Sýning Kjarval á Austurlandi verður opnuð í Skaftfell listamiðstöð á þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Kjarval á Austurlandi er sýning á vegum Listasafns Íslands sem unnin hefur verið í samstarfi við Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi. Á sýningunni eru landslagsmyndir frá Austurlandi eftir Jóhannes S. Kjarval (1885-1972), flestar úr fórum Listasafns Íslands. Á Borgarfirði eystri eru æskustöðvar Kjarvals og þangað lagði hann oft leið sína á fullorðinsárum og sótti þá efnivið verka sinna til hins tignarlega landslags á Austurlandi. Verkin á sýningunni spanna tímabilið frá 1919 til 1960; olíumálverk sem og vatnslita- og grafíkmyndir. Sum verkanna birta sýn Kjarvals á þekkjanlega staði, svo sem Dyrfjöll og Strandatind á Seyðisfirði, en önnur skírskota til alþýðutrúar og birta ímyndunarauðgi listamannsins og tilraunahneigð í efnistökum.
Jóhannes S. Kjarval er einn af frumherjum íslenskrar nútímamyndlistar. Oft er sagt að þessi ástsæli listamaður hafi opnað augu Íslendinga fyrir sérstæðri fegurð landsins og þá ekki síst þeirri fegurð sem finna má við hvert fótmál.
Verkefnið er hluti af
stærra samstarfsverkefni sem Minjasafn Austurlands og Sláturhúsið menningarmiðstöð komu að auk Skaftfells. Síðasta haust setti Minjasafn Austurlands upp
sýningu með gripum úr eigu Kjarvals í Sláturhúsinu og stendur sú sýning enn yfir. Þá var öllum 6. bekkingum á Austurlandi einnig boðið að koma í Sláturhúsisins og sjá
leikskýninguna Kjarval í uppfærslu Borgarleikhússins auk þess að skoða sýningu Minjasafnsins.
Sýningin stendur til 4. október.