Fara í efni

Ungmennaráð Múlaþings

12. fundur 21. febrúar 2022 kl. 15:30 - 18:30 á skrifstofu sveitarfélagsins, Egilsstöðum
Nefndarmenn
  • Einar Freyr Guðmundsson formaður
  • Jónína Valtingojer aðalmaður
  • Júlíus Laxdal Pálsson aðalmaður
  • Karítas Mekkín Jónasdóttir aðalmaður
  • Páll Jónsson aðalmaður
  • Óli Jóhannes Gunnþórsson aðalmaður
  • Rebecca Lísbet Sharam aðalmaður
  • Unnar Aðalsteinsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Vigdís Diljá Óskarsdóttir
  • Þórunn Bylgja Borgþórsdóttir
Fundargerð ritaði: Vigdís Diljá Óskarsdóttir verkefnastjóri íþrótta- og æskulýðsmála

1.Skólasund í Múlaþingi

Málsnúmer 202202120Vakta málsnúmer

Fyrir lá umræða um fyrirkomulag sundkennslu á unglingastigi í grunnskólum Múlaþings.

Í fjölda ára hefur sundkennsla farið fram í íslenskum grunnskólum og hefur það vakið athygli víða um heim. Skólasund stuðlar bæði að bættri heilsu nemenda og getur bjargað lífi þeirra á ögurstundu. Mikilvægi góðrar sundkennslu verður því seint ofmetið. Í dag er staðan þannig í Múlaþingi að skólasund er skyldufag öll 10 ár grunnskólans.

Ungmennaráð leggur til að Múlaþing geri sund að valfagi á unglingastigi að því gefnu að nemandi hafi staðist stöðupróf um grunnhæfniviðmið skólasunds í upphafi 9. bekkjar. Breytingin skal taka gildi haustið 2022 og þeim nemendum sem standast stöðuprófið skal standa til boða að sleppa sundtímum síðustu tvö ár grunnskólans og mæta í stað þess í fleiri hefðbundna íþróttatíma.

Unglingsárin eru viðkvæmur tími og hjá mörgum ungmennum er skólasund stór kvíðavaldur. Þar af leiðandi má ætla að fjarvistir nemenda séu algengari í sundtímum heldur en gengur og gerist í öðrum kennslustundum. Ekki er óvarlegt að ætla að slíkar fjarvistir leiði af sér aukna hættu á því að sumir nemendur nái ekki nauðsynlegum hæfniviðmiðum skólasunds við lok 10. bekkjar. Með því að gera sund að valfagi síðustu ár grunnskólans má skapa hvata fyrir ungmenni til að leggja harðar að sér í skólasundi fyrstu 8 ár grunnskólans og þannig draga úr líkunum á því að fólk útskrifist illa synt úr grunnskóla.

Tekið skal fram að ungmennaráð er opið fyrir öðrum útfærslum á málinu svo lengi sem þær verði unnar í samstarfi við ráðið. T.a.m. gæti ein útfærsla verið að 10. stigs próf sé þreytt í lok 9. bekkjar svo þeim nemendum sem ná prófinu standi til boða að sleppa skólasundi í 10. bekk. Á næsta skólaári verður unglingum í 9. bekk í grunnskólum Reykjavíkurborgar boðið að ljúka 10. stigi í sundi og útskrifast þannig ári á undan og þurfa ekki að mæta í skólasund í 10. bekk.

Samþykkt með meirihluta greiddra atkvæða.

2.Erindi - aldurstakmark í líkamsrækt

Málsnúmer 202201044Vakta málsnúmer

Á fundi sínum þann 21. desember 2021 samþykkti fjölskylduráð Múlaþings breytingar á reglum um líkamsræktarsali sveitarfélagsins.

Bókun fjölskylduráðs um málið útleggst svona:

Fyrir liggja drög að upplýsingabókum fyrir íþróttamannvirki í Múlaþingi. Er íþrótta- og æskulýðsstjóra falið að vinna áfram að bókunum í samvinnu við forstöðufólk og leggja þær fyrir ráðið fyrri hluta árs 2022.

Ráðið leggur til að í öllum líkamsræktarsölum á vegum sveitarfélagsins verði sama aldurstakmark og að eftirfarandi reglur gildi:
Unglingum í 9. bekk grunnskóla er heimilt að koma eftir áramót í líkamsrækt í Múlaþingi. Er það að undangengnum áfanga í íþróttavali og/eða 3-5 tímum með þjálfara/íþróttakennara í viðkomandi líkamsrækt þar sem farið er í gegnum kennslu á tækum og umgengni í líkamsræktarsal. Þá þarf að vera til staðar undirritað leyfi foreldra.
Grunnskólanemendur fá afsláttarkjör af kortum í líkamsrækt, en frítt er í sund fyrir þennan aldur.

