Fara í efni

Upplýsingar vegna Covid-19

21.12.2021 Fréttir Covid - 19

Engin smit greindust á Austurlandi síðastliðinn sólarhring. Um helgina, frá föstudegi til sunnudags, greindust átta ný smit. Í heildina eru því 42 í einangrun og 66 í sóttkví á Austurlandi.

Ljóst er að faraldurinn er á uppleið á landsvísu og metfjöldi smita greindist innanlands í gær. Í dag hafa verið tilkynntar hertar innanlandsreglur sem taka gildi á miðnætti annað kvöld. Fyrirtæki og stofnanir eru sérstaklega hvattar til að rýna þessar nýju reglur og huga að sóttvörnum við hæfi, mögulegri hólfaskiptingu og fleira líkt og gert hefur verið áður þegar sambærilegar reglur hafa gilt.

Við þurfum að halda áfram að vera vakandi og sinna vel persónubundnum sóttvörnum. Ef einhver einkenni gera vart við sig, þó lítilvæg séu, þá er mikilvægt að bóka einkennasýnatöku þ.e. PCR sýnatöku, (EKKI hraðpróf sem eru bara hugsuð fyrir einkennalausa), og halda sig heima á meðan beðið er eftir niðurstöðum. Kvef, nefrennsli eða hálssærindi eru líka einkenni og því er ekkert sem heitir „bara smá kvef“ lengur á COVID tímum.

Undanfarið hafa verið tekin færri PCR sýni á Reyðarfirði og Egilsstöðum, sem gæti skýrt færri nýgreind smit hér í fjórðungnum. Aðgerðastjórn vill því hvetja alla þá sem telja sig hafa verið útsetta fyrir smiti, hafa verið í margmenni eða eru með einhver einkenni sem geta bent til COVID-19, að fara í PCR sýnatöku.

Göngum í takt hér eftir sem hingað til en sérstaklega nú í aðdraganda hátíða.

Tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi
Getum við bætt efni þessarar síðu?