Fara í efni

Mannauðsstefna Múlaþings

Mannauðsstefna Múlaþings er leiðarljós starfsfólks og sveitarfélags í mannauðsmálum. Í stefnunni er lögð áhersla á hvetjandi starfsumhverfi, jöfn tækifæri, starfsþróun, traust, virðingu og hæfilegt vinnuálag.

Markmið stefnunnar skiptast í þrennt.

Hamingja og virðing

Múlaþing vill skapa góðan, eftirsóknarverðan og öruggan vinnustað með hamingjusömu starfsfólki sem ber virðingu fyrir hvert öðru. Sveitarfélagið leggur áherslu á heilbrigði og vellíðan og að vinnustaðurinn sé laus við hvers kyns ofbeldi. Með reglulegum mælingum á hamingjustuðli starfsfólks og fyrirbyggjandi aðgerðum skal markvisst unnið að minni streitu og hæfilegu vinnuálagi.

Þekking, færni og fjölbreytileiki

Múlaþing vill laða að fólk með þekkingu og efla starfsþróun. Sveitarfélagið leggur áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki. Með þjálfun starfsfólks og markvissri endurgjöf stjórnenda er stuðlað að frekari þekkingu og færni sem skilar betri árangri og skapar jákvæð tengsl. Jafnræðis skal gætt í hvívetna og leitast er við að starfsmannahópurinn endurspegli fjölbreytileika samfélagsins.

Framsækni og traust

Múlaþing vill veita góða þjónustu og skapa traust með faglegum vinnubrögðum og verklagi. Með vel skilgreindum verkferlum skal lágmarka mistök og koma í veg fyrir mismunun. Vinnustaðurinn Múlaþing er framsækinn, tekst á við áskoranir og skipar sér í forystu þegar kemur að þróun í samfélaginu. Í stóru samfélagi myndast ýmis tækifæri og er starfsfólki Múlaþings treyst til að fylgja eftir þeim hugmyndum sem kunna að vakna.

Mannauðsstefnu Múlaþings skal endurskoða á tveggja ára fresti og ber byggðarráð ábyrgð á framkvæmd þess. Mannauðsstefnan er birt á heimasíðu sveitarfélagsins.

Samþykkt í byggðaráði Múlaþings 26. janúar 2021.

Síðast uppfært 14. september 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?