Að auki felur ráðið íþrótta- og æskulýðsstjóra að vinna með forstöðufólki að því að samræma reglur fyrir íþróttamannvirki í sveitarfélaginu á árinu 2022.


Fjölskylduráð bókaði síðan eftirfarandi á fundi sínum þann 1. febrúar 2022.


Fjölskylduráð hefur endurskoðað ákvörðun sína um aldurstakmark í íþróttamannvirkjum Múlaþings og samþykkir að fresta gildistöku fram á haust 2022. Jafnframt er samþykkt að aldurstakmark í líkamsræktarsali skuli miðast við 9. bekk grunnskóla og taka gildi samhliða upphafi skólaárs.


Ungmennaráð Múlaþings gagnrýnir að fjölskylduráð hafi ekki haft samráð við ungmennaráð um breytingar á reglum íþróttamannvirkja Múlaþings. Í erindisbréfi ungmennaráðs stendur skýrum stöfum að „Nefndir og ráð sveitarfélagsins senda ungmennaráði, til umsagnar, öll málefni sem snerta ungt fólk og börn sérstaklega.“ Það má vera ljóst að aldurstakmörk í líkamsræktarstöðvar á vegum sveitarfélagsins snerta ungt fólk sérstaklega og fjölskylduráð hefði átt að senda málið á ungmennaráð til umfjöllunar og umsagnar áður en ákvarðanir voru teknar.

Ungmennaráð er þeirrar skoðunar að unglingar ættu að fá kennslu í ræktinni í íþróttavali grunnskólanna áður en þeir yrðu gjaldgengir inn í líkamsræktarsali sveitarfélagsins einir síns liðs. Ungmennaráð vill að aldurstakmarkið miðist við 8. bekk, ekki 9. bekk. Ráðinu þykir ekki réttlætanlegt að hækka aldurstakmarkið úr 8. bekk á Seyðisfirði og Djúpavogi vegna þess að þar er framboð af skipulögðu íþróttastarfi ekki eins mikið og á Héraði. Þar sem ráðið telur heldur ekki réttlætanlegt að mismuna börnum eftir búsetu verður aldurstakmarkið að vera það sama á Héraði og annarsstaðar, eða 8. bekkur.

Samþykkt með meirihluta greiddra atkvæða.

3.Endurvinnslutunnur á almenningsstöðum

Málsnúmer 202202146Vakta málsnúmer

Á sameiginlegum fundi ungmennaráðs og sveitarstjórnar þann 9. júní 2021 kynnti ungmennaráð hugmyndir sínar um bætta sorpflokkun á almenningssvæðum.
Á fundi sínum þann 25. ágúst 2021 fjallaði umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings um erindið og samþykkti eftirfarandi tillögu:

Umhverfis- og framkvæmdaráð þakkar ungmennaráði fyrir erindið og tekur undir að rétt sé að koma á flokkun sorps sem víðast. Ráðið felur verkefnastjóra umhverfismála að leggja fram tillögu að tilraunaverkefni um flokkun sorps á almenningssvæðum fyrir næsta sumar.

Ungmennaráð Múlaþings óskar eftir upplýsingum um stöðu þessa máls frá umhverfis- og framkvæmdaráði.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Sameiginlegurfundur sveitarstórnar og ungmennaráðs

Málsnúmer 202202123Vakta málsnúmer

Í erindisbréfi ungmennaráðs segir að sveitarstjórn Múlaþings og ungmennaráð skuli halda sameiginlega fundi í október og maí ár hvert.

Ungmennaráð felur starfsmanni sínum að hafa samband við sveitarstjóra Múlaþings og finna heppilega tímasetningu fyrir fundinn. Þar sem kosningar til sveitarstjórna munu fara fram 14. maí nk. leggur ungmennaráð til að fundinum verði flýtt. Ráðið leggur til að ein eftirfarandi dagsetninga verði fyrir valinu: 30. mars eða 6. apríl.

Samþykkt samhljóða.

5.Mat á áhrifum ákvarðana sveitarfélaga á börn og réttur barna til þátttöku og

Málsnúmer 202201170Vakta málsnúmer

Fyrir ungmennaráði lá bréf frá Umboðsmanni barna varðandi mat á áhrifum ákvarðana sveitarfélaga á börn og rétt barna til þátttöku og áhrifa.

Ungmennaráð Múlaþings tekur heilshugar undir þær áherslur sem koma fram í fyrirliggjandi bréfi frá Umboðsmanni barna og hrósar byggðaráði fyrir að hafa vísað málinu til ungmennaráðs. Að gefnu tilefni minnir ungmennaráð á mikilvægi þess að Múlaþing verði barnvænt sveitarfélag eins fljótt og auðið er.

Samþykkt samhljóða.

6.Ungmennaþing 2021

Málsnúmer 202102207Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom Tinna K. Halldórsdóttir inn á fundinn.

Í vinnslu.

Fundi slitið - kl. 18:30.

Getum við bætt efni þessarar síðu?