Vel heppnuðum framkvæmdum við sumarhús Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals í Hjaltastaðaþinghá var fagnað í Kjarvalshvammi um helgina. Unnið hefur verið að endurbótum á húsunum í hvamminum undanfarin ár auk þess sem nýtt bílastæði og upplýsingaskilti hafa verið tekin í notkun.
Sumarhús og bátaskýli Jóhannesar Kjarvals standa í hvammi einum í landi Ketilsstaða í Hjaltastaðaþinghá sem í seinni tíð hefur gengið undir nafninu Kjarvalshvammur. Sumarhúsið var reist árið 1954 eftir að Kjarval hafði dvalið í nágrenni hans í tjaldi og heillast af svæðinu. Hann fór þess þá á leit við Björn Guttormsson, bónda á Ketilsstöðum, að hann fengi að reisa sér þar athvarf sem var auðsótt.
Húsin í hvamminum eru í eigu Múlaþings en Minjasafn Austurlands hefur haft umsjón með þeim frá árinu 1995. Fram kom í máli Dagmarar Ýrar Stefánsdóttur, sveitarstjóra Múlaþings, við þetta tilefni að árið 1993 hefðu afkomendur Kjarvals gefið þáverandi Hjaltastaðahreppi húsin enda væru þau best varðveitt í höndum heimafólks „sem hefði að líkindum mestan metnað til að varðveita þessar eignir afa þarna nærri hans uppvaxtarstað“ eins og fram kemur í afsali. „Ég tel að það hafi verið gæfuspor því Minjasafnið hefur hlúð vel að staðnum um árabil“ sagði Dagmar.
Hún talaði einnig um mikilvægi staða eins og húsanna í Kjarvalshvammi fyrir samfélagið: „Hús Kjarvals í Hvamminum eru minnisvarði um tengsl hans við Múlaþing og ást hans á svæðinu. Án þeirra og þeirrar uppbyggingar sem hér hefur átt sér stað væru tengsl Kjarval við svæðið ekki eins augljós. Hér er áningastaður og þau sem fara hér um fá innsýn í fortíðina og þennan hluta af sögu okkar. Hér stoppar fólk, les sér til, nýtur útsýnis og leggur af stað aftur fróðara um Kjarval og hin sterku tengsl hans við svæðið.“
Elsa Guðný Björgvinsdóttir, fyrrverandi safnstjóri Minjasafns Austurlands, sagði frá þeim framkvæmdum sem farið hafa fram á undanförnum árum undir stjórn Björns Björgvinssonar húsasmíðameistara og með styrkjum frá Húsafriðunarsjóði, Safnasjóði, Múlaþingi og fleirum. Viðamesta verkefnið var án efa viðgerð á undirstöðum hússins sem voru orðnar mjög lélegar en til þess að gera við þær þurfti að hýfa húsið af undirstöðum sínum. Fyrir nokkrum árum var svo einnig ráðist í vegagerð á svæðinu á vegum Vegagerðarinnar og legu vegarins framhjá hvamminum breytt lítillega. Í kjölfar þess lét Vegagerðin gera nýtt bílastæði og göngustíg að hvamminnum auk þess sem Minjasafn Austurlands lét gera ný og endurbætt upplýsingaskilti sem sett voru upp við stæðið.
Björn Sveinsson, barnabarn Björn Guttormssonar á Ketilsstöðum, las upp úr bréfum sem þeim tveimur fóru á milli en þeir voru miklir vinir. Kjarval dvaldi í hvamminum í ein 20 sumur og var aufúsugestur á heimili Björns og fjölskyldu hans. Þórína Sveinsdóttir, kona Björns, sá til þess að Kjarval hefði nóg að borða á meðan dvöl hans stóð og börnin á bænum höfðu gaman af að heimsækja hann.
Björg Björnsdóttir, núverandi safnstjóri Minajsafns Austurlands, sagði frá því að mikil Kjarvals vakning væri samfélaginu um þessar mundir. Nú standa til dæmis yfir tvær sýningar tengdar listamanninum í Múlaþingi en báðar eru þær hlutar af samstarfsverkefninu Kjarval á Austurlandi. Annars vegar er þar um að ræða sýningu á vegum Minjasafns Austurlands í Sláturhúsinu á Egilsstöðum en þar er fjallað um tengsl Kjarvals við Austurland. Þar eru til sýnis persónulegir gripir listamannsins sem safnið varðveitir. Þá stendur yfir myndlistarsýning í Skaftfelli á Seyðisfirði, sem sett var upp í samstarfi við Listasafn Íslands, en þar eru til sýnis verk Kjarvals sem sýna staði á Austurlandi eða eru innblásin af landshlutanum. Í haust verður síðan sett upp sýning í Listasafninu á Akureyri þar sem til sýnis verða skissur eftir Kjarval sem varðveittar eru á Minjasafni Austurlands en safnið fékk myndarlegan styrk frá Seðlabanka Íslands til að láta forverja þær.