Fara í efni

Heimastjórn Borgarfjarðar

64. fundur 04. desember 2025 kl. 08:00 - 12:00 á skrifstofu sveitarfélagsins, Borgarfirði
Nefndarmenn
  • Eyþór Stefánsson formaður
  • Ólafur Arnar Hallgrímsson aðalmaður
  • Jón Sigmar Sigmarsson varamaður
Starfsmenn
  • Alda Marín Kristinsdóttir fulltrúi sveitarstjóra
Fundargerð ritaði: Alda Marín Kristinsdóttir fulltrúi sveitarstjóra
Í upphafi fundar lagði formaður fram tillögu um að bæta við máli á dagskrá, fundarlið nr. 13 Samgönguáætlun 2026-2040. Tillagan var borin upp og samþykkt samhljóða.

1.Fjárhagsáætlun Múlaþings 2026 til 2029

Málsnúmer 202504066Vakta málsnúmer

Fyrir liggur til kynningar fjárhagsáætlun Múlaþings 2026 til 2029. Inn á fundinn undir þessum lið kom Guðlaugur Sæbjörnsson, fjármálastjóri.

Heimastjórn þakkar fjármálastjóra fyrir góða yfirferð og gleðst yfir bættri afkomu sveitarfélagsins. Heimastjórn bendir á að engar nýframkvæmdir eru áætlaðar á Borgarfirði í fjárfestingaáætlun A-hluta næstu níu árin og vonast til að tekið verði tillit til þess í öðrum fjárfestingaáætlunum sveitarfélagsins.

Lagt fram til kynningar.

Gestir

  • Guðlaugur Sæbjörnsson - mæting: 08:10

2.Fundir sveitarstjórnar, fagráða og heimastjórna janúar til júlí 2026

Málsnúmer 202511037Vakta málsnúmer

Fyrir liggja drög að fundadagatali sveitarstjórnar, fagráða og heimastjórna tímabilið janúar til júlí 2026.

Heimastjórn Borgarfjarðar gerir ekki athugasemdir við dagatalið.

Samþykkt samhljóða án handauppréttingar.

3.Lindarbakki Borgarfirði

Málsnúmer 202011211Vakta málsnúmer

Fyrir liggur minnisblað frá deildarstjóra menningarmála og fulltrúa sveitarstjóra á Borgarfirði varðandi málefni Lindarbakka auk draga að samningi milli Múlaþings og Minjasafns Austurlands um faglega umsjón með húsinu.

Byggðaráð bókaði á fundi sínum 18. nóvember síðastliðinn að vísa málinu til umsagnar hjá heimastjórn Borgarfjarðar og umhverfis- og framkvæmdaráði og mun taka málið fyrir að nýju þegar umsagnir liggja fyrir.
Heimastjórn fagnar því að verið sé að koma málefnum Lindarbakka í góðan farveg og samþykkir innihald minnisblaðsins fyrir sitt leyti.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

4.Húsnæðisáætlun Múlaþings 2026

Málsnúmer 202510065Vakta málsnúmer

Fyrirhuguð er endurskoðun á 10 ára húsnæðisáætlun sveitarfélagsins og liggur fyrir minnisblað með helstu breytingum sem áætlaðar eru á henni.
Heimastjórn bendir á að þó sveitarfélagið eigi nokkrar leiguíbúðir á Borgarfirði hefur íbúðaskortur hefur verið viðvarandi vandamál og allt að því staðið í vegi fyrir fjölgun íbúa. Bera fjöldi umsókna um hverja leiguíbúð þess vitni.

Starfsmanni falið að uppfæra kafla er snúa að Borgarfirði í samræmi við umræður á fundinum.
Samþykkt samhljóða akvæðagreiðslu.

5.Endurbygging löndunarbryggju í Borgarfjarðarhöfn

Málsnúmer 202511109Vakta málsnúmer

Fyrir liggur til kynningar fundargerð dagsett 26. nóvember síðastliðinn frá fyrsta verkfundi Vegagerðarinnar, Hafna Múlaþings og Úlfsstaða ehf. vegna endurbyggingar gömlu löndunarbryggjunnar í bátahöfninni við Hafnarhólma.

Hafnadeild Vegagerðarinnar hefur yfirumsjón með verkinu og sá um útboð á því. Tvö tilboð bárust og hefur tilboði Úlfsstaða ehf., sem var lægstbjóðandi, verið tekið og var verksamningur undirritaður á fundinum. Úlfsstaðir sáu einnig um smíði nýju löndunarbryggjunnar árið 2024.

Lagt fram til kynningar.

6.Breyting á lóð, Borgarfjörður, Sæból

Málsnúmer 202509207Vakta málsnúmer

Erindi barst frá Önnu Hannesdóttur 30. október síðastiliðinn vegna breytinga á lóðinni Sæbóli á Borgarfirði.

