Fara í efni

Minjasafn Austurlands 80 ára

10.10.2023 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Minjasafn Austurlands fagnar 80 ára afmælisári nú í ár. Af því tilefni hafa starfsmenn Minjasafnsins verið í upprifjun á helstu gullmolum sem tengjast safninu og sögu þess og birt bæði á heimasíðu sinni sem og facebook síðu safnsins. Minjasafn Austurlands hefur verið öflugt í menningar- og fræðslustarfi og þá sér í lagi með virkum skólaheimsóknum og bjóða reglulega upp á sérstaka viðburði fyrir fjölskyldufólk, til dæmis í kringum jól og páska og aðra hátíðardaga.

Verkefnum menningarminjasafna má skipta í fimm flokka sem allir tengjast innbyrgðis og segja má að treysti hver á annan. Þessi flokkar eru: söfnun, varðveisla, skráning, rannsóknir og miðlun. Verkefni safna eru því bæði fjölbreytt og viðamikil en þau eru þó fæst sýnileg almenningi. Á meðan sýningar, viðburðir og önnur miðlun eru það sem blasir við gestum og gangandi er unnið að því bak við tjöldin að skrá og rannsaka safngripi og búa þeim sem best varðveisluskilyrði. 

Upphaf minjasafnsins

Upphaf að stofnun Minjasafns Austurlands má rekja til fundar sem haldinn var í Atlavík árið 1942 en þar var samþykkt að stofna undirbúningsnefnd að stofnun byggðasafns á Austurlandi. Nefndina skipuðu Gunnar Gunnarsson, rithöfundur á Skriðuklaustri, Páll Hermannsson alþingismaður, Þórarinn Þórarinsson skólastjóri Eiðum, Björn Hallsson hreppstjóri á Rangá, Sveinn Jónsson bóndi á Egilsstöðum, Benedikt Guttormsson bankastjóri á Eskifirði og Sigrún P. Blöndal forstöðukona Húsmæðraskólans á Hallormsstað. (Hjörleifur Guttormsson, „Safnamál á Austurlandi“, Múlaþing 8 (1975), bls 8-9).

Mynd: Munageymsla Minjasafnsins á "Brúnáslofti", þ.e. háalofti hússins sem nú hýsir bæjarskrifstofu Múlaþings á Egilsstöðum en hýsti þá m.a. fyrirtækið Brúnás. Eigandi myndar: Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Aðstaða safnsins

Safnið var fyrst í geymslum á Hallormsstað en 1945 bauðst Gunnar til að taka það inn í hús sitt (Gunnarshús, Skriðuklaustur) og leggja eitt herbergi til sýningar á því. Var það opið almenningi á sumrin og sá fjölskyldan um vörslu þess. Þegar Gunnarshús var afhent ríkinu 1948 stóð til að safnið fengi stóraukið sýningarpláss enda var það í samræmi við gjafabréf Gunnars og Franziscu. Þegar til kom þurfti Tilraunastöðin, sem þá flutti í húsið, á þessu húsnæði að halda, og varð því ekkert af stækkuninni. Árið 1966 var safninu á Skriðuklaustri lokað formlega, vegna ófullnægjandi aðstöðu. Árið 1979 varð niðurstaðan sú að safnið skyldi flutt burt frá Klaustri og byggt yfir það á Egilsstöðum. Fyrsti áfangi þeirrar byggingar sem ber nafnið Safnahús, var tekið í notkun 1996 og hýsir nú Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Bókasafn Héraðsbúa. (Helgi Hallgrímsson, "Skriðuklaustur", Lesbók Morgunblaðsins 18. desember 1999).

Mynd: Úr safni Skriðuklausturs

Rekstur

Árið 1995 stofnuðu 11 hreppar á Héraði og Borgarfirði byggðasamlag um rekstur Minjasafns Austurlands. Þetta voru: Borgarfjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Jökuldalshreppur, Hlíðarhreppur, Tunguhreppur, Hjaltastaðahreppur, Eiðaþinghá, Fellahreppur, Skriðdalshreppur, Vallahreppur og Egilsstaðabær. Níu síðastnefndu hrepparnir sameinuðust með árunum í sveitarfélagið Fljótsdalshérað sem stóð að rekstri safnsins ásamt Borgarfjarðarhreppi og Fljótsdalshreppi til haustsins 2020. Þá tók sameinað sveitarfélag Borgarfjarðarhrepps, Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar, Múlaþing, við keflinu og stendur í dag að byggðasamlagi um reksturinn ásamt Fljótsdalshreppi. 

Áfangar

  • 1942 Undirbúningsnefnd að stofnun safnsins kosin.
  • 1943 Safnið stofnað.
  • 1945 Munir safnsins færðir frá Húsmæðraskólanum á Hallormstað að íbúðarhúsi Gunnars Gunnarssonar, skálds, að Skriðuklaustri.
  • 1948 Um 400 munir skráðir í aðfangabók.
  • 1966 Safninu á Skriðuklaustri lokað.
  • 1981 Allir munir safnsins varðveittir í geymslum á Egilsstöðum.
  • 1982 Fyrsta skóflustungan að nýju Safnahúsi á Egilsstöðum tekin.
  • 1995 Fyrsti áfangi Safnahússins á Egilsstöðum af þremur tekinn í notkun. Minjasafnið flytur inn ásamt Héraðsskjalasafni Austfirðinga og Bókasafni Héraðsbúa. Nýr stofnsamningur gekk í gildi fyrir safnið.
  • 1996 Fastasýning opnuð. Starfsmaður ráðinn allt árið.
  • 1996-dagsins í dag: Safnið hefur starfsemi allt árið. Starfsemin felst í þremur grunnþáttum safnastarfs: Rannsóknum, varðveislu og miðlun. Á safninu eru bæði grunnsýningar, fjölbreyttar sérsýningar og viðburðir. Starfsfólk safnsins sinnir jafnframt fjölbreyttri safnfræðslu og skráningu, ljósmyndum safngripa. Þá tekur safnið þátt í margvíslegum samstarfsverkefnum.

Múlaþing hvetur lesendur til að fylgjast með miðlum Minjasafns Austurlands þar sem fram koma daglega gullmolar sem tengjast safninu sem og tilkynningar um viðburði og uppákomur. 

Við óskum Minjasafni Austurlands til hamingju með áfangann.

Minjasafn Austurlands 80 ára
Getum við bætt efni þessarar síðu?