Fara í efni

Menningarmiðstöðvar og söfn

Múlaþing leggur áherslu á að hlúa vel að menningar- og safnastarfi. Menningarmiðstöðvar Múlaþings eru tvær; Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Skaftfell á Seyðisfirði. Skaftfell leggur áherslu á myndlist í sínu starfi en Sláturhúsið sviðslistir. Á svæðinu eru einnig fjölbreytt, fróðleg og skemmtileg söfn svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. 

Skaftfell - Myndlistarmiðstöð Austurlands á Seyðisfirði

Í Skaftfelli á Seyðisfirði er rekin glæsileg og metnaðarfull listamiðstöð en Skaftfell hefur fengið Eyrarrósina fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.

Skaftfell helgar sig myndlist með megináherslu á samtímalistir og eru haldnar ýmsar sýningar ár hvert. Einnig rekur Skaftfell gestavinnustofu fyrir listamenn og sinnir fræðslustarfi fyrir öll skólastig.

Austurvegur 42
710 Seyðisfjörður
Sími: 472 1632
Netfang: skaftfell@skaftfell.is
Vefsíða: www.skaftfell.is

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs er til húsa í Sláturhúsinu menningarsetri, Kaupvangi 7 á Egilsstöðum.

Hlutverk MMF er að standa fyrir og stuðla að eflingu lista- og menningarstarfs á Fljótsdalshéraði. Hún er ein þriggja menningarmiðstöðva á Austurlandi, samkvæmt samningi ríkisins og sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál og leggur hún áherslu á sviðslistir.

Menningarmiðstöðin stendur fyrir listsýningahaldi af ýmsu tagi auk þess að aðstoða listamenn við ýmis verkefni, námskeið og fleira. Einnig býður MMF upp á gisti- og dvalaraðstöðu fyrir listamenn sem sækja um vinnuaðstöðu í Sláturhúsinu.

Kaupvangi 7
700 Egilsstöðum
Sími: 897 9479
Netfang: mmf@mulathing.is 
Vefsíða: www.slaturhusid.is

Bókasöfn

Bókasafn Héraðsbúa er til húsa í byggingu Safnahússins við Laufskóga 1 á Egilsstöðum. Í húsinu er einnig Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafn Austurlands. Bókasafnið er staðsett í notalegu rými í risi hússins og hefur að geyma um 20.000 bindi, mest íslenskar bækur. Safnið er tengt Landskerfi bókasafna, leitir.is. Ef þú átt gilt skírteini á Bókasafni Héraðbúa geturðu fengið erlendar rafbækur og hljóðbækur að láni í Rafbókasafninu. Leiðbeiningar og upplýsingar um Rafbókasafnið má sjá hér.

Laufskógar 1
700 Egilsstaðir
Sími: 470 0745
Netfang: bokasafn.heradsbua@mulathing.is
Facebooksíða bókasafnsins

Bókasafn Djúpavogs er staðsett í húsnæði Djúpavogsskóla. Bókasafnið er bæði skóla- og héraðsbókasafn. Skólasafnið er opið alla daga en héraðskjalasafnið er opið á þriðjudögum frá 16 - 19. 

Vörðu 6
765 Djúpivogur
Sími: 478 - 8836 á skólatíma / 895 - 9750 á bókasafni
Netfang bokasafn@djupivogur.is
Nánari upplýsingar um bókasafnið

Bókasafn Seyðisfjarðar var stofnað árið 1892 og var Amtsbókasafn Austuramts allt fram á áttunda áratug síðustu aldar. Safnkosturinn er aðallega íslenskar bækur, tímarit og hljóðbækur.

Skólavegur 1
Sími: 470-2339
Netfang: bokasafn@sfk.is
Facebooksíða
Nánari upplýsingar um bókasafnið

Nönnusafn í Berufirði

Nönnusafn er staðsett á bænum Berufirði í samnefndum firði. Safnið geymir bóka- og minjasafn til minningar um Nönnu Guðmundsdóttur sem fæddist árið 1906 og var frumkvöðull á mörgum sviðum. Nanna annaðist kennslu í marga áratugi en stundaði auk þess garðyrkju og skógrækt af kappi og bera brekkurnar ofan Berufjarðar þess vott. Nanna var mikil fræðikona og er í Nönnusafni margar fræðibækur og sumar fáséðar. Hún safnaði einnig saman gömlum munum sem flestir höfðu verið í notkun í sveitinni en þeir munir voru að miklu leyti heimagerð verkfæri úr tré og málmum.

Berufjörður I
766 Djúpivogur
Sími: 478 8977
Netfang: dofrisu@simnet.is

Teigarhorn - Geislasteinasafn

Á Teigarhorni er steindasafn, þar sem hægt er að skoða þær steindir sem finnast á Teigarhorni. Örfáir steinar eru annarstaðar frá og eru þeir þá gjafir eða til að sýna mismun steinda. Helstu steindir sem má finna í safninu eru Stilbít, Skólesít, Mordenít, Heulandít og Epistilbít.

Teigarhorn
765 Djúpivogur
Sími: 869-6550
Heimasíða Teigarhorns

Langabúð: Safn Ríkarðs Jónssonar, Eysteinsstofa og byggðasafn Djúpavogi

Langabúð er reisulegt og fallegt hús sem stendur við höfnina í Djúpavogi. Það er elsta hús bæjarins en var byggt í núverandi mynd um 1850. Þar er til húsa safn Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara og myndskera. Ríkarður varð fyrstur til að nema útskurðarlist heima á Íslandi og má meðan annars sjá vinnustofu hans í safninu. Í Löngubúð er einnig minningarstofa um Eystein Jónsson stjórnmálamann frá Djúpavogi og konu hans Sólveigu Eyjólfsdóttur og á loftinu er byggðasafn svæðisins.

Búð 1
765 Djúpavogi
Sími: 478 8220
Netfang: langabud@djupivogur.is
Nánari upplýsingar um Löngubúð

Steinasafn Auðuns á Djúpavogi

Auðunn Baldursson frá Djúpavogi hefur safnað steinum í yfir 25 ár. Árið 2004 keypti hann fyrstu sögina og hóf að saga og slípa steinana. Árið 2009 hafði hann fyllt salinn af steinum og ákvað að opna safn í framhaldi af því. Á steinassafninu má meðal annars sjá jaspís, agat, bergkristall og fleiri sjaldgæfa steina sem Auðunn hefur tínt í nágrenni við Djúpavog. Stærsti steinninn á safninu er Agat og Bergkristall og vegur hann 460 kg. Hann er einnig stærsti sinnar tegundar á Íslandi sem fundist hefur.

Mörk 8
765 Djúpivogur
Facebook síða steinasafnsins

Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum

Minjasafn Austurlands er til húsa í byggingu Safnahússins við Laufskóga 1 á Egilsstöðum. Í húsinu er einnig Héraðsskjalasafn Austurlands og Bókasafn Héraðsbúa. Minjasafns Austurlands er skilgreint sem almennt byggðasafn. Hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita, forverja og rannsaka minjar um austfirska búhætti, atvinnulíf og daglegt líf. Einnig að efla áhuga almennings á sögulegum minjum og halda góðu samstarfi við menntastofnanir á starfssvæðinu.

Grunnsýning safnsins er tvíþætt. Annars vegar er það sýningin Hreindýrin á Austurlandi en sú sýning fjallar um lífshætti og lífsbaráttu hreindýranna, rannsóknir, sögu hreindýraveiða og hvernig afurðir eru nýttar. Hins vegar er það sýningin Sjálfbær eining. Sú sýning sýnir hvernig hvert íslenskt sveitaheimili þurfti áður fyrr að vera sjálfu sér nægt um brýnustu lífsnauðsynjar; fæði, klæði, áhöld, verkfæri og húsaskjól. 

Laufskógar 1
700 Egilsstaðir
Sími: 471 1417
Netfang: minjasafn@minjasafn.is
Vefsíða: www.minjasafn.is

Héraðsskjalasafn Austfirðinga á Egilsstöðum

Héraðsskjalasafn Austurlands er til húsa í byggingu Safnahússins við Laufskóga 1 á Egilsstöðum. Í húsinu er einnig Minjasafn Austurlands og Bókasafn Héraðsbúa. Héraðsskjalasafnið skiptist í þrjú söfn; skjalasafn, ljósmyndasafn og bókasafn. Meginhlutverk safnsins er að taka við skjölum skilaskyldra aðila, sveitarfélaga og stofnana þeirra, skrá þau og varðveita en safnið tekur einnig við einkaskjölum, t.d. bréfasöfnum og dagbókum einstaklinga, skjölum félaga og fyrirtækja. Safnið stækkar ört og lumar á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort heldur sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn.

Laufskógar 1
700 Egilsstaðir
Sími: 471 1417
Netfang: heraust@heraust.is
Vefsíða: www.heraust.is

Sænautasel á Jökuldalsheiði

Sænautasel var eitt af 26 heiðarbýlum á Jökuldalsheiði og Vopnafjarðarheiði sem fóru í eyði eftir gos í Öskju 1875 og fram á miðja næstu öld. Búið var í Sænautaseli til ársins 1943 en býlið var lengst allra býlanna á heiðinni í byggð eða í 95 ár með fimm ára hléi eftir Öskjugosið. Bærinn var endurbyggður 1992 og er þar í dag rekin metnaðarfull menningartengd ferðaþjónusta sem gefur gestum innsýn í oft harðneskjulegt líf fyrri tíma á öræfum.

Sænautasel
701 Egilsstaðir
Sími: 892 8956
Netfang: jokulsa@centrum.is
Facebook: facebook.com/Saenautasel

Trjásafnið Hallormsstað

Trjásafnið á Hallormsstað er skemmtilegt safn utandyra með yfir 70 trjátegundum og er það kjörið svæði fyrir fjölskyldugöngutúrinn. Í trjásafninu er Mörkin svokallaða en þar koma íbúar og gestir saman í júní ár hvert og halda Skógardaginn mikla saman hátíðlegan. Hallormsstaðaskógur er talinn stærstur skóga á Íslandi, þekur um 740 hektara og er í eigu Skógræktarinnar. Trjásafnið og skógurinn í heild er vinsælt útivistarsvæði og eru í skóginum um 40 km af gönguleiðum.

Hallormsstaðaskógur
701 Egilsstaðir
Nánari upplýsingar um Hallormsstaðaskóg

Tækniminjasafnið á Seyðisfirði

Tækniminjasafn Austurlands fjallar um sögu Íslands með áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag. Tækniminjasafnið sýnir hvernig tæknibreytingar á fjölmörgum sviðum, t.d. véltækni, rafmagn, fjarskipti, samgöngur og byggingalist eru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi. Sýningin er lifandi og leitast við að endurvekja andrúm tímans sem fjallað er um. Safnasvæðið utandyra er jafnframt tilvalið útivistarsvæði fyrir gönguferðir og samveru.

Hafnargata 38-44
710 Seyðisfjörður
Sími: 472 1696
Netfang: tekmus@tekmus.is
Vefsíða: www.tekmus.org

Síðast uppfært 23. október 2020
Var efnið á síðunni hjálplegt?