Fara í efni

Strandveiðar 2022

Málsnúmer 202201043

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Borgarfjarðar - 19. fundur - 10.01.2022

Heimastjórn Borgarfjarðar eystri mótmælir harðlega skerðingu aflaheimilda til strandveiða árið 2022 um 1.500 tonn.

Í reglugerð sem sett var 21. desember síðastliðinn minnkaði ráðherra áætlaðar aflaheimildir til strandveiða um 1.500 tonn úr 10.000 tonnum í 8.500 tonn af þorski.

Á undanförnum árum hafa ungir menn haslað sér völl í útgerð með útgerð strandveiðibáta á Borgarfirði.

Afli strandveiði báta er stór hluti landaðs afla yfir sumartímann þannig að skerðing á afla til strandveiða kemur því niður á íbúum.

Það eru gríðarleg vonbrigði að ekki séu tryggðir 48 dagar til strandveiða ár hvert.

Heimastjórn vísar málinu til sveitarstjórnar.

Heimastjórn Djúpavogs - 22. fundur - 13.01.2022

Heimastjórn Djúpavogs mótmælir harðlega skerðingu aflaheimilda til strandveiða árið 2022 um 1.500 tonn. Í reglugerð sem sett var 21. desember síðastliðinn minnkaði ráðherra áætlaðar aflaheimildir til strandveiða um 1.500 tonn úr 10.000 tonnum í 8.500 tonn af þorski. Á undanförnum árum hefur afli strandveiði báta er mikilvægur partur af lönduðum afla yfir sumartímann þannig að skerðing á afla til strandveiða kemur því niður á íbúum og atvinnu. Það eru gríðarleg vonbrigði að ekki séu tryggðir 48 dagar til strandveiða ár hvert, vilji er allt sem þarf til að tryggja stöðugleika í strandveiðum í kringum landið.

Heimastjórn vísar málinu til sveitarstjórnar.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 20. fundur - 07.02.2022

Heimastjórn tekur undir eftirfarandi bókun heimastjórnar Borgarfjarðar varðandi skerðingu aflaheimilda strandveiðibáta fiskveiðiárið 2021/2022 og mótmælir harðlega skerðingunni:

"Heimastjórn Borgarfjarðar eystri mótmælir harðlega skerðingu aflaheimilda til strandveiða árið 2022 um 1.500 tonn.

Í reglugerð sem sett var 21. desember síðastliðinn minnkaði ráðherra áætlaðar aflaheimildir til strandveiða um 1.500 tonn úr 10.000 tonnum í 8.500 tonn af þorski."

Heimastjórn Borgarfjarðar - 23. fundur - 09.05.2022

Fyrir liggur reglugerð um fyrirkomulag strandveiða sumarið 2022.

Heimastjórn þykir miður að svo virðist sem 12 dagar verði ekki tryggðir til veiða hvern mánuð út strandveiðitímabilið 2022. Fyrirkomulag veiðanna skv. reglugerð ýtir undir að strandveiðisjómenn rói í tvísýnum veðrum og minnkar þar af leiðandi öryggi strandveiðisjómanna.

Landinu er skipt upp í fjögur veiðisvæði, sem veiða öll úr sameiginlegum potti. Heimastjórn teldi sanngjarnara að aflaheimildum til strandveiða hefði verið skipt niður á veiðisvæði úr því að ekki var unnt að tryggja 12 veiðidaga hvern þessara fjögurra mánaða.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu

Heimastjórn Borgarfjarðar - 24. fundur - 24.06.2022

Heimastjórn Borgarfjarðar hefur áður lýst yfir megnri óánægju með núverandi fyrirkomulag strandveiða þar sem það mismunar strandveiðisjómönnum milli landssvæða. Það er algjörlega ótækt að á meðan 48 dagar eru ekki tryggðir til strandveiða sé sameiginlegur pottur fyrir landið allt. Það veldur því að svæði þar sem fiskgengd er seinni part tímabilsins bera skarðan hlut frá borði og kemur í veg fyrir nýliðun og þátttöku í kerfinu á þeim svæðum. Núverandi kerfi veldur því að samkeppni myndast milli landssvæða og sjómenn fara út í víðsjárverðum veðrum sem er þvert á það sem stefnt var að með 48 daga kerfinu.

Strandveiðar eru atvinnulífi á Borgarfirði eystri gríðarlega mikilvægar og síðsumars er aflinn mestur og verðmætastur. Heimastjórn skorar á sveitarstjórn Múlaþings að beita sér fyrir því að strandveiðar verði tryggðar út ágúst.

Heimastjórn Borgarfjarðar mun jafnframt senda matvælaráðherra bréf í samræmi við umræður fundarins.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 25. fundur - 29.06.2022

Fyrir liggur bókun heimastjórnar Borgarfjarðar, dags. 24.06.2022, varðandi fyrirkomulag strandveiða 2022.

Til máls tóku: Eyþór Stefánsson og Helgi Hlynur Ásgrímsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með heimastjórn Borgarfjarðar og beinir því til matvælaráðherra að sjá til þess að strandveiðar verði heimilaðar út ágúst. Eins og fram kemur í bókun heimastjórnar Borgarfjarðar veldur núverandi fyrirkomulag strandveiða því að svæði þar sem aflinn er mestur síðsumars bera verulega skarðan hlut frá borði og við því er eðlilegt að verði brugðist.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?