Fara í efni

Vindorkugreining í Múlaþingi

19.09.2022 Fréttir

Út er komin skýrsla um greiningu á hentugleika svæða til nýtingar vindorku í Múlaþingi. Greiningin var unnin út frá samfélags-, umhverfis- og tæknilegum þáttum og fól í sér að nýta landupplýsingar til að greina hentug svæði til vindorkunýtingar innan sveitarfélagsins. Hægt er að skoða skýrslu Eflu hér.

EFLA verkfræðistofa hefur unnið að verkefninu síðastliðið ár að beiðni sveitarfélagsins og fjallaði sveitarstjórn Múlaþings um skýrsluna á fundi sínum þann 16. september síðastliðinn þar sem samþykkt var að niðurstöðurnar yrðu nýttar við vinnslu nýs aðalskipulags. Ekki ber þó að líta svo á að um samþykkta stefnu sé að ræða heldur er greiningunni ætlað að vera þekkingargrunnur sem stefnumörkun getur byggt á.

Niðurstöður greiningarinnar gefa yfirlit yfir svæði sem geta verið hentug til nýtingar á vindorku út frá viðmiðum sem voru valin af sérfræðingum EFLU í orku-, umhverfis- og skipulagsmálum í samráði við fulltrúa sveitarfélagsins Múlaþings.

Þær takmarkanir sem miðað var við í þessari greiningu eru friðlýst svæði, valin hverfisvernduð svæði, óbyggð víðerni auk 5 km jaðarsvæðis þeirra, jöklar, vötn stærri en 1 km2, brunn- og grannsvæði vatnsverndar, svæði með landhalla yfir 30%, nærsvæði umhverfis byggð (1 km), vegi (0,1 km) og flutningsmannvirki raforkukerfisins (0,1 km), friðlýstar menningarminjar og 100 m friðhelgað svæði utan þeirra og hindranafletir flugvalla.

Völdum áhrifaþáttum er skipt í tæknilega áhrifaþætti og umhverfis og samfélagslega áhrifaþætti. Tæknilegu áhrifaþættirnir eru meðalvindhraði, fjarlægð frá tengipunkt við flutningskerfið, fjarlægð frá vegum, landhalli og landhæð. Umhverfis og samfélagslegu áhrifaþættirnir sem að horft var til eru aðrar náttúruminjar, friðlýst svæði vegna virkjunar vatnsorku, jaðarsvæði óbyggðra víðerna, hverfisvernduð svæði og afþreyingar og ferðamannasvæði úr aðalskipulagi, mikilvæg fuglasvæði, votlendi, sjávarfitjar, leirur, jarðhitasvæði, gígar, fossar, stöðuvötn og tjarnir samkvæmt. 61. grein náttúruverndarlaga, náttúrulegir og ræktaðir skógar, fjarsvæði vatnsverndar og öryggissvæði umhverfis byggð, vegi og flutningsmannvirki raforkukerfisins.

Niðurstaða greiningarinnar leiðir í ljós að stór svæði innan sveitarfélagsins Múlaþings hafa sérstöðu á landsvísu vegna víðerna eða einstakrar náttúru, sem valið hefur verið að vernda og henta því illa fyrir vindorkunýtingu vegna fyrirliggjandi stefnumörkunar, laga eða annarra takmarkana. Aðrar takmarkanir koma einnig til, til að mynda vegna flugs, menningarminja, jökla og mannvirkja. Alls er sveitarfélagið um 10.668 km2 og ná takmarkanir yfir um 8.668 km2 svæði innan þess, eða um 81% af flatarmáli þess. Eftir standa 19% af landssvæði sveitarfélagsins, sem voru metin út frá gefnum áhrifaþáttum. Til að greina það svæði betur var því skipt upp í tvo flokka, það er svæði sem þarf að skoða betur ef til vindorkunýtingar á að koma og svæði sem henta vel fyrir nýtingu vindorku.

Við túlkun á niðurstöðu greiningarinnar þarf að hafa í huga að hún byggir á upplýsingum sem teknar hafa verið saman fyrir sveitarfélagið allt og miðast við þá þekkingu, gögn og lagaumhverfi sem liggur fyrir í dag. Greiningin byggir á ýmsum gögnum sem geta breyst, til dæmis staðsetning vega og flutningslína og afmörkun verndarsvæða. Breytingar á þessum gögnum geta haft áhrif á hentugleika ákveðinna svæða og ráðlagt er að endurskoða niðurstöður greiningarinnar ef verulegar breytingar eiga sér stað á takmörkunum og áhrifaþáttum sem líklegar eru til að hafa áhrif á niðurstöðu greiningarinnar.

Svæði sem þarf að skoða betur ef til vindorkunýtingar á að koma sýnd með gulu og svæði sem henta vel…
Svæði sem þarf að skoða betur ef til vindorkunýtingar á að koma sýnd með gulu og svæði sem henta vel fyrir nýtingu vindorku með grænu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?