Fara í efni

Samgönguáætlun 2026 - 2040

Málsnúmer 202512034

Vakta málsnúmer

Byggðaráð Múlaþings - 173. fundur - 03.12.2025

Viðbrögð Múlaþings við nýrri samgönguáætlun
Eftirfarandi bókun lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings lýsir yfir gífurlegum vonbrigðum með forgangsröðun jarðganga í tillögu að nýrri samgönguáætlun sem innviðaráðherra kynnti á blaðamannafundi í dag. Þar kom fram að Fjarðarheiðargöng verða ekki næstu jarðgöng á Íslandi né eru þau á lista yfir jarðgöng næstu áratuga. Lengi hefur legið fyrir að rjúfa þurfi vetrareinangrun á Seyðisfirði með jarðgöngum ekki síst vegna ofanflóðahættu. Þegar hafa um 600 milljónir farið í rannsóknir og hönnun Fjarðarheiðarganga sem eru fullhönnuð og tilbúin til útboðs.
Kjörnir fulltrúar á Austurlandi hafa sameinast um stefnu varðandi uppbygginu samgönguinnviða í gegnum Svæðisskipulag Austurlands og með ítrekuðum bókunum SSA allt frá árinu 2013. Eingöngu með hringtengingu öruggra heilsárs samgangna, þar sem Fjarðarheiðargöng eru fyrsti áfanginn, verður fjölkjarnasamfélagið Austurland að einu atvinnu- og þjónustusvæði sem getur vaxið áfram á eigin forsendum og verðleikum. Ljóst er að Fjarðagöng, sem innviðaráðherra leggur til að verði númer 2-3 á jarðgangalista, munu ekki ein og sér skapa örugga hringtengingu á Austurlandi því áfram verða Fjarðarheiði og Fagridalur farartálmar milli Héraðs og Fjarða vegna ófærðar og snjóflóðahættu á Fagradal.
Ein aðalforsendan fyrir tilurð Múlaþings voru bættar samgöngur innan sveitarfélagsins um Fjarðarheiðargöng og Öxi. Samgöngubætur hafa bein áhrif á byggðaþróun og atvinnulíf, styrkja ferðaþjónustu og skapa traustari forsendur fyrir framtíðaruppbyggingu á svæðinu.
Byggðaráð Múlaþings felur sveitarstjóra að óska eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins sem allra fyrst.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Þröstur Jónsson lagði fram eftirarandi bókun:
Sem áheyrnarfulltrúi tek ég heils hugar undir bókun Byggðaráðs en bóka sérstaklega eftirfarandi:

Meirihluti og minnihluti að undanskildum minnsta hlutanum mætti líta sér nær. Minnsti hlutinn (M-listinn) er margbúinn að benda á að Fjarðarheiðargöng eru ekki forsvaranleg efnahagslega ef þau eru bara til að "600 - 700 Seyðfirðingar komist í Bónus á Egilsstöðum". Minnsti hlutinn hefur lagt áherslu á að gera þessi jarðgöng verðmætari með því að leggja þunga áherslu á samnýtingu innviða sem þau tengja:
- Eina mikilvægustu tengingu landsins við Evrópu, Seyðisfjarðarhöfn,
- Egilsstaðaflugvöllur,
- komandi iðnaðarsvæði við Eyvindarárstöð og
- væntanleg vinnsla jarðhita í Eiðaþinghá
Aðrir í sveitarstjórn hafa ekki tekið undir þessar áherslur okkar og beinlínis lagst gegn þeim með skemmandi aðalskipulagsbreytingum Héraðsmegin, fyrst með flutningi gangnamunna inn í "afdal" og síðan svo nefndrar Suðurleiðar frá göngum. Sveitarstjórnarmenn frá Borgarfirði Eystra gátu ekki einu sinni staðið í lappirnar þegar kom að hreinum og beinum samgönguhagsmunum Borgfirðinga í þessu samhengi.

Þá er dapurlegt er að horfa upp á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, við að stuðla að því að auðvelda erlendum auðmönnum að leggja undir sig austfirska firði fyrir umdeilda starfsemi. Seyðfirðingar og ein stærsta útflutningshöfn landsins situr uppi með óásættanlegar samgöngur yfir hæsta fjallveg landsins.

Heimastjórn Borgarfjarðar - 64. fundur - 04.12.2025

Innviðaráðherra kynnti í gær, 3. desember, tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2026-2040 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2026-2030.


Á áætlun fyrir Borgarfjörð eru eftirfarandi verkefni:

Sjóvarnir í Njarðvík, 2. áfanga seinkað til 2027 en verður ekki að fullu lokið fyrir 2030 skv. aðgerðaáætlun.
Sjóvarnir Í Gerðisfjöru á áætlun 2028.
Endurbygging löndunarbryggju í bátahöfn við Hafnarhólma er á áætlun fyrir 2027 en Hafnir Múlaþings standa undir kostnaði við framkvæmdina svo hún geti hafist 2026.

Samkvæmt áætluninni eru ljóst að framkvæmdir í samgöngumálum í sveitarfélaginu verða litlar sem engar á kjörtímabili ríkisstjórnarinnar og þær forsendur sem gefnar voru til sameiningar eru brostnar. Íbúum sveitarfélagsins og sérstaklega Seyðfirðingum er sýnd algjör lítilsvirðing með framkomu ríkisvaldsins.

Samþykkt einróma.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 64. fundur - 04.12.2025

Ríkisstjórn Íslands kynnti í gær, 3. desember, tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2026-2040 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2026-2030.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá aðför að Múlaþingi og Austurlandi og einkum og sér í lagi Seyðisfirði, sem felst í tillögu ríkisstjórnarinnar að samgönguáætlun, og felur í sér þá fordæmalausu ákvörðun að sópa burt þegar undirbúnu og tilbúnu verkefni á svæðinu auk frestunar annarra brýnna verkefna og þeim neikvæðu áhrifum sem af hljótast fyrir íbúa og atvinnulíf og framþróum svæðisins.
Heimastjórn lýsir áhyggjum af þeirri aðferðafræði sem ríkisstjórnin viðhefur með því að fara gegn gildandi stefnu sem Alþingi hefur samþykkt á grundvelli sáttar sveitarfélaga á svæðinu og faglegs undirbúnings.
Boðuð svo kölluð hringtenging með Fjarðagöngum leysir með engu móti vetrareinangrun og öryggi vegfarenda, og íbúa fjarðanna, inn á þjónustusvæðið á Egilsstöðum og aðgang að flugvelli. Leiðirnar um Fjarðarheiði, Fagradal og Öxi verða áfram hindrun og óásættanlegar í öryggislegu tilliti. Frestun framkvæmda við Egilsstaðaflugvöll gengur gegn flugstefnu Íslands og markmiðum um flugöryggi á flugumsjónarsvæðinu við Ísland.
Heimastjórn Fljótsdalshéraðs beinir því til sveitarstjórnar að skora á ríksstjórnina að taka illa ígrundaða tillögu, hvað svæðið varðar, til endurskoðunar. Sú endurskoðun taki tillit til raunverulegra staðhátta og aðstæðna íbúa.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?