Fara í efni

Skólasund í Múlaþingi

Málsnúmer 202202120

Vakta málsnúmer

Ungmennaráð Múlaþings - 12. fundur - 21.02.2022

Fyrir lá umræða um fyrirkomulag sundkennslu á unglingastigi í grunnskólum Múlaþings.

Í fjölda ára hefur sundkennsla farið fram í íslenskum grunnskólum og hefur það vakið athygli víða um heim. Skólasund stuðlar bæði að bættri heilsu nemenda og getur bjargað lífi þeirra á ögurstundu. Mikilvægi góðrar sundkennslu verður því seint ofmetið. Í dag er staðan þannig í Múlaþingi að skólasund er skyldufag öll 10 ár grunnskólans.

Ungmennaráð leggur til að Múlaþing geri sund að valfagi á unglingastigi að því gefnu að nemandi hafi staðist stöðupróf um grunnhæfniviðmið skólasunds í upphafi 9. bekkjar. Breytingin skal taka gildi haustið 2022 og þeim nemendum sem standast stöðuprófið skal standa til boða að sleppa sundtímum síðustu tvö ár grunnskólans og mæta í stað þess í fleiri hefðbundna íþróttatíma.

Unglingsárin eru viðkvæmur tími og hjá mörgum ungmennum er skólasund stór kvíðavaldur. Þar af leiðandi má ætla að fjarvistir nemenda séu algengari í sundtímum heldur en gengur og gerist í öðrum kennslustundum. Ekki er óvarlegt að ætla að slíkar fjarvistir leiði af sér aukna hættu á því að sumir nemendur nái ekki nauðsynlegum hæfniviðmiðum skólasunds við lok 10. bekkjar. Með því að gera sund að valfagi síðustu ár grunnskólans má skapa hvata fyrir ungmenni til að leggja harðar að sér í skólasundi fyrstu 8 ár grunnskólans og þannig draga úr líkunum á því að fólk útskrifist illa synt úr grunnskóla.

Tekið skal fram að ungmennaráð er opið fyrir öðrum útfærslum á málinu svo lengi sem þær verði unnar í samstarfi við ráðið. T.a.m. gæti ein útfærsla verið að 10. stigs próf sé þreytt í lok 9. bekkjar svo þeim nemendum sem ná prófinu standi til boða að sleppa skólasundi í 10. bekk. Á næsta skólaári verður unglingum í 9. bekk í grunnskólum Reykjavíkurborgar boðið að ljúka 10. stigi í sundi og útskrifast þannig ári á undan og þurfa ekki að mæta í skólasund í 10. bekk.

Samþykkt með meirihluta greiddra atkvæða.

Fjölskylduráð Múlaþings - 41. fundur - 29.03.2022

Fjölskylduráð þakkar ungmennaráði fyrir erindið en ungmennaráð leggur til að Múlaþing geri sund að valfagi á unglingastigi að því gefnu að nemandi hafi staðist stöðupróf um grunnhæfniviðmið skólasunds í upphafi 9. bekkjar.

Fjölskylduráð óskar eftir að fræðslustjóri afli frekari upplýsinga um framkvæmd sundkennslu á unglingastigi, einkum þar sem þessi háttur hefur verið hafður varðandi framkvæmd kennslunnar. Málið verði sett á dagskrá á fund ráðsins þegar þær upplýsingar liggja fyrir.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?