Fara í efni

Ósk um umsögn - Umhverfismatsskýrsla vegna Fjarðarheiðarganga

Málsnúmer 202205413

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 24. fundur - 23.06.2022

Heimastjórn fagnar því að fram sé komin umhverfismatsskýrsla vegna fyrirhugaðra Fjarðarheiðarganga. Heimastjórn hvetur sveitastjórn Múlaþings til þess að hraða ákvörðun leiðarvals frá gangnamunna Egilsstaðamegin svo ekki komi til tafa á fyrirhuguðu útboði haustið 2022.

Samantekt á niðurstöðum umhverfismats valkosta á leiðum Seyðisfjarðarmegin sýnir heilt yfir að neikvæð áhrif á umhverfisþætti eru óveruleg en verulega jákvæð á samfélag. Á framkvæmdatíma þarf sérstaklega að gæta að vatnsbóli Seyðisfjarðar og því gerð skil í skýrslunni.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 23. fundur - 27.06.2022

Fyrir liggur frá Skipulagsstofnun, dagsett 23. maí 2022, beiðni um umsögn um mat á umhverfisáhrifum Fjarðarheiðarganga, í samræmi við 16. grein reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að senda umsögn heimastjórnar til Skipulagsstofnunar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 25. fundur - 29.06.2022

Fyrir liggur bókun frá fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar, dags. 23.06.2022, þar sem því er beint til sveitarstjórnar Múlaþings að hraða ákvörðun leiðarvals frá gangnamunna Egilsstaðamegin svo ekki komi til tafa á fyrirhuguðu útboði haustið 2022.

Við upphaf liðar vakti forseti athygli á mögulegu vanhæfi sveitarstjórnarfulltrúa Þrastar Jónssonar.

Umræða
Til máls um mögulegt vanhæfi tóku: Þröstur Jónsson, Jónína Brynjólfsdóttir, Hildur Þórisdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Ásrún Mjöll Stefánsdóttir sem bar upp fyrirspurn, Eyþór Stefánsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Jónína Brynjólfsdóttir sem svaraði fyrirspurn Ásrúnar, Ásrún Mjöll Stefánsdóttir sem bar upp aðra fyrirspurn, Helgi Hlynur Ásgrímsson sem bar einnig upp fyrirspurn, Björn Ingimarsson sveitarstjóri svaraði fyrirspurn Á.M.S. og H.H.Á, Eyþór Stefánsson, Þröstur Jónsson og Ívar Karl Hafliðason

Eyþór Stefánsson lagði fram tillögu um að þessum lið yrði frestað og bar forseti upp tillögu Eyþórs um frestun.

Samþykkt með 6 atkv. og fimm sátu hjá


Byggðaráð Múlaþings - 55. fundur - 05.07.2022

Við upphaf 2. dagskrárliðar vakti formaður athygli á mögulegu vanhæfi áheyrnarfulltrúa Þrastar Jónssonar og lagði til að byggðaráð tæki afstöðu til málsins með atkvæðagreiðslu.

Formaður lagði málið til afgreiðslu og voru 4 samþykkir (BHS, HÞ, ÍKH, VJ) og Helgi Hlynur Ásgrímsson sat hjá.

Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Þrátt fyrir aðvörun lögfræðings Sambands Íslenskra Sveitarfélaga (SÍS), þess efnis að túlka lög um vanhæfi mitt strangt (þröngt) með skírskotun í svo nefnt Mýrdalshrepps mál, hefur Byggðaráð Múlaþings kosið mig vanhæfan.

Það er Byggðaráði til vansa að fresta slíkri vanhæfis-kosningu á síðasta sveitarstjórnarfundi fyrir opnum tjöldum en fara síðan fram með slíka kosningu undir nákvæmlega sama fundarlið/fundarefni fyrir luktum tjöldum Byggðaráðs.

Blóðbönd ein og sér nægja ekki til vanhæfis skv. 20 grein sveitarstjórnarlaga, heldur þarf SVO SÉRSTAKLEGA að hátta til að almennt má ætla að viljaafstaða mín mótist að einhverju leiti af blóðtengslum við landeigendur jarðanna Dalhúsa og Egilsstaða 1. Ekkert slíkt hefur komið fram sem sýnir fram á að "SVO SÉRSTAKLEGA" sé háttað, enda er ekkert slíkt til staðar í mínu tilfelli. Ég mun því leita úrskurðar Innviðaráðuneytis í máli þessu og ef með þarf dómstóla.

Ég krefst í ljósi þessa að öll málsmeðferð og ákvarðanataka er varðar leiðarval frá Fjarðarheiðargöngum Héraðs megin verði frestað þar til endanleg niðurstaða um ætlað vanhæfi mitt verður komin frá innviðaráðuneyti eða dómstólum, leiti ég til þeirra. Ábyrgð á þeirri frestun sem málsmeðferð þessi kann að valda á að Fjarðarheiðargöng komist í framkvæmd, vísa ég alfarið á þá sem á þessum fundi greiddu ætluðu vanhæfi mínu atkvæði sitt.

Vék Þröstur Jónsson af fundi undir þessum lið og Örn Bergmann Jónsson kom í hans stað.

Fyrir liggur bókun frá fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar, dags. 23.06.2022, þar sem því er beint til sveitarstjórnar Múlaþings að hraða ákvörðun leiðarvals frá gangnamunna Egilsstaðamegin svo ekki komi til tafa á fyrirhuguðu útboði haustið 2022.

Lagt fram til kynningar.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 73. fundur - 16.01.2023

Álit Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar vegna fyrirhugaðra Fjarðarheiðarganga sem gefið var út í lok árs 2022 lagt fram til kynningar.

Sveinn Jónsson (M-lista) lagði fram eftirfarandi bókun:
Áliti Skipulagsstofnunar er fagnað og það talið unnið af vandvirkni. Svo sem vænta mátti tekur álitið að stærstum hluta á því er varðar leiðaval frá gangamunna héraðs megin. Álitið varpar all skýru ljósi á margvíslega ágalla umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar, sem verður því að bæta vinnubrögð sín fyrir alla ákvarðanatöku.
Á það þó ekki hvað síst við um það, að matið tekur ekki til heildarumfangs leiða héraðs megin frá sameiginlegum upphafspunktum á Egilsstaðanesi annars vegar og Hnútu hins vegar.
Getum við bætt efni þessarar síðu?