Fara í efni

Heimastjórn Seyðisfjarðar

60. fundur 04. september 2025 kl. 09:00 - 11:55 á skrifstofu sveitarfélagsins, Seyðisfirði
Nefndarmenn
  • Jónína Brynjólfsdóttir formaður
  • Jón Halldór Guðmundsson aðalmaður
  • Margrét Guðjónsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Inga Þorvaldsdóttir fulltrúi sveitarstjóra
Fundargerð ritaði: Inga Þorvaldsdóttir fulltrúi sveitarstjóra

1.Fjarðarheiðargöng

Málsnúmer 202208012Vakta málsnúmer

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn Seyðisfjarðar leggur áherslu á að ríkisvaldið standi við fyrirheit um fjármögnun þeirra samgönguúrbóta sem eru í gildandi samgönguáætlun og eru í samræmi við ályktanir SSA undanfarin áratug og Svæðisskipulag Austurlands 2022 - 2044.
Áratugum saman hefur legið fyrir að leysa þurfi óöruggar og ótryggar samgöngur til og frá Seyðisfirði með jarðgöngum en Vegagerðin hefur lýst því yfir að ekki verði hægt að endurbyggja veginn yfir Fjarðarheiði vegna bratta og tíðra lokana að vetrarlagi. Í samgönguáætlun fyrir árin 2011- 2022 er samþykkt að fara í göng til Seyðisfjarðar undir Fjarðarheiði og hefur framkvæmdin verið á samgönguáætlun síðan þá enda eru göngin fullhönnuð og tilbúin í útboð.
Kallað hefur verið eftir samgönguúrbótum með hringtengingu á miðsvæði Austurlands sem rýfur vetrareinangrun byggðalaga og tryggir ávallt öruggar samgöngur meðal annars þegar hættuástand skapast vegna ofanflóða. Eingöngu með hringtengingu samgangna verður fjölkjarnasamfélagið Austurland að einu atvinnu- og þjónustusvæði sem getur vaxið áfram á eigin forsendum og verðleikum.
Heimastjórn Seyðisfjarðar leggur þunga áherslu á að framkvæmdir hefjist við Fjarðarheiðargöng sem fyrst og að samhliða fari fram rannsóknir og hönnun ganga frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar líkt og er á gildandi framkvæmdahluta samgönguáætlunar. Sú samgönguáætlun var samþykkt samhljóða 2020 og er í samræmi við bókun meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis við samþykkt hennar. Heimastjórn vísar málinu til umfjöllunar í sveitarstjórn.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


2.Fjárfestingaráætlun 2026

Málsnúmer 202508196Vakta málsnúmer

Fyrir lágu drög að fjárfestingaráætlun 2026. Eftirfarandi var bókað a fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs 1.sept sl.
" Umhverfis- og framkvæmdaráð vísar fyrirliggjandi drögum að 10 ára fjárfestingaráætlun til umsagnar hjá ungmennaráði, öldungaráði, samráðshópi um málefni fatlaðs fólks, byggðaráði, fjölskylduráði og heimastjórnum. Áætlunin verður tekin fyrir að nýju."
Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn gerir alvarlegar athugsemdir við framkomna fjárfestingaáætlun 2026 um seinkun byggingar Seyðisfjarðarskóla með því að lækka fjárfestingarframlag úr 225 milljónum í 65 milljónir á árinu 2026. Mikilvægt er að framkvæmdin dragist ekki enn frekar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Þjónustustefna í byggðum og byggðarlögum sveitarfélaga

Málsnúmer 202310013Vakta málsnúmer

Fyrir liggur stefna Múlaþings fyrir árið 2025 um þjónustustig í byggðum Múlaþings. Einnig liggur bókun byggðaráðs frá 12.8.2025, þar sem skrifstofustjóra er falið að hefja árlega vinnu við uppfærslu stefnu um þjónustustig í byggðum Múlaþings í samvinnu við heimastjórnir og fagráð Múlaþings.
Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn felur starfsmanni að koma ábendingum á framfæri í samræmi við umræður á fundinum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Umhverfisviðurkenningar

