Fara í efni

Austurvegur 22 - leyndir gallar

Málsnúmer 202011122

Vakta málsnúmer

Byggðaráð Múlaþings - 5. fundur - 24.11.2020

Fyrir lá erindi frá kaupanda eignarinnar Austurvegur 22 á Seyðisfirði.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð telur ekki forsendur til að fallist verði á kröfu kaupenda um bætur vegna leyndra galla og hafnar erindinu.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Byggðaráð Múlaþings - 7. fundur - 15.12.2020

Fyrir lágu upplýsingar og tillögur frá kaupanda fasteignarinnar Austurvegur 22 á Seyðisfirði varðandi ástand eignarinnar. Málið var áður á dagskrá byggðaráðs þriðjudaginn 24.11.20.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings telur að ekki séu til staðar forsendur til að falla frá þeirri niðurstöðu er kemur fram í bókun fundar byggðaráðs þriðjudaginn 24.11.20.

Samþykkt með 5 atkvæðum, en tveir sátu hjá (ES og HÞ)

Byggðaráð Múlaþings - 12. fundur - 16.02.2021

Fyrir lágu tölvupóstar frá eiganda fasteignarinnar Austurvegur 22 á Seyðisfirði auk greinargerðar varðandi ástand eignarinnar.

Byggðaráð samþykkir að fresta afgreiðslu málsins, en mun taka það fyrir aftur að fengnum frekari upplýsingum og álitum, m.a. frá fasteignasala.

Byggðaráð Múlaþings - 13. fundur - 23.02.2021

Fyrir lá greinargerð fasteignasala er annaðist sölu á fasteigninni Austurvegur 22 fyrir hönd Seyðisfjarðarkaupstaðar. Fram kemur m.a. í greinargerðinni að varað hafi verið við ástandi hússins í söluyfirliti og að bent hafi verið á að ástand hússins væri ábótavant í kauptilboði og kaupsamningi. Fasteignasali leggur þó til, þrátt fyrir að söluyfirlit hafi varað vel við ástandi hússins og að kaupandi hafi undirritað og staðfest að hafa skoðað eignina vel og hafi verið ljóst að ástand hennar væri ábótavant, að utanaðkomandi aðili verði fenginn til að meta hvort um leynda galla kunni að hafa verið að ræða.
Fyrir lá einnig minnisblað lögmanns vegna sölu á Austurvegi 22 þar sem fram kemur m.a. að með vísan til upplýsinga er fram komu í söluyfirliti og kauptilboði sé ólíklegt að gallar á Austurvegi 22 verði taldir geta leitt til afsláttar í ljósi reglna um leynda galla.


Hildur Þórisdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að málinu sé frestað og kaupanda boðið að koma inn á næsta fund Byggðaráðs til að fara yfir málið.

Tillagan borin upp. Tveir greiddu henni atkvæði (HÞ og ES), en þrír voru á móti (GJ, BHS, VJ)og tillagan þar með felld.


Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til fyrirliggjandi gagna samþykkir Byggðaráð Múlaþings að ekki séu til staðar forsendur til að falla frá þeirri niðurstöðu er fram kemur í bókun fundar byggðaráðs þriðjudaginn 24.11.2020.

Tillagan borin upp og greiddu þrír henni atkvæði (GJ, BHS, VJ), einn var á móti (HÞ) og einn sat hjá (ES)


Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Þetta mál snýst ekki um réttarstöðu sveitarfélagsins gegn einstakling sem það á í viðskiptum við. Þetta mál er miklu frekar prófsteinn á sveitarfélagið, hvernig það tekur aðilum sem hingað koma, taka áhættu til uppbyggingar af hugsjón og alúð.
Þetta mál snýst um viðskipti með það að leiðarljósi að báðir aðilar séu sáttir.
Þetta mál snýst um eldgamalt hús, eina mestu staðarprýði Seyðisfjarðar, í miðjum bænum. Viljum við tryggja að það verði vel uppgert og í því verði líf íbúanna eða ljósin slökkt 9 mánuði ársins sem sumarhús eða gistihús?
Þetta mál snýst um húsnæðisvanda á Seyðisfirði í kjölfar skriðufalla.
Þegar allt er tekið saman þá gæti það verið "win-win" fyrir kaupanda og seljanda sem og samfélagið í heild að sveitarfélagið komi að þessu máli í ljósi sérstakra aðstæðna og mæti kaupanda á miðri leið með uþb. 4 milljóna eftirgjöf af kaupverði. Slíkt yrði vissulega aðeins gert eftir samtal við kaupanda og fjárhagslega skoðun þar sem gengið yrði úr skugga um að kaupandinn sé ekki að fara með fleipur.

Byggðaráð Múlaþings - 18. fundur - 20.04.2021

Fyrir lá erindi frá LEX Lögmannsstofu fyrir hönd Undiröldunnar ehf. vegna kaupa á fasteigninni að Austurvegi 22 á Seyðisfirði. Einnig lá fyrir umsögn frá Sókn Lögmannsstofu um fyrirliggjandi erindi.

Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi breytingartillögu og Helgi Hlynur tók undir hana:
Legg til að Múlaþing gangi til samninga við Undirölduna ehf um afslátt vegna kostnaðar við ófyrirséða galla, öllum aðilum máls til hagsbóta.

Tillagan borin upp og felld með 3 atkvæðum, en 2 sátu hjá (HÞ og ES).

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til þess er fram kemur í umsögn við framkomnu erindi hafnar byggðaráð Múlaþings þeim kröfum er þar eru fram settar.

Tillagan samþykkt með 3 atkv. en 2 sátu hjá, (HÞ og ES)

Getum við bætt efni þessarar síðu?