Heimastjórn þakkar fyrir erindið en bendir á að umhverfis- og framkvæmdaráð fer með lóðamál í sveitarfélaginu.
Umhverfis- og framkvæmdaráð bókaði á fundi sínum 24. nóvember síðastliðinn:

Umhverfis- og framkvæmdaráð þakkar fyrir erindið en bendir á að engar heimildir liggi fyrir um samkomulag frá árinu 1990 um stækkun lóðarinnar til norðvesturs.
Fyrirliggjandi drög að hnitsettri afmörkun beggja lóða (Sæból og Sæból/bílskúr) tryggja bæði aðkomu lóðarhafa að fasteignum sínum og gera jafnframt ráð fyrir mögulegri nýtingu á óbyggðum hluta lóðar Búðarinnar (L157316). Þá er ekki fyrirhugað að loka aðgengi lóðarhafa að bílskúrslóð frá norðvestri.

Heimastjórn hvetur lóðarhafa til að vinna málið áfram með umhverfis- og framkvæmdasviði.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

7.Hraðhleðslustöðvar á Borgarfirði

Málsnúmer 202510167Vakta málsnúmer

Fyrir liggur bréf frá Degi Skírni Óðinssyni, dagsett 14. október 2025 með hvatningu um að sett verði upp hraðhleðslustöð fyrir rafbíla á Borgarfirði.
Heimastjórn þakkar Degi erindið og tekur undir ábendingar um þörfina fyrir hraðhleðslustöð á Borgarfirði. Áður hefur verið rætt að finna framtíðarstaðsetningu fyrir eldsneytisafgreiðslu og bílaþvottaplan. Heimastjórn telur fýsilegt að þetta verði skoðað heildstætt og samþykkir að vísa málinu til umhverfis- og framkvæmdaráðs til frekari vinnslu.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

8.Hafnarhús

Málsnúmer 202010633Vakta málsnúmer

Samkvæmt samningi um rekstur Hafnarhúss skal heimastjórn funda með leigutaka einu sinni á ári. Auður Vala Gunnarsdóttir eigandi Blábjarga ehf. sem rekur Hafnarcafe í Hafnarhúsi, átti ekki heimangengt en átti fund með fulltrúa sveitarstjóra á Borgarfirði 26. nóvember sl.
Fulltrúi sveitarstjóra fór yfir þá punkta sem fram komu á fundinum. Rekstaraðilar eru jákvæðir og þykir reksturinn kominn í gott horf. Samningur um reksturinn rennur út 2027 og taka þarf ákvörðun tímanlega um hver næstu skref verða.

Lagt fram til kynningar.

9.Atvinnumál á Borgarfirði

Málsnúmer 202510026Vakta málsnúmer

Heimastjórn átti fund með Sigurjóni Þórðarsyni, formanni atvinnuveganefndar Alþingis 10. október sl. vegna stöðu atvinnumála á Borgarfirði en ýmsar blikur eru á lofti; Íslenskur dúnn ehf., hefur flutt starfsemi sína til Reykjavíkur og aðgerðir stjórnvalda í sjávarútvegi og ferðaþjónustu hafa þegar haft og munu halda áfram að hafa neikvæð áhrif á kjarnaatvinnuvegi staðarins. Þá er fyrirsjáanlegt að aðrar boðaðar aðgerðir stjórnvalda muni einnig bitna á byggðalaginu.
Fyrir liggja drög að minnisblaði um fundinn og atvinnumál á Borgarfirði.
Heimastjórn samþykkir að vísa málinu til byggðaráðs til frekari úrvinnslu.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

10.Samningur um uppbyggingu ljósleiðaraneta

Málsnúmer 202411108Vakta málsnúmer

Málinu frestað til næsta fundar.

11.Skýrsla fulltrúa sveitarstjóra á Borgarfirði

Málsnúmer 202212043Vakta málsnúmer

Endurbygging gömlu löndunarbryggjunnar hefst eftir áramót, eins og fram hefur komið. Verktaki stefnir á að hefja forvinnu strax eftir áramót á starfsstöð sinni á Seyðisfirði, þ.e. forsmíða steypumót og járnabinda allt í undirstöðum og landvegg. Efnið verður svo flutt á Borgarfjörð. Fyrstu verkefni á Borgarfirði verða að fjarlægja gömlu þekjuna af bryggjunni, jarðvinna, fleygun staura og staurarekstur. Nánari dagsetningar verða kynntar síðar. Afhending á harðviði í bryggjugólf verður væntanlega í apríl 2026.
Viðbúið er að eigendur báta sem bundnir eru við löndunarbryggjuna þurfi að færa sig tímabundið um set vegna framkvæmdanna. Fulltrúi sveitarstjóra verður í nánara sambandi við þá eftir áramót vegna þessa.

