Fara í efni

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs

34. fundur 05. apríl 2023 kl. 10:00 - 12:10 á skrifstofu sveitarfélagsins, Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Vilhjálmur Jónsson formaður
  • Dagmar Ýr Stefánsdóttir aðalmaður
  • Jóhann Gísli Jóhannsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Óðinn Gunnar Óðinsson skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Óðinn Gunnar Óðinsson skrifstofustjóri
Í upphafi fundar bar formaður upp tillögu um að nýtt mál yrði tekið á dagskrá fundarins og var það samþykkt samhljóða. Málið er númer 8 á dagskránni og hefur málsnúmer 202304005.

1.Verklagsreglur fyrir fjallskilamál í Múlaþingi

Málsnúmer 202303064Vakta málsnúmer

Fyrir liggur minnisblað frá Margréti Ólöfu Sveinsdóttur, verkefnastjóra umhverfismála hjá Múlaþingi, og Páli Baldurssyni, verkefnastjóra hjá Austurbrú, þar sem lagðar eru fram tillögur sem miða að því að samræma verklag fyrir allar fjallskiladeildir Múlaþings.

Eftirfarandi bókun var gerð í byggðaráði 28.3. 2023:
Byggðaráð Múlaþings felur sveitarstjóra að koma athugasemdum, í samræmi við umræðu á fundinum, á framfæri við verkefnastjóra umhverfismála og samþykkir jafnframt að uppfært minnisblað verði lagt fyrir heimastjórnir til umsagnar.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs tekur undir þær tillögur sem fram koma í minnisblaðinu en felur starfsmanni að koma athugasemdum heimastjórnar til byggðaráðs.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

2.Erindisbréf nefnda

Málsnúmer 202206247Vakta málsnúmer

Fyrir liggur minnisblað frá skrifstofustjóra þar sem fram koma tillögur að breytingum á 3.gr. í erindisbréfi heimastjórna.

Eftirfarandi bókun var gerð í byggðaráði 28.3. 2023:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að vísa fyrirliggjandi tillögum að breytingum á 3.gr. í erindisbréfi heimastjórna til heimastjórna til umsagnar. Er umsagnir heimastjórna liggja fyrir verða tillögurnar teknar til afgreiðslu í byggðaráði.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs gerir ekki athugasemdir við tillögur þær sem fram koma í minnisblaðinu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Samfélagsverkefni heimastjórna

Málsnúmer 202302101Vakta málsnúmer

Fyrir liggja tillögur að samfélagsverkefnum á Fljótsdalshéraði en íbúum gafst tækifæri til að senda inn tillögur sínar með tölvupósti eða bréfleiðis.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs felur starfsmanni koma áherslum heimastjórnar til umhverfis- og framkvæmdasviðs.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Kynning á miðbæ á Egilsstöðum

Málsnúmer 202303219Vakta málsnúmer

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs beinir því til byggðaráðs að aukin áhersla verði lögð á að kynna enn frekar möguleika og kosti uppbyggingar í nýlega skipulögðum miðbæ Egilsstaða og að fenginn verði aðili til að fyglja verkefninu eftir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Umsagnarferli vegna umsóknar um rekstrarleyfi fyrir Hótel Stuðlagil, á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal

Málsnúmer 202303054Vakta málsnúmer

Fyrir liggur frá Sýslumanninum á Austurlandi beiðni um umsögn vegna umsóknar frá Remote hotels ehf, kennitala 6312151060, dagsett 6.3. 2023, um leyfi til reksturs gististaðar í flokki IV-A Hótel, að Skjöldólfsstöðum á Jökuldal, 701 Egilsstaðir.
Málið var áður á dagskrá heimastjórnar 24.3.2023 en vegna athugasemda sýslumanns þarf að taka málið fyrir aftur.

Fyrir liggur jákvæð umsögn byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa. Einnig jákvæð umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands og Brunavörnum á Austurlandi.

Með vísan til 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, veitir heimastjórn Fljótsdalshéraðs jákvæða umsögn og staðfestir jafnframt að staðsetning staðar sem umsóknin lýtur að, sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segir til um.

Jafnframt samþykkir heimastjórn Fljótsdalshéraðs að afgreiðslutími áfengisveitinga verði virka daga frá kl. 08.00 til kl. 23.30 og aðfaranætur frídaga frá kl. 08.00 til kl. 03.00 og að afgreiðslutími útiveitinga verði virka daga frá kl. 8.00 til kl. 23.30 og aðfaranætur frídaga frá kl. 8.00 til kl. 23.30, sbr. Lögreglusamþykkt fyrir Múlaþing.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Umsagnarbeiðni um tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, 914. mál.

Málsnúmer 202303246Vakta málsnúmer

Fyrir liggur til umsagnar tillaga til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040.

Samkvæmt drögunum er meginmarkmið landbúnaðarstefnunnar að efla og styðja við íslenskan landbúnað þannig að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Sett er fram framtíðarsýn í 15 liðum og meginviðfangsefni flokkuð í 10 liðum.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs telur jákvætt og fagnar því að til standi að setja landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Heimastjórnin tekur undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Einnig telur heimastjórn Fljótsdalshéraðs mikilvægt að aðgerðaáætlun styðji við stefnuna þannig að rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi geri starfsaðstæður og starfskjör þeirra sem starfa í landbúnaði sambærileg og samkeppnishæf við það sem almennt gerist á vinnumarkaði á Íslandi.
Þá leggur heimastjórn áherslu á að brýnt sé að aðgerðaáætlun styðji við að sem fyrst komi til framkvæmda leiðir til að styðja við kynslóðaskipti og nýliðun í landbúnaði. Liður í því gæti verið að koma á búsetuskyldu á lögbýlum vegna uppkaupa og jarðasöfnunar aðila.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Fylgiskjöl:

7.Umsagnarbeiðni um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (svæðaskipting strandveiða), 861. mál.

Málsnúmer 202303249Vakta málsnúmer

Fyrir liggur til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (svæðaskipting strandveiða).

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs gerir ekki athugasemd við frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Fylgiskjöl:

8.Umsögn vegna Snocrossmóts 2023

Málsnúmer 202304005Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá Start Akstursíþróttaklúbbi þar sem óskað er eftir leyfi sveitarfélagsins til að halda Snocrossmót á Fjarðarheiði 15.04.2023, kl. 12.00, síðustu keppnina í meistaramóti Íslands.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs samþykkir að veita umbeðið leyfi með þeim fyrirvara að allra nauðsynlegra leyfa og trygginga verði aflað. Jafnframt skal leyfishafi annast öryggisgæslu, lokanir og merkingar sem nauðsynlegar eru til að tryggja öryggi keppenda, áhorfenda og annarra.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 12:10.

Getum við bætt efni þessarar síðu?