund í kringum heita máltíð með listamönnum.”

Ásgrímur Ingi Arngrímsson
Kvöldgestir framtíðarinnar
Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson ætlar að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið síðasta sumar þegar hann kom fram á fimm tónleikum á jafnmörgum kvöldum í Fjarðarborg á Borgarfirði eystra. Fjölmargir hæfileikaríkir austfirskir tónlistarmenn komu fram í tónleikaröðinni í bland við landsþekkta tónlistarmenn og ætlunin er að vinna áfram á sömu nótum ef svo má að orði komast og þróa tónleikaröðina áfram.

Bláa Kirkjan sumartónleikar
Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar 2023
Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan var stofnsett árið 1998. Um er að ræða tónleikaröð sem fer fram í Seyðisfjarðarkirkju á miðvikudagskvöldum frá lokum júní og fram ágúst. Lögð er áhersla á að bjóða upp á fjölbreytta tónleika með klassískri tónlist, djass og blús, þjóðlagatónlist og léttari tónlist. Tónleikaröðin er mikilvægur menningarviðburður fyrir heimamenn sem og þá fjölmörgu gesti sem sækja Seyðisfjörð heim á sumrin.

LungA-skólinn ses.
Seyðisfjörður Ceramic Studio
Fyrirhugað keramikstúdíó Seyðisfjarðar verður eina tiltæka keramikstofan sem opin er almenningi á Seyðisfirði. Í Netaverksmiðjunni getur keramikstofan boðið öllum áhugasömum aðstöðu til einstaklingsnotkunar, fræðslunámskeið og keramiksmiðjur. Vinnustofan mun samanstanda af kasthjóli, ofni, gljáasvæði og þurrkhillum og vinnusvæði fyrir skúlptúr.

Ra Tack
Residency for LGBTQIA+ artists and activists at Heima Collective
Heima Collective vill vekja athygli á mikilvægi hinsegin samfélags á Austurlandi með dvalar- og fræðsludagskrá fyrir listamenn og aðgerðarsinna úr LGBTQIA+ samfélaginu. Gestavinnustofan miðar að því að veita hinsegin listamönnum og aðgerðasinnum víðsvegar að úr heiminum lista- og menningartækifæri með því að skiptast á og deila listrænni þekkingu, sýningum, gjörningum og vinnustofum fyrir hinsegin ungmenni.

Skaftfell
Culture Map of East Iceland
Verkefnið er að búa til kort af helstu menningarstöðum á Austurlandi sem hægt er að heimsækja. Þetta myndi fela í sér menningar- og myndlistasöfn og -setur; tónlist og tónleikastaðir; söfn, sagnfræðilega mikilvægir staðir, fornleifar; útilistaverk; og heimili listamanna/rithöfunda. Kortið yrði tvíhliða, með númeruðum landfræðilegum stöðum, lýsingum í einni setningu og vefföngum á bakhlið.

Auk þeirra styrkja sem úthlutað var í vikunni er Múlaþing stoltur samstarfs- og styrktaraðili ARS LONGA, Hammondhátíðar, Leikfélag Fljótsdalshéraðs, List í Ljósi, LungA, Ormsteiti, Skaftfells og Tækniminjasafns Austurlands.

Umsækjendum er hér með þakkað fyrir umsóknir og óskað velgengni með öll þau fjölbreyttu verkefni sem eru á döfinni.

Um var að ræða fyrri úthlutun menningarstyrkja Múlaþings vegna verkefna á árinu, en auglýst verður eftir umsóknum vegna seinni úthlutunar í ágúst.

Nánari upplýsingar veitir Heiðdís Hólm Guðmundsdóttir verkefnastjóri menningarmála á heiddis.gudmundsdottir@mulathing.is.

Úthlutun styrkja til menningarstarfs í Múlaþingi
Getum við bætt efni þessarar síðu?