Fara í efni

Sameiginleg styrkbeiðni björgunarsveita og slysavarnardeilda Múlaþings

Málsnúmer 202011224

Vakta málsnúmer

Byggðaráð Múlaþings - 6. fundur - 01.12.2020

Fyrir lá sameiginlegt erindi frá björgunarsveitum og slysavarnardeildum í Múlaþingi þar sem óskað er eftir sameiginlegum styrk sem samsvarar um kr. 1.800,- á hvern íbúa í sveitarfélaginu, eða um kr. 9.000.000,-, auk viðbótargreiðslu sem nemur álögðum fasteignagjöldum á þeim fasteignum sem notaðar eru undir björgunar- og slysavarnarstarfsemi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram.
Byggðaráð samþykkir að fela sveitarstjóra og fjármálastjóra að taka saman upplýsingar um fyrirhuguð framlög til umræddra aðila í fyrirliggjandi drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 og leggja fyrir næsta fund byggðaráðs. Er þær upplýsingar liggja fyrir verður tekin afstaða til innsends erindis.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Byggðaráð Múlaþings - 11. fundur - 02.02.2021

Fyrir lá samantekt þar sem fram kemur að samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun Múlaþings er gert ráð fyrir að heildarframlög til björgunarsveita á svæðinu nemi um 4,4 milljónir kr. á árinu 2021. Í erindi björgunarsveitanna er óskað eftir beinum framlögum pr. íbúa sem muni nema í heild rúmum 9 milljónum kr. miðað við íbúafjölda sveitarfélagsins í dag. Jafnframt yrði gert ráð fyrir framlögum vegna fasteignagjalda þessu til viðbótar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings lýsir yfir ánægju með það öfluga starf er björgunarsveitir á svæðinu standa að og hefur mikilvægi þeirra sannað sig enn einu sinni í tengslum við náttúruhamfarirnar á Seyðisfirði. Byggðaráð fagnar því jafnframt að fram sé komin hugmynd að sameiginlegum samningi við björgunarsveitirnar til lengri tíma. Sökum þess hversu seint á nýliðnu ári erindið kom fram verður því miður ekki hægt að bregðast við á yfirstandandi ári, með viðbótarfjárframlögum umfram þær 4,4 milljónir kr. er núgildandi fjárheimildir gera ráð fyrir, þar sem slíkt rúmast ekki innan samþykktrar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021. Erindinu er því vísað til vinnslu fjárhagsáætlunar fyrir árin 2022 til 2025 með það að markmiði að gerður verður samningur við björgunarsveitirnar með þeim áherslum er fram koma í innsendu erindi.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Byggðaráð Múlaþings - 40. fundur - 14.12.2021

Fyrir liggja drög að samstarfssamningi milli Múlaþings og björgunarsveitanna Báru, Héraðs, Ísólfs, Jökuls, og Sveinunga.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir fyrirliggjandi drög að samstarfssamningi á milli sveitarfélagsins Múlaþings og björgunarsveitanna Báru, Héraðs, Ísólfs, Jökuls og Sveinunga. Samstarfssamningurinn gildir frá og með 1. janúar 2022 til og með 31. desember 2024 en skal tekinn til endurskoðunar fyrir 1. september 2022. Sveitarstjóra falið undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?