Fara í efni

Erindi til sveitarfélaga vegna móttöku flóttafólks

Málsnúmer 202203102

Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð Múlaþings - 40. fundur - 22.03.2022

Fjölskylduráð Múlaþings tekur undir bókun Sveitarstjórnar Múlaþings frá 9. mars 2022 sem er eftirfarandi:
Sveitarstjórn Múlaþings fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu og brot þeirra á sjálfstæði og sjálfræði þjóðarinnar. Sveitarstjórn lýsir yfir fullum stuðningi við úkraínsku þjóðina og þær aðgerðir er alþjóðasamfélagið hefur gripið til gegn yfirvöldum í Rússlandi. Sveitarstjórn Múlaþings lýsir sig reiðubúna til að koma að aðstoð við fólk á flótta og tekur einróma undir yfirlýsingu Evrópusamtaka sveitarfélaga.

Byggðaráð Múlaþings - 51. fundur - 19.04.2022

Sveitarstjóri gerði grein fyrir samskiptum við eigendur Eiðastaðar varðandi mögulegt samstarf sveitarfélagsins, eigenda Eiðastaðar og stjórnvalda um að koma upp bráðabirgðasamfélagi fyrir úkraínskt flóttafólk á Eiðum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings lýsir yfir stuðningi við þær hugmyndir er unnið er að varðandi mögulega móttöku flóttafólks frá Úkraínu á Eiðum og felur sveitarstjóra að vinna áfram að framgangi málsins.

Samþykkt samhljóða á atkvæðagreiðslu.

Byggðaráð Múlaþings - 52. fundur - 03.05.2022

Fyrir lá minnisblað varðandi mögulega móttöku flóttafólks á Eiðum sem og eintak af þjónustusamningi á milli félagsmálaráðuneytis og sveitarfélags um móttöku, aðstoð og þjónustu við hóp flóttafólks. Fram kom að umræddur samningur væri í endurskoðun.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings felur sveitarstjóra eða hefja viðræður við félagsmálaráðuneyti og eigendur Eiða um mögulega útfærslu verkefnisins. Í framhaldi af þeim viðræðum verði, ásamt stjórnendum fjölskyldusviðs, það útlistað hvernig aðkomu sveitarfélagsins verði háttað.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 30. fundur - 14.12.2022

Fyrir liggja drög að samningi um samræmda móttöku flóttafólks á milli sveitarfélagsins og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Til máls tóku: Hildur Þórisdóttir sem bar upp fyrirspurn, Björg Eyþórsdóttir, Björn Ingimarsson sem svaraði fyrirspurn Hildar, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Björn Ingimarsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Þröstur Jónsson og Helgi Hlynur Ásgrímsson

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþing samþykkir fyrirliggjandi drög að samningi um samræmda móttöku flóttafólks og leggur sérstaka áherslu á móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Sveitarstjóra falið að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er minn skilningur að fyrirliggjandi drög að samning séu til samþykktar eingöngu til að tryggja framgang móttöku flóttafólks frá Úkraínu á samningstímanum. Að þeim skilningi gefnum samþykki ég fyrirliggjandi samningsdrög.
Getum við bætt efni þessarar síðu?