Fara í efni

Betri vinnutími og bættar starfsaðstæður í leikskólum Múlaþings

18.07.2023 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Vinna við að bæta vinnutíma starfsfólks í leikskólum Múlaþings hefur staðið frá 1. janúar 2021 þegar stytting vinnuvikunnar var innleidd og með síðasta kjarasamningi milli Félags leikskólakennara og Sambands Íslenskra sveitarfélaga, sem gilti frá 1. janúar 2022 – 31. mars 2023, var bókað að starfsaðstæður leikskólakennara og annarra félaga í FL yrðu bættar enn frekar með það í huga að jafna starfsaðstæður á milli skólastiga í leik- og grunnskólum. Vilji var hjá sveitarfélaginu og meðal skólastjórnenda að bæta vinnutíma og starfsumhverfi alls starfsfólks í leikskólunum, óháð stéttarfélagi. Skipaður var vinnuhópur sem skilaði innleiðingaráætlun fyrir skólaárið 2023-2024 til fjölskylduráðs nú á vormánuðum.

Hagsmunir barna að leiðarljósi

Dvalartími barna hefur lengst og árið 2021 dvöldu um 90% barna í 8 klst. eða lengur daglega í leikskóla. Krafan um að yngstu börnin, 1 árs, komist inn á leikskóla um leið og fæðingarorlofi lýkur er mikil sem eykur álagið á leikskólastigið (Amalía Björnsdóttir og Þuríður Jóna Jónsdóttir, 2023). Múlaþing er aðili að samningi sem gerður var á milli ríkis og Unicef um að innleiða og hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í stefnumótun og þjónustu við börn. Með samningunum skuldbindur Múlaþing sig til að hafa m.a. eftirfarandi markmið Barnasáttmálans að leiðarljósi; það sem er barninu fyrir bestu, að öll börn eru jöfn og að nálgast öll verkefni með velferð barna í huga (Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og Barnvænt sveitarfélag).

 

Innleiðing

Ljóst er að innleiðing betri vinnutíma í leikskólunum felur í sér aukin kostnað. Foreldrar leikskólabarna í Múlaþing greiða um 10% af raunkostnaði vegna leikskóladvalar barna sinna. Til að koma í veg fyrir hækkun leikskólagjalda verða eftirfarandi aðgerðir innleiddar frá og með 1. ágúst n.k.:

Gjaldfrjáls leyfi, foreldrar geta sótt um gjaldfrjálst leyfi í kringum jól og áramót, í dymbilviku og í vetrarfríum grunnskóla þess byggðarlags sem viðkomandi er með lögheimili í.

Lokanir, leikskólarnir verða lokaðir í fimm vikur vegna sumarleyfa og á milli hátíða. Foreldrar geta þó óskað eftir vistun fyrir börn sín milli hátíða og í fimmtu viku lokunar og er lágmarksfjöldi barna sex í hverjum leikskóla fyrir sig.

Yngstu börnin dvelja í mesta lagi í leikskólanum til kl. 15 dag hvern, fyrsta skólaárið. Foreldrar geta sótt um vistun á milli kl. 15 – 16 hafi þau þörf fyrir það. Þessi ákvörðun er tekin með hagsmuni barna að leiðarljósi en tíminn á milli kl. 15 – 16 er mjög erfiður þetta ungum börnum sem eru orðin þreytt eftir að vera í áreiti barnahópsins allan daginn.

Starfsmannafundir verða 10 á skólaárinu, tveir tímar í senn og eru þeir annað hvort kl. 8 – 10 eða kl. 14 – 16, eftir aðstæðum hvers leikskóla. Markmiðið með fjölgun starfsmannafunda er að auka gæði leikskólastarfs og eru eina tækifærið sem stjórnendur og starfsfólk hafa saman til að ígrunda og skipuleggja faglegt starf.

Endurmat á áætlun

Innleiðingaráætlunin gildir fyrir skólaárið 2023–2024 og verður endurmetin á vorönn 2024. Mikilvægt er að meta áhrif Betri vinnutíma á fjölskyldulífið, þ.e. hvernig foreldrum gengur að samræma þessar aðgerðir við atvinnuþátttöku þeirra, hvort foreldrið er oftar heima þegar lokað er í leikskólum og hvort foreldrar nýti gjaldfrjáls leyfi.

 

 

Heimildir:

Amalía Björnsdóttir og Þuríður Jóna Jónsdóttir. (2023. 23. maí). Menntun starfsfólks í leikskólum – Skortur á leikskólakennurum https://heimildin.is/grein/17836/menntun-starfsfolks-i-leikskolum-skortur-a-leikskolakennurum/?fbclid=IwAR23EGb-CR6RhLfSiOR6AA0vrxzGUfDV6owRr_4fLT7-V6lXl7SFik-oTak

Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna https://www.barnasattmali.is/

Barnvænt samfélag https://barnvaensveitarfelog.is/barnvaen-sveitarfelog/hvad-eru-barnvaen-sveitarfelog/

Betri vinnutími og bættar starfsaðstæður í leikskólum Múlaþings
Getum við bætt efni þessarar síðu?