Fara í efni

Menningarmiðstöðvar og söfn

Múlaþing leggur áherslu á að hlúa vel að menningar- og safnastarfi. Menningarmiðstöðvar Múlaþings eru tvær; Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Skaftfell á Seyðisfirði. Skaftfell leggur áherslu á myndlist í sínu starfi en Sláturhúsið sviðslistir. Á svæðinu eru einnig fjölbreytt, fróðleg og skemmtileg söfn svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. 

Héraðsskjalasafn Austfirðinga á Egilsstöðum

Héraðsskjalasafn Austurlands er til húsa í byggingu Safnahússins við Laufskóga 1 á Egilsstöðum. Í húsinu er einnig Minjasafn Austurlands og Bókasafn Héraðsbúa. Héraðsskjalasafnið skiptist í þrjú söfn; skjalasafn, ljósmyndasafn og bókasafn. Meginhlutverk safnsins er að taka við skjölum skilaskyldra aðila, sveitarfélaga og stofnana þeirra, skrá þau og varðveita en safnið tekur einnig við einkaskjölum, t.d. bréfasöfnum og dagbókum einstaklinga, skjölum félaga og fyrirtækja. Safnið stækkar ört og lumar á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort heldur sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn.

Laufskógar 1
700 Egilsstaðir
Sími: 471 1417
Netfang: heraust@heraust.is
Vefsíða: www.heraust.is

Langabúð: Safn Ríkarðs Jónssonar, Eysteinsstofa og byggðasafn Djúpavogi

Langabúð er reisulegt og fallegt hús sem stendur við höfnina í Djúpavogi. Það er elsta hús bæjarins en var byggt í núverandi mynd um 1850. Þar er til húsa safn Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara og myndskera. Ríkarður varð fyrstur til að nema útskurðarlist heima á Íslandi og má meðan annars sjá vinnustofu hans í safninu. Í Löngubúð er einnig minningarstofa um Eystein Jónsson stjórnmálamann frá Djúpavogi og konu hans Sólveigu Eyjólfsdóttur og á loftinu er byggðasafn svæðisins.

Búð 1
765 Djúpavogi
Sími: 478 8220
Netfang: langabud@djupivogur.is
Nánari upplýsingar um Löngubúð

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs er til húsa í Sláturhúsinu menningarsetri, Kaupvangi 7 á Egilsstöðum.

Hlutverk MMF er að standa fyrir og stuðla að eflingu lista- og menningarstarfs á Fljótsdalshéraði. Hún er ein þriggja menningarmiðstöðva á Austurlandi, samkvæmt samningi ríkisins og sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál og leggur hún áherslu á sviðslistir.

Menningarmiðstöðin stendur fyrir listsýningahaldi af ýmsu tagi auk þess að aðstoða listamenn við ýmis verkefni, námskeið og fleira. Einnig býður MMF upp á gisti- og dvalaraðstöðu fyrir listamenn sem sækja um vinnuaðstöðu í Sláturhúsinu.

Kaupvangi 7
700 Egilsstöðum
Sími: 897 9479
Netfang: mmf@mulathing.is
Vefsíða: www.slaturhusid.is

Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum

Minjasafn Austurlands er til húsa í Safnahúsinu við Laufskóga 1 á Egilsstöðum. Í húsinu eru einnig Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Bókasafn Héraðsbúa. Minjasafn Austurlands er viðurkennt safn sem hefur það hlutverk að safna minjum um sögu og mannlíf á Austurlandi. Safnið er rekið sem byggðasamlag Múlaþings og Fljótsdalshrepps.

Grunnsýning safnsins er tvíþætt. Annars vegar er þar um að ræða sýninguna Hreindýrin á Austurlandi þar sem fjallað er um þessi einkennisdýr Austurlands á fjölbreyttan hátt. Hinsvegar er það sýningin Sjálfbær eining sem fjallar um gamla sveitasamfélagið á Austurlandi eins og það var fram undir miðja 20. öld. Á safninu er einnig staðið fyrir margvíslegum smærri sýningum og viðburðum auk öflugrar safnfræðslu fyrir nemendur á öllum skólastigum. Lögð er áhersla á að taka vel á móti börnum og barnafjölskyldum og boðið upp á fjölbreytta og fróðlega afþreyingu fyrir yngstu kynslóðina.

Laufskógar 1
700 Egilsstaðir
Sími: 471 1417
Netfang: minjasafn@minjasafn.is
Vefsíða: www.minjasafn.is

Skaftfell - Myndlistarmiðstöð Austurlands á Seyðisfirði

Í Skaftfelli á Seyðisfirði er rekin glæsileg og metnaðarfull listamiðstöð en Skaftfell hefur fengið Eyrarrósina fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.

Skaftfell helgar sig myndlist með megináherslu á samtímalistir og eru haldnar ýmsar sýningar ár hvert. Einnig rekur Skaftfell gestavinnustofu fyrir listamenn og sinnir fræðslustarfi fyrir öll skólastig.

Austurvegur 42
710 Seyðisfjörður
Sími: 472 1632
Netfang: skaftfell@skaftfell.is
Vefsíða: www.skaftfell.is

Teigarhorn - Geislasteinasafn

Á Teigarhorni er steindasafn, þar sem hægt er að skoða þær steindir sem finnast á Teigarhorni. Örfáir steinar eru annarstaðar frá og eru þeir þá gjafir eða til að sýna mismun steinda. Helstu steindir sem má finna í safninu eru Stilbít, Skólesít, Mordenít, Heulandít og Epistilbít.

Teigarhorn
765 Djúpivogur
Sími: 869-6550
Heimasíða Teigarhorns

Tækniminjasafnið á Seyðisfirði

Tækniminjasafn Austurlands fjallar um sögu Íslands með áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag. Tækniminjasafnið sýnir hvernig tæknibreytingar á fjölmörgum sviðum, t.d. véltækni, rafmagn, fjarskipti, samgöngur og byggingalist eru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi. Sýningin er lifandi og leitast við að endurvekja andrúm tímans sem fjallað er um. Safnasvæðið utandyra er jafnframt tilvalið útivistarsvæði fyrir gönguferðir og samveru.

Hafnargata 38-44
710 Seyðisfjörður
Sími: 472 1696
Netfang: tekmus@tekmus.is
Vefsíða: www.tekmus.org

Síðast uppfært 31. maí 2021
Getum við bætt efni þessarar síðu?