Málsnúmer 202409036Vakta málsnúmer

Fyrir liggja tilnefningar frá íbúum vegna umhverfisviðurkenninga Múlaþings.
Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn þakkar fyrir innsendar tilnefningar. Heimastjórn hefur valið úr og tilnefnt í þá þrjá flokka sem hljóta viðurkenningar og felur starfsmanni að koma þeim á framfæri við verkefnastjóra umhverfismála Múlaþings. Umhverfis-og framkvæmdaráð mun svo velja úr tilnefningum heimastjórna í flokkunum: íbúðalóð, fyrirtækjalóð og lögbýli.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Umhverfisþing 2025

Málsnúmer 202508087Vakta málsnúmer

Fyrir liggur bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 25.8.2025 þar sem lagt er til við heimastjórnir, sem fara með hlutverk náttúruverndarnefnda sveitarfélagsins, að tilnefna einn heimastjórnarfulltrúa hver til að sitja Umhverfisþing, hvort heldur í fjar- eða staðfundi, sem haldið verður 15. og 16. september.
Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn stefnir á að fylgjast með umhverfisþinginu í gegnum fjarfundabúnað.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Ályktanir aðalfundar NAUST 23.ágúst 2025

Málsnúmer 202509002Vakta málsnúmer

Fyrir lágu ályktanir aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Austurlands sem var haldinn 23. ágúst 2025.
Lagt fram til kynningar

7.Skýrsla fulltrúa sveitarstjóra á Seyðisfirði

Málsnúmer 202301014Vakta málsnúmer

HEF veitur: Í ágúst sl. endurmældi jarðfræðingur HEF gömlu holurnar, sem boraðar voru um aldamótin í jarðhitaleit í firðinum, og mun í kjölfarið ráðfæra sig við sérfræðinga varðandi niðurstöður þeirra. Að því loknu verður hægt að skipuleggja frekari jarðhitaleit. Búist er við svari frá Orkusjóði varðandi styrk sem HEF sótti fyrir jarðhitaleit og varmadæluinnleiðingu, á allra næstu dögum.
HEF hefur í samstarfi við Orkusöluna unnið að nýjum raforkusamning fyrir rafskautaketilinn í kyndistöðinni og tók hann gildi 1. ágúst s.l. og gildir til lok október 2028.
Hönnun endurnýjaðs stjórnkerfis fyrir rafskautaketilinn er nú lokið og reiknað með að uppsetning á nýju kerfi geti hafist um miðjan september. Að þeim endurbótum loknum má búast við skilvirkari rekstri ketilsins, sem skilar sér í betri raforkunýtni.
Í fyrra fengu HEF veitur úthlutað styrk úr European City Facility (EUCF) sjóðnum til að vinna ítarlega viðskiptaáætlun fyrir kaup og uppsetningu varmadælu í kyndistöð Seyðisfjarðar. Viðskiptaáætlun var skilað inn í ágúst og nýtist til að sækja frekari styrki fyrir verkefnið.
Starfsmenn HEF hafa unnið að lögnum við gamla ríkið, Hafnargötu 11, vegna færslu á húsinu. Tengivinnu á heitu og köldu vatni í húsið er nú lokið, en vinna við fráveitutengingar er ólokið.

Samræming gjaldskráa í íþróttahúsum og sundlaugum í Múlaþings:
Þann 1. september sl. tók í gildi ný og samræmd gjaldskrá í sundlaugum og íþróttamiðstöðvum Múlaþings. Með samræmingunni verður sama verð á aðgangsmiðum og kortum. Kortin gilda jafnt í allar sundlaugar og líkamsræktar sem sveitarfélagið rekur, hvort sem það er 10 skipta kort, mánaðarkort eða árskort.

Sala á húsum til flutnings: Nú er sölu á húsum sem auglýst voru til sölu og flutnings á Búðareyrinni eftir skriður lokið. Öll húsin hafa fengið nýja eigendur, nýjar staðsetningar sem spennandi verður að fylgjast með og sjá rísa upp að nýju. Án efa eiga þau eftir að falla vel að umhverfinu og setja sinn svip á bæinn.

Fundi slitið - kl. 11:55.

Getum við bætt efni þessarar síðu?