Fara í efni

Viðhorfskönnun vegna skemmtiferðaskipa

23.11.2023 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Seyðisfjörður

Á næstu dögum verður gerð könnun á viðhorfi íbúa Múlaþings 18 ára og eldri til komu skemmtiferðaskipa í hafnir sveitarfélagsins. Tilgangur könnunarinnar er að komast að viðhorfi íbúa almennt, hvað sé vel gert og hvað megi betur fara. Gert er ráð fyrir að greina megi niðurstöður meðal annars út frá kyni, aldri og búsetu. Könnunin er framkvæmd af Prósenti og tekur gagnaöflunin um það bil 2 - 3 vikur. Áætlað er að niðurstöður liggi fyrir í lok árs og verða þær þá kynntar opinberlega. Til að uppfylla ákvæði persónuverndarlaga verður hringt í væntanlega þátttakendur og samþykki þeirra fengið áður en könnun er send hvort sem er í tölvupósti eða með SMS-i. Markmiðið er að ná 360 svörum sem verða eins og áður segir vigtuð með tilliti til kyns og aldurs til að hægt sé að alhæfa um niðurstöður með 95% vissu. Könnunin gefur íbúum tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og eru þeir hvattir til að taka þátt.

Spurningum varðandi könnunina má beina til Gauta Jóhannessonar, staðgengils hafnarstjóra í netfangið gauti.johannesson@mulathing.is.

Viðhorfskönnun vegna skemmtiferðaskipa
Getum við bætt efni þessarar síðu?