Fara í efni

Gott að eldast - förum alla leið - samþætt þjónusta í heimahúsum

Málsnúmer 202308168

Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð Múlaþings - 80. fundur - 05.09.2023

Tekið er fyrir erindi frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti sem hafa kallað eftir umsóknum frá sveitarfélögum og heilbrigðisyfirvöldum til þátttöku í þróunarverkefni um samþættingu félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar. Verkefnið byggir á grunni aðgerðaráætlunarinnar Gott að eldast sem Alþingi samþykkti þann 10. maí 2023 og miðar að því að bæta þjónustu við eldri borgara með samþættri þjónustu, nýsköpun og þróun nýrra þjónustuleiða. Sex svæði á landinu verða valin til þátttöku og verður árangur af samþættingunni notaður til að skipuleggja framtíðar skipulag þjónustu innan málaflokksins sem og að leiða fram kosti og galla þessa vinnulags. Samstarfaðilum verður veittur skipulagður stuðningur og ráðgjöf við innleiðingu þróunarverkefnanna auk eftirfylgni og mats á árangri.

Fjölskylduráð samþykkir fyrir sitt leyti að sækja um aðild að þróunarverkefninu í samstarfi við HSA með það að leiðarljósi að skoða frekari kosti og galla samþættrar þjónustu innan Múlaþings en vill leggja áherslu á mikilvægi þess að aukið fjármagn fylgi frá ríki til sveitarfélaga vegna framtíðarskipulags í þjónustu við eldri borgara. Allir geta verið sammála um það að farsæl öldrun felist að stærstum hluta í aukinni félagslegri þjónustu á heimilum eldri borgara með sparnaði á dýrari úrræðum á vegum ríkisins s.s. hjúkrunarrýmum og innlögnum á sjúkrahús. Verklagið leiðir því í afar styttu máli til kostnaðarauka hjá sveitarfélögum og til sparnaðar hjá ríkinu.

Erindinu er vísað til byggðaráðs til endanlegrar meðferðar.

Byggðaráð Múlaþings - 94. fundur - 19.09.2023

Fyrir liggur bókun fundar fjölskylduráðs, dags. 05.09.2023, þar sem þróunarverkefni um samþættingu félagslegrar heimaþjónustu var til umfjöllunar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til bókunar fjölskylduráðs Múlaþings, dags. 05.09.2023, samþykkir byggðaráð í samstarfi við HSA, fyrir hönd sveitarfélagsins, fyrirliggjandi umsókn um aðild að þróunarverkefninu Gott að eldast.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Fjölskylduráð Múlaþings - 85. fundur - 31.10.2023

Borist hefur erindi frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu þess efnis að Múlaþing og HSA hafi verið valin til þátttöku í verkefninu Gott að eldast. Lagt fram til kynningar.

Fjölskylduráð Múlaþings - 91. fundur - 09.01.2024

Múlaþingi hefur borist tilboð um samning milli sveitarfélagsins og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um stöðugildi í eitt ár að upphæð 15 m.kr. vegna tengiráðgjafa sem hefur það markmið að auka virkni eldri borgara og jaðarhópa. Stöðugildið tengist verkefninu Gott að eldast, samþætt þjónusta í heimahúsum og á að nýtast að einhverju leyti inn í heima- og endurhæfingarteymi í sambandi við verkefnið.

Fjölskylduráð fagnar boðinu og felur félagsmálastjóra að ráða starfsmann eða verktaka í starfið.

Samþykkt samhljóða.

Fjölskylduráð Múlaþings - 101. fundur - 16.04.2024

Berglind Magnúsdóttir og Þura Björk Hreinsdóttir frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu komu á fund fjölskylduráðs Múlaþings og kynntu verkefnið Gott að eldast. Þeim er þökkuð góð kynning.
Getum við bætt efni þessarar síðu?