Framkvæmdum er að ljúka í Fjarðarborg en þær hófust veturinn 2023. Verið er að ljúka við að klæða húsið og snurfusa innanhúss. Helstu breytingar eru að skipt hefur verið um alla glugga, inngangur í húsið verið færður til, lyftu sem stoppar á öllum fimm hæðum hússins komið fyrir, stigi færður og salerni fyrir fatlaða útbúið. Þá var aftur opnað fyrir glugga í stóra salnum og húsið málað að innan. Innréttingar í eldhúsi voru einnig endurnýjaðar að nokkru leyti og skipulagi þess breytt. Á efri hæð hússins er nú nýtt og bjart skrifstofurými fyrir u.þ.b. átta til tíu manns, kaffistofa fyrir hæðina og salerni, sem ekki var áður, og líkamsræktaraðstaða UMFB. Þá er búið að setja upp loftræstikerfi og brunakerfi í húsinu. Verklok eru um áramót. Enn á þó eftir að klára frágang í kjallara undir sviði þar sem leki kom upp síðastliðið vor, sem og að endurnýja salerni á neðri hæð en það bíður betri tíma.

Með bættri starfsaðstöðu í Fjarðarborg hefur starfsfólki á skrifstofu Múlaþings á Borgarfirði fjölgað úr einum í þrjá en í október hófu störf Anna Margrét Jakobsdóttir Hjarðar á umhverfis- og framkvæmdasviði og Þórunn Ólafsdóttir á fjölskyldusviði. Þá hafa verið gerðar breytingar á skipulagi í þjónustumiðstöð og hefur verkstjóri þjónustumiðstöðvar á Egilsstöðum nú einnig umsjón með þjónustumiðstöð á Borgarfirði. Auglýst hefur verið eftir starfskrafti í þjónustumiðstöð á Borgarfirði og rann umsóknarfresturinn út 24. nóvember.

Í Fjarðarborg geta framhalds- og háskólanemar einnig tekið sín lokapróf og verða þó nokkur slík þreytt á næstu vikum.
Vilji einstaklingar og/eða fyrirtæki kanna möguleika á að nýta skrifstofuaðstöðuna í Fjarðarborg, hvort sem er um lengri eða skemmri tíma er velkomið að hafa samband við fulltrúa sveitarstjóra. Verðskrá er að finna á þessari slóð: https://www.mulathing.is/is/stjornsysla/fjarmal/gjaldskrar#fjardarborg

Jólaskreytingar voru settar upp í vikunni fyrir fyrsta sunnudag í aðventu en um helgina var Jóladagurinn haldinn í fimmta sinn en hann er framtak íbúa og fyrirtækjaeigenda á Borgarfirði til að lyfta íbúum og nágrönnum á Stór-Borgarfjarðarsvæðinu upp í skammdeginu. Frábær skemmtun og fjölbreytt og hafi aðstandendur bestu þakkir fyrir alla sína vinnu.

Rekstur tjaldsvæðisins á Borgarfirði verður boðinn út á næstu vikum og verður auglýst sérstaklega.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands tók sýni úr neysluvatni mánudaginn 24. nóvember síðastliðinn og kom sú mæling mjög vel út. Samkvæmt upplýsingum frá HEF veitum er þó seinkun á uppsetningu gegnumlýsingartækis við vatnstankinn vegna tafa við að koma upp nýju tæknirými þar. Lögð er áhersla á að því verði lokið í vor.

Fræðslufundir um varmadælur verða haldnir í Múlaþingi á næstu vikum fyrir tilstilli Austurbrúar og Orkustofnunar. Á Borgarfirði verður slíkur fundur haldinn fimmtudaginn 8. janúar 2026 kl. 12 í Fjarðarborg.

Lagt fram til kynningar.

12.Fundir Heimastjórnar Borgarfjarðar

Málsnúmer 202010615Vakta málsnúmer

Næsti fundur heimastjórnar Borgarfjarðar verður á nýju ári, fimmtudaginn 8. janúar 2026. Erindi fyrir fundinn þurfa að berast fyrir kl. 12:00 mánudaginn 5. janúar. Erindi skal senda á netfangið alda.kristinsdottir@mulathing.is eða bréfleiðis til skrifstofu.

13.Samgönguáætlun 2026 - 2040

Málsnúmer 202512034Vakta málsnúmer

Innviðaráðherra kynnti í gær, 3. desember, tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2026-2040 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2026-2030.


Á áætlun fyrir Borgarfjörð eru eftirfarandi verkefni:

Sjóvarnir í Njarðvík, 2. áfanga seinkað til 2027 en verður ekki að fullu lokið fyrir 2030 skv. aðgerðaáætlun.
Sjóvarnir Í Gerðisfjöru á áætlun 2028.
Endurbygging löndunarbryggju í bátahöfn við Hafnarhólma er á áætlun fyrir 2027 en Hafnir Múlaþings standa undir kostnaði við framkvæmdina svo hún geti hafist 2026.

Samkvæmt áætluninni eru ljóst að framkvæmdir í samgöngumálum í sveitarfélaginu verða litlar sem engar á kjörtímabili ríkisstjórnarinnar og þær forsendur sem gefnar voru til sameiningar eru brostnar. Íbúum sveitarfélagsins og sérstaklega Seyðfirðingum er sýnd algjör lítilsvirðing með framkomu ríkisvaldsins.

Samþykkt einróma.

Fundi slitið - kl. 12:00.

Getum við bætt efni þessarar síðu?