Fara í efni

Vel heppnaður forvarnadagur unglingastigs í Múlaþingi

24.05.2023 Fréttir

Forvarnadagurinn var haldinn nýliðna helgi en þá hittast grunnskólanemendur í Múlaþingi og eiga sameiginlega dagskrá með jafnöldrum sínum. Í Egilsstaðaskóla hittust unglingarnir í 8.-10. bekk.

Vanda Sig talaði um jákvæða leiðtoga

Dagurinn hófst á fræðslu frá Vöndu Sigurgeirsdóttur, eiganda KVAN og formanni Knattspyrnusambands Íslands. Hún talaði um mikilvægi sterkra hópa og jákvæðra leiðtoga: “Það eru þessi litlu hlutir sem við gerum daglega, brosum og þökkum fyrir okkur í mötuneytinu til dæmis. Það þarf ekki einhverja meðfædda leiðtogahæfileika til þess að vera jákvæður leiðtogi, við þurfum bara að takast á við aðstæður með jákvæðni.”

Fjölmenning: Mannflóran

Eftir fræðsluna frá Vöndu skiptust unglingarnir upp eftir bekkjum og sóttu þrjár ólíkar smiðjur. Chanel Björk Sturludóttir sá um smiðju um fjölmenningu og rasisma. Chanel sem er umsjónarkona Mannflórunnar, útvarps- og sjónvarpsþátta á RÚV, er blandaður Íslendingur og kannast við á eigin skinni hvernig við flokkum fólk eftir ríkjandi hugmyndakerfi. Í fjölmenningarsmiðjunni tók Chanel meðal annars fyrir mikilvægi þess að hafa skilning á grunnhugtökum eins og kynþáttafordómum, menningarfordómum, öráreiti, forréttindum og fleiru. Þá var spurningum frá unglingunum svarað og sem tóku virkan þátt í umræðum í smiðjunni.

Samskipti og sjálfsmynd: Fokk me – fokk jú

Þau Kári Sigurðsson og Andrea Marel sáu um fræðslu um sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti kynjanna sem ber nafnið Fokk me – fokk jú. Fræðslan byggir á margra ára reynslu þeirra Kára og Andreu af starfi með ungu fólki, samtölum við unglinga, fyrirspurnum, reynslusögum og skjáskotum frá unglingum. Rætt var um þá þætti sem hafa áhrif á mótun sjálfsmyndar á unglingsárunum og mikilvægi virðingar í samskiptum, hvort sem um er að ræða samskipti á netinu eða í eigin persónu. Einnig talað um samþykki og mörk, farið yfir algengar birtingarmyndir neikvæðra samskipta, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis á stafrænu formi og bent á leiðir til bregðast við slíku.

Jákvæð skilaboð: Orðasmiðjan

Í Orðasmiðjunni sá Árni Pálsson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Nýungar, um að styðja unglingana við að koma jákvæðum skilaboðum niður á blað. Úr urðu litrík og skemmtileg plaköt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Plakötin munu svo prýða veggi félagsmiðstöðvanna og hvetja til jákvæðrar orðræðu.

Pylsur og stórt ball

Í hádeginu voru grillaðar pylsur og gátu unglingar og starfsfólk notið veðurblíðunnar á torgi Egilsstaðaskóla. Um kvöldið var slegið til heljarinnar balls í Félagsmiðstöðinni Nýung en unglingar úr öllu Múlaþingi voru þar saman komnir undir dynjandi takti plötusnúðsins DJ Tadasar.

Vel heppnaður forvarnadagur unglingastigs í Múlaþingi
Getum við bætt efni þessarar síðu?