Fara í efni

Almenningsbókasöfnin sameinuð í Bókasafn Múlaþings

23.12.2025 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Frá og með 1. janúar 2026 verða almenningsbókasöfnin í Múlaþingi sameinuð í eina stofnun, Bókasafn Múlaþings. Markmið sameiningarinnar er að efla starfsemi safnanna á hverjum stað og samræma þjónustu þeirra við íbúa.

Söfnin sem um ræðir eru Bókasafn Héraðsbúa, Bókasafn Seyðisfjarðar og Bókasafn Djúpavogs en tvö síðarnefndu söfnin eru einnig skólabókasöfn.

Eðli bókasafna hefur breyst mikið í gegnum árin og í dag snýst starfsemi þeirra um miklu meira en útlán bóka. Nútímabókasöfn eru skilgreind sem samfélagsmiðjur, það er að segja menningar-, upplýsinga- og menntastofnanir þar sem íbúar geta sótt sér upplýsingar, fræðslu og afþreyingu. Þá er hlutverk þeirra einnig að vera svokallað þriðja rými íbúa, það er að segja hlutlaust athvarf utan heimilis, vinnu og skóla, þar sem aðgangur er ókeypis og öll eru velkomin. Síðast en ekki síst gegna bókasöfnin lykilhlutverki þegar kemur að því að efla læsi og áhuga barna og ungmenna á lestri. Í menningarstefnu Múlaþings er lögð áhersla á þessi hlutverk bókasafnanna.

Markmið breytinganna er fyrst og fremst að efla söfnin, styrkja þau til að sinna þessum hlutverkum sínum og samræma þjónustu þeirra sem hefur verið mjög mismunandi fram að þessu. Mikið samstarf hefur verið milli safnanna þriggja frá sameiningu sveitarfélaganna en með því að sameina þau í eina stofnun er samstarfið fest í sessi, starfsemin samræmd og búið til sterkara bakland fyrir starfsfólkið á hverjum stað.

Kolbrún Erla Pétursdóttir mun veita Bókasafni Múlaþings forstöðu. Kolbrún er bókasafns- og upplýsingafræðingur og kennari að mennt og hefur verið forstöðumaður Bókasafns Héraðsbúa síðan árið 2021. Áður starfaði hún meðal annars sem forstöðumaður Bókasafns Seyðisfjarðar, umsjónarmaður bókasafns Seyðisfjarðarskóla og kennari við Seyðisfjarðarskóla. Þá hefur verið auglýst eftir starfsmanni á starfsstöð safnsins á Djúpavogi í hærra starfshlutfalli en verið hefur hingað til og einnig verður bætt við hlutastarfsmanni við starfsstöðina á Egilsstöðum. Auglýsingar fyrir störfin má finna hér.

Fyrir hinn almenna notanda hefur sameiningin ekki miklar breytingar í för með sér til að byrja með en í framtíðinni er ætlunin að auka opnunartíma og bjóða upp á ýmsar nýjungar. Sem fyrr geta allir íbúar Múlaþings fengið bókasafnskort sér að kostnaðarlausu og gildir það á öllum starfsstöðvum safnsins. Þá er ætlunin að auka þjónustu við íbúa á Borgarfirði með því að bjóða upp á að þeir geti pantað sér bækur og gera fólki kleift að skila bókum í Fjarðarborg að lestri loknum.

Elsa Guðný Björgvinsdóttir er deildarstjóri menningarmála hjá Múlaþingi: „Rekstur bókasafna er lögbundin skylda sveitarfélaga og þau eru mikilvægar stofnanir í nútímasamfélagi. Reynslan hefur sýnt að þar sem söfnin eru öflug eru íbúar duglegir að nýta þau og gestafjöldi eykst ár frá ári. Við viljum að þjónustan sé mikil og góð á öllum starfsstöðvum Bókasafns Múlaþings og ætlum að vinna að því á næstu misserum með starfsfólki nýs safns“.

Í nútímasamfélagi snýst starfsemi almenningsbókasafna um margt fleira en útlán bóka og þar getur fól…
Í nútímasamfélagi snýst starfsemi almenningsbókasafna um margt fleira en útlán bóka og þar getur fólk komið saman í ýmsum tilgangi. Myndin er frá vinkonudegi Soroptimistaklúbbs Austurlands á bókasafninu á Seyðisfirði. Ljósmynd: Sonia Del Carmen Stefánsson.
Getum við bætt efni þessarar síðu?