Fara í efni

Veðurhorfur og mat á aðstæðum á Seyðisfirði

25.11.2022 Fréttir Seyðisfjörður

Óvissustig er í gildi á Austfjörðum vegna skriðuhættu. Töluvert rigndi í gær og mikið hefur rignt í landshlutanum í haust. Grunnvatnsstaða er há þar sem hún er mæld, á Seyðisfirði og Eskifirði og má gera ráð fyrir að hún sé almennt há í landshlutanum.
Sérstaklega er fylgst með skriðuhættu á Seyðisfirði með vöktunarbúnaði sem þar hefur verið komið upp. Nú í nóvember hefur mælst hreyfing í Neðri-Botnum og Þófa. Mesta hreyfingin hefur verið á Búðarhrygg en þar voru miklar hreyfingar síðasta haust. Hreyfingar utan hryggjarins hafa verið mun minni en jukust þó í rigningunni í gær. Almennt hafa hreyfingarnar ekki verið miklar, mest rúmir 5 cm í Búðarhrygg frá því í byrjun nóvember, og ekki gefið tilefni til aðgerða.
Einnig er fylgst með aðstæðum á Eskifirði en óverulegar hreyfingar hafa mælst á aflögunarmælum síðustu vikur.

Seinnipartinn á laugardaginn ganga úrkomuskil yfir Austfirði og rignir fram á sunnudagsmorgun. Úrkoman þá verður þó minni en hefur verið síðasta sólarhring. Útlit er fyrir að það verði þurrt á mánudag og þriðjudag. Á bloggsíðu Veðurstofu Íslands má fylgjast með daglegum fréttum um aðstæður á Seyðisfirði.

Veðurhorfur og mat á aðstæðum á Seyðisfirði
Getum við bætt efni þessarar síðu?