Fara í efni

Mannauðsmál, stefnumótun og samfélagsstarf í forgrunni í upphafi árs

19.01.2026 Fréttir

Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri fór að vanda yfir síðustu vikur í skýrslu sinni á sveitarstjórnarfundi 14. janúar síðastliðinn.

Mannauður, stjórnsýsla og stefnumótun

Síðustu vikurnar fyrir jól fór mestur tími sveitarstjóra í mannauðsmál, meðal annars vegna ráðninga í tvær stjórnunarstöður innan stjórnsýslu Múlaþings. Í stöðu sviðsstjóra fjármála var ráðinn Ingvar Rafn Stefánsson og sviðsstjóri stjórnsýslu verður Hlynur Jónsson. Þeir koma báðir til starfa með vorinu samhliða því að reynslumiklir starfsmenn láta af störfum. Áður hafði Sigrún Hólm Þórleifsdóttir verið ráðin í nýja sviðsstjórastöðu mannauðs og þjónustu og tók hún við því starfi um áramótin.

Í upphafi árs kynnti sveitarstjóri nýtt skipurit Múlaþings á heimastjórnarfundum í öllum byggðarkjörnum. Sveitarstjórn hefur einnig samþykkt nýja fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið sem á að styrkja þjónustu við fjölskyldur á öllum æviskeiðum. Gert er ráð fyrir að unnin verði aðgerðaráætlun út frá stefnunni á næstunni.

Þá er nýtt aðalskipulag Múlaþings í auglýsingu hjá Skipulagsstofnun og gefst íbúum kostur á að senda inn ábendingar og umsagnir til 9. febrúar.

Samfélag, atvinnumál og menningarlíf

Á nýju ári hefur áherslan verið á atvinnumál á Seyðisfirði, þar sem sveitarstjóri hefur átt fundi með Ofanflóðasjóði, Veðurstofu Íslands og atvinnuhópi sem vinnur að því að leita nýrra atvinnutækifæra fyrir bæinn. Ráðgjafi starfar með hópnum og eru bundnar vonir við að þessi vinna skili áþreifanlegum tækifærum á árinu.

Nýverið tók sveitarstjóri þátt í árlegum samráðsfundi sveitar- og bæjarstjóra á Austurlandi sem haldinn var í Fljótsdal að þessu sinni.

Sveitarstjóri hefur einnig verið virkur þátttakandi í samfélags- og menningarlífi sveitarfélagsins. Þar má nefna heimsókn í Fellaskóla, þátttöku í þrettándagleði íþróttafélagsins Hattar og heimsóknir á ýmsa viðburði. Fresta þurfti áramótabrennum í öllum byggðarkjörnum nema á Egilsstöðum vegna veðurs og eftir sinubruna vegna skotelda á Djúpavogi um áramótin hefur verið ákveðið að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn sinubruna á Djúpavogi í framtíðinni.

Um áramótin voru almenningsbókasöfn Múlaþings sameinuð í eina stofnun, Bókasafn Múlaþings, með það að markmiði að efla starfsemi safnanna, samræma þjónustu og styrkja hlutverk þeirra sem samfélagsmiðja. Þá voru veittar umhverfisviðurkenningar í sveitarfélaginu í fyrsta sinn frá sameiningu og verða þær framvegis veittar árlega.

Að lokum er vetrarstarfsemin komin á fullt, bæði á skíðasvæðum þar sem árskort gilda bæði í Stafdal og Oddskarði og í menningarlífinu þar sem fram undan er öflug þorrablótsvertíð víðs vegar um Múlaþing.

Frá vinstri: Valdimar O. Hermannsson sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, Jóna Árný Þórðardóttir bæjars…
Frá vinstri: Valdimar O. Hermannsson sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Bryndís Fiona Ford framkvæmdastjóri Austurbrúar, Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri Múlaþings, Helgi Gíslason sveitarstjóri Fljótsdalshrepps
Getum við bætt efni þessarar síðu?