Fara í efni

Viðburðarríkt sumar framundan í Múlaþingi

29.06.2023 Fréttir

Sumarið er svo sannarlega komið á Austurland (og vonandi ekki farið aftur). Beiðni hefur verið móttekin varðandi aukið sólskin það sem eftir lifir sumars og vonandi verður hægt að bregðast við henni með besta móti.

En nóg um veðrið, það er gríðarlega fjölbreytt dagskrá í sumar og nóg um að vera um gjörvallt Múlaþing. Hér má finna upptalningu af hinu og þessu:

Um helgina fer hin al-íslenska og geisivinsæla torfæra fram á vegum Isavia. Þriðja og fjórða umferð íslandsmótsins verður í Mýnesi um komandi helgi bæði laugardag og sunnudag.

Dyrfjallahlaupið sem er utanvegahlaup um Víknaslóðir er svo sannarlega farið að festa sig í sessi og þar verður eitthvað í boði fyrir bæði hlaupara og klappliðið en fyrir utan hlaupið sjálft verður boðið upp á tónleika með Snorra Helga, Fílalag verða með opna upptöku, bjórhlaup, fjallahjólaferð, bryggjujóga og uppistand með Bergi Ebba. Það verður enginn svikinn af því að leggja leið sína til Borgarfjarðar helgina 7.–8. júlí.

Sömu helgi verður Fjórðungsmót Austurlands í hestaíþróttum á Stekkhólma og Sumarhátíð UÍA á Egilsstöðum. Af annarri útivist og hreyfingu þá eru ferðafélög svæðisins með fjölbreyttar göngur í boði á ýmsum erfiðleikastigum að ógleymdu opna golfmót Vök Baths á Ekkjufellsvelli sem fer fram 8. júlí.

Fjöldi tónlistarfólks leggur land undir fót, ásamt frábæru heimafólki og halda tónleika í tónlistarsölum svæðisins, kirkjum og í náttúrunni. Kiosk 108 á Seyðisfirði mun bjóða upp á fjölbreytta tónleika og viðburði. Hefð er fyrir tónleikaröðum í kirkjum svæðisins en síðustu tónleikar Tónlistarstunda í Egilsstaðakirkju er 10. júlí með fjölþjóðlega söngkvintettnum OLGA Vocal Ensemble. Sumartónleikaröð Djúpavogskirkju hefst 6. júlí og dreifist yfir mánuðinn, þar spilar sami söngkvintett, auk tónleika með Guðmundi R og hljómsveit, Hildi Völu og Jóni Ólafs og Unu Torfa. Tónleikaröðin Bláa kirkjan í Seyðisfjarðarkirkju hefst um miðjan mánuðinn með fjölbreyttri dagskrá.

Nú fer hver að vera síðastur að tryggja sér miða á Bræðsluna á Borgarfirði. Í kringum bræðslutónleikana er líka spennandi utandagskrá, til að mynda drusluganga, Leikhópurinn Lotta og fótboltamót. Í Fjarðarborg verður tónleikaröð vikuna fyrir Bræðslu en sama tónleikaröð vakti mikla lukku síðasta sumar.

Samsýningin hvað var – hvað er – hvað verður?” opnar þann 8. júlí í samtímalistasafninu ARS LONGA á Djúpavogi. Á myndlistarsýningunni verða verk 16 vel kunnra listamanna og auk þess að á opnuninni verða fluttir gjörningar. Sýningin verður opin fram í ágúst. Myndlistarunnendur geta einnig litið við á yfirstandandi sýningar í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, Skaftfelli á Seyðisfirði og Glettu á Borgarfirði.

LungA, Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, hefst síðan 9. júlí með fjölbreyttum viðburðum, myndlistarsýningum, gjörningum, smiðjum fyrir ungmenni og börn og síðast en ekki síst tónleikum; Pussy Riot verða með gjörning og tónleika þrjú kvöld í hátíðarvikunni og spennandi tónleikadagskrá verður í Herðubreið yfir helgina 14.–15. júlí þar sem fjöldi tónlistarfólks spilar, þar á meðal Kælan Mikla, Dream Wife og Countess Malaise.

Ýmislegt verður í boði fyrir börnin en ásamt barnadagskrá á LungA Bliss mun Leikhópurinn Lotta stoppa í öllum kjörnum Múlaþings á leið sinni í kringum landið og sýnir söngleikinn Gilitrutt seinni hluta júlí. Þá verða götuhjólastrákarnir BMX Brós með BMX sýningu og námskeið við Sláturhúsið þann 30. júlí.

Hýr Halarófa verður að venju haldin á sama tíma og Gleðigangan, þann 12. ágúst á Seyðisfirði. Eins verður Hinsegin Austurland sýnilegt á fjölda viðburða í sumar.

Ekki er allt upptalið enda af mörgu að taka en nánari upplýsingar um tímasetningar og frekari dagskrá má nálgast á viðburðadagatali Múlaþings. Viðburðahaldarar eru hvattir til að senda inn sína viðburði. Það er svo sannarlega gaman að vera til yfir sumarið og tekið skal fram að langflestir viðburðir yrðu ekki að veruleika nema með dugnaði og hugsjón sjálfboðaliða og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir.

Viðburðarríkt sumar framundan í Múlaþingi
Getum við bætt efni þessarar síðu?