Fara í efni

Reglur sveitarfélagsins Múlaþings um daggæslu barna í heimahúsum

Hlutverk Múlaþings er að veita dagforeldrum leyfi til daggæslu að uppfylltum skilyrðum reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum, tryggja dagforeldrum aðgang að fræðslu og hafa umsjón og eftirlit með starfsemi dagforeldra.

Daggæsla í heimahúsum felur í sér samning foreldra/forráðamanna við dagforeldri um að taka barn í gæslu. Mælt er með því að foreldrar og dagforeldrar skrifi undir samning um daggæslu. Hjá leikskólafulltrúa Múlaþings liggur frammi samningseyðublað sem foreldrum og dagforeldrum er heimilt að nota.

1. kafli. Yfirstjórn, leyfisveitingar o.fl.

1. gr. Yfirstjórn

Leikskólafulltrúi fyrir hönd Fjölskylduráðs veitir leyfi til daggæslu barna í heimahúsum. Eingöngu þeir sem hafa slíkt leyfi hafa heimild til að taka greiðslu fyrir slíka gæslu.

Fjölskylduráð ber ábyrgð á því að höfð sé umsjón og eftirlit með starfsemi dagforeldra sem hafa leyfi til daggæslu barna í heimahúsum.

Allar ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt reglum þessum skulu kynntar hlutaðeigandi með tryggilegum hætti sem og kæruréttur til Fjölskylduráðs og málskotsfrestur.

Um málsmeðferð, þ.m.t. tímafrest, vísast til VI. kafla reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005.

2. gr. Umboð starfsmanna Fjölskyldusvið Múlaþings

Fjölskylduráð veitir starfsmönnum Fjölskyldusviðs Múlaþings heimild til að taka ákvarðanir samkvæmt reglum þessum.

Matshópur, sem í sitja leikskólafulltrúi og fræðslustjóri, metur og afgreiðir umsóknir um leyfi til daggæslu og tekur ákvarðanir um leyfissviptingar.

3. gr. Umsjón og eftirlit með daggæslu í heimahúsum

Leikskólafulltrúi hefur með höndum og ber ábyrgð á daglegri umsjón og með daggæslu í heimahúsum. Í því felst að veita dagforeldrum stuðning, fræðslu og ráðgjöf, sbr. ákvæði 34. gr. reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum.

Fjölskylduráð felur leikskólafulltrúa að fara með eftirlit með daggæslu í heimahúsum, sbr. ákvæði 35. gr. reglugerðar nr. 907/2005.

4. gr. Umsókn

Umsókn um leyfi til daggæslu er sótt um á heimasíðu Múlaþings á þar til gerðu eyðublaði. Leikskólafulltrúi veitir umsókn um leyfi til daggæslu viðtöku, fer yfir gögn, ræðir við umsækjendur og heimsækir heimili þeirra. Starfsmaður frá félagsþjónustu tekur þátt í viðtali og heimsókn með leikskólafulltrúa.

Með umsókn skulu fylgja þau gögn sem fram koma í 13. gr. reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005, auk þeirra gagna sem tilgreind eru í 4. mgr.

Sé hundur og/eða köttur á heimili umsækjanda er auk þess gerð krafa um að umsækjandi skili ljósriti af leyfi til hunda- og/eða kattahalds, útgefnu af Múlaþingi, staðfestingu á greiðslu leyfisgjalds og vottorði dýralæknis um ormahreinsun.

Sé umsókn um leyfi til daggæslu í heimahúsi hafnað skal rökstuðningur fylgja ákvörðuninni.

5. gr. Skilyrði leyfisveitinga

Umsækjandi skal uppfylla skilyrði leyfisveitinga skv. 13. gr. reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005.

6. gr. Bráðabirgðaleyfi og endurnýjun leyfa

Um bráðabirgðaleyfi og endurnýjun leyfa, m.a. ef dagforeldri skiptir um húsnæði og/eða nýr fullorðinn einstaklingur flytur inn á heimilið, vísast til 14. og 15. gr. reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum.

Fyrsta ár telst reynslutími dagforeldra og hámarks barnafjöldi er fjögur börn samtímis að meðtöldum börnum undir sex ára aldri sem fyrir eru á heimilinu. Þó skulu að jafnaði ekki vera fleiri en tvö börn undir eins árs aldri samtímis. Að liðnu einu ári í starfi skal sótt um endurnýjun leyfis og leyfi fyrir fimmta barninu. Daggæsluleyfi eru að jafnaði veitt til fjögurra ára í senn eftir fyrsta samfellda starfsárið. Dagforeldrar fá endurnýjað leyfið hafi þeir sýnt af sér hæfni til starfsins og veitt börnunum góðan aðbúnað í hvívetna.

7. gr. Leyfissvipting

Leyfi til daggæslu er afturkallanlegt, eða hægt er að synja til endurnýjunar, ef forsendur leyfisveitingar bresta. Berist kvartanir um leyfishafa til sveitarfélagsins ber að kanna gildi þeirra og bregðast við í samræmi við það. Hlíti daggæsluaðili ekki leiðbeiningum um úrbætur eða fari ekki eftir reglum þessum getur Fjölskylduráð umsvifalaust afturkallað útgefið leyfi.

Verði dagforeldrar og foreldrar uppvísir að rangfærslum við tímaskráningar barna vegna niðurgreiðslu á daggæslugjöldum verður dagforeldri svipt leyfi til daggæslu með mánaðar fyrirvara og niðurgreiðslur til viðkomandi foreldra falla niður.

Um skilyrði og málsmeðferð vegna sviptingar leyfis til daggæslu í heimahúsum, þess að skilyrði til leyfisveitingar eru ekki lengur fyrir hendi eða annarra atriða sem benda til að ekki fari nægilega vel um barn hjá dagforeldri, vísast til XI. kafla reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum.

II. kafli. Ábyrgð og skyldur foreldra

Um ábyrgð og skyldur foreldra vísast til VIII. kafla reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum.

8. gr. Ábyrgð foreldra

Ákvörðun um vistun barns hjá dagforeldri og val á þeim er ætíð á ábyrgð foreldra.

Foreldrar skulu kynna sér ítarlega reglugerð nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum sem og reglur þessar.

Á foreldrum hvílir víðtæk ábyrgð og skylda til að upplýsa dagforeldra um alla þá þætti sem snerta venjur, sérþarfir og annað sem skiptir máli fyrir velferð barns.

Á foreldrum hvílir einnig sú ábyrgð að kynna sér vel allar aðstæður hjá dagforeldri í upphafi gæslu og fylgjast reglubundið með aðbúnaði barns meðan á gæslu stendur. Í þeim samskiptum skulu foreldrar virða það að um heimahús er að ræða.

9. gr. Skyldur foreldra

Í samráði við dagforeldri skal gefa barni aðlögunartíma í samræmi við þarfir þess við upphaf vistunar og skal foreldri vera með barninu eftir þörfum.

Foreldrar skulu semja sérstaklega um dvalartíma barns. Breyting á dvalartíma er óheimil án samþykkis dagforeldra. Foreldrum er skylt að virða dvalartíma barnsins. Dagforeldri hefur heimild til að innheimta sérstaklega ef barn er sótt of seint. Ítrekuð brot á þessari reglu jafngildir uppsögn að hálfu foreldris.

Foreldrar skulu láta dagforeldri vita sem fyrst ef barnið kemur ekki í dvöl þann daginn. Foreldrum ber skylda að láta dagforeldra vita ef einhver annar kemur að sækja barnið.

Foreldrum ber að tilkynna dagforeldri um veikindi barns eins fljótt og kostur er og foreldrar skulu ekki koma með veikt barn í gæslu.

Foreldrar eða aðrir nákomnir, sem koma með og sækja barn, skulu klæða barn í og úr útifötum.

Börn skulu vera hrein og í hlýlegum fötum og hafa meðferðis fatnað til skipta og skjólfatnað.

Bleiur eru samningsatriði á milli foreldra og dagforeldra.

Foreldrar koma með vagn sem barnið sefur í á hvíldartíma þess ef dagforeldri býður ekki upp á aðra aðstöðu til svefns. Dagforeldri og foreldri hafa samkomulag um hvort hægt sé að geyma vagna í daggæslunni milli daga.

Foreldrar skulu gefa dagforeldrum nákvæmar upplýsingar um hvernig hægt er að ná sambandi við þá meðan á gæslu stendur. Skylda er að tilkynna ef breytingar verða að þessu leyti.

Til að fylgjast með öryggi, líðan, þroska og þörfum barns hjá dagforeldrum skulu foreldrar hafa frumkvæði að virkum samskiptum við dagforeldra og leitast við að hafa þau samskipti hreinskilin og óþvinguð. Í þeim samskiptum skulu foreldrar virða það að um heimahús er að ræða.

Mikilvægt er að foreldrar og dagforeldrar virði gagnkvæman uppsagnarfrest. Aðilum stendur til boða að nota samningsform sem hægt er að nálgast hjá leikskólafulltrúa, en þar eru m.a. ákvæði um uppsagnarfrest.

Telji foreldri daggæslu ábótavant og/eða ef hann telur að dagforeldri uppfylli ekki lengur skilyrði leyfisveitingar, skal hann strax tilkynna það til leikskólafulltrúa, sem kannar málið.

III. kafli. Ábyrgð og skyldur dagforeldra

Um ábyrgð og skyldur dagforeldra vísast til IX. kafla reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum.

10. gr. Ábyrgð dagforeldra

Dagforeldrar bera ábyrgð á öryggi og andlegri og líkamlegri velferð barns meðan á daggæslu stendur. Dagforeldrar skulu hlúa að barni í sem víðtækustum skilningi. Þetta á jafnt við um fæðuval, leiki, leikföng, hreyfingu, útiveru, tilfinningalíf og félagslega líðan barns. Með öllu er bannað að beita barn andlegu eða líkamlegu ofbeldi eða hirtingu.

Á dagforeldrum hvílir víðtæk ábyrgð og skylda