Að lokinni flugelda- og sprengjugleði áramótanna er mikilvægt að koma flugeldarusli á réttan stað. Íbúar eru beðnir um að hreinsa upp eftir sig svo flugeldaruslið valdi ekki óþarfa sóðaskap.
Á Egilsstöðum og Seyðisfirði verða gámar undir flugeldarusl við þjónustumiðstöðvar fram að 13. janúar. Íbúar eru hvattir til að fara með allt flugeldaruslið sitt í þá.
Á Borgarfirði og Djúpavogi er hægt að fara með flugeldarusl á söfnunarstöðvar fyrir úrgang á opnunartíma þeirra. Einnig er hægt að hafa samband við starfsfólk þjónustumiðstöðva.
Hjálpumst að við að halda umhverfinu hreinu þannig að áramótahátíðin skilji eftir sig góðar minningar – en ekki rusl í umhverfinu.
Er hægt að flokka og endurvinna flugeldarusl?
- Flugeldarusl, það er flugeldar sem búið er að sprengja, eins og skotkökur, tertur og rakettur, flokkast sem blandaður úrgangur og fer í urðun. Flugeldarusli á að skila í viðeigandi gáma eða á söfnunarstöð.
- Ósprengdir flugeldar flokkast sem spilliefni og ber að skila á söfnunarstöð.
- Stjörnuljós flokkast sem málmar og er hægt að fara með á grenndarstöð eða á söfnunarstöð.
- Umbúðir utan af flugeldum, til dæmis plastumbúðir og kassar sem innihalda ekkert púður, má setja í flokkunartunnur við heimili eða fara með á söfnunarstöð.
Hvar er hægt að henda flugeldarusli?
Íbúar á Fljótsdalshéraði geta hent flugeldarusli í gám við þjónustumiðstöðina á Egilsstöðum, milli þjónustumiðstöðvar og söfnunarstöðvar. Staðsetning.
Íbúar á Seyðisfirði geta hent flugeldarusli í gám framan við þjónustumiðstöðina. Staðsetning.
Íbúar á Djúpavogi geta farið með flugeldarusl á söfnunarstöðina á Háaurum á opnunartíma eða haft samband við starfsfólk þjónustumiðstöðvar í síma 470 8744. Staðsetning.
Söfnunarstöðin á Háaurum er opin:
- Þriðjudaga og fimmtudaga frá klukkan 13:30 - 16:30
- Laugardaga frá klukkan 11:00 - 13:00
Íbúar á Borgarfirði geta haft samband við starfsfólk þjónustumiðstöðvar í síma 470 0772.
Frekari upplýsingar um frágang flugelda eftir áramót má nálgast á úrgangssíðu Umhverfis- og orkustofnunar, urgangur.is.