Fara í efni

Sameiginleg bókun Múlaþings og Fjarðabyggðar

15.12.2025 Fréttir

Á sveitastjórnarfundi Múlaþings í dag var eftirfarandi tillaga sveitarstjórnarinnar og bæjarráðs Fjarðabyggðar samþykkt samhljóða:

Bæjarráð Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Múlaþings lýsa yfir gríðarlegum vonbrigðum með samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar og þá köldu kveðju sem hún felur í sér fyrir fjórðunginn. Ljóst er að Austurland er sett í frost.
Breytingar á samgönguáætlun verða að byggja á faglegum forsendum og vönduðum rökum. Hún er lykiltæki til að tryggja gagnsæi og fyrirsjáanleika í innviðauppbyggingu. Framþróun sveitarfélaga má ekki ráðast af mismunandi pólitískum áherslum ráðherra hverju sinni. Trúverðug forgangsröðun er forsenda þess að sveitarfélög og atvinnulíf geti skipulagt uppbyggingu til lengri tíma.
Að engar stórar framkvæmdir skuli vera á fyrsta tímabili fyrir Austurland er óásættanlegt. Slík niðurstaða gengur þvert á gefin fyrirheit um að hækkun veiðigjalda myndi skila sér aftur til samfélaganna og skapa fjárhagslegt svigrúm til innviðafjárfestinga. Austurland er næst í röð jarðgangaverkefna og ólíðandi er að horfa fram hjá þeirri staðreynd.
Bæjarráð Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Múlaþings krefjast þess að Alþingi taki tillögu að samgönguáætlun til heildstæðrar endurskoðunar og tryggi Austurlandi réttmæta og sanngjarna hlutdeild í framkvæmdum á fyrsta tímabili hennar.

Sama tillaga var studd á nýlegum fundi Sambands svetarfélaga á Austurlandi (SSA). 

Við tillöguna bætti sveitarstjórn Múlaþings þess að hún krefst þess að ekki verði vikið frá forgangsröð gildandi samgönguáætlunar og strax verði farið í útboð og framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng.
Þess er einnig krafist að Axarvegur verið tekinn af lista yfir samvinnuverkefni og að framkvæmdum á þeim vegi verði flýtt. Í ljósi áherslna á aukna vetrarþjónustu fer sveitarstjórn fram á að vegurinn verði nú þegar tekinn af G-reglu Vegagerðarinnar og verði þjónustaður í samræmi við þá miklu umferð sem um hann fer.
Mikilvægt er að tryggja aukið fjármagn í framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll í samræmi við flugstefnu Íslands og markmið um flugöryggi á flugumsjónarsvæðinu við Ísland. Þá eru mikil vonbrigði að sjá hafnarframkvæmdum á Seyðisfirði frestað og að ríkið ætli að lækka framlag sitt til þeirra framkvæmda úr 60% í 40%.
Sveitarstjórn Múlaþings telur ríkisstjórnina sýna sveitarfélögunum á Austurlandi bæði vanvirðingu og tómlæti sem ekki verður við unað með framlagðri samgönguáætlun. Samstöðu landshlutans sem birtist í Svæðisskipulagi Austurlands og bókunum SSA er gefið langt nef.
Allir flokkar sem að ríkisstjórninni standa svíkja fyrri loforð sín og brjóta þannig niður það traust sem á að vera grundvöllur samstarfs ríkis og sveitarfélaga. Slíkt verklag er óboðlegt og óásættanlegt.

Sveitarstjóra var í framhaldinu falið að koma bókuninni á framfæri við alþingismenn, forsætisráðherra, innviðaráðherra og fjármálaráðherra.

Sveitarstjórn var svartklædd á fundi sínum í dag
Sveitarstjórn var svartklædd á fundi sínum í dag
Getum við bætt efni þessarar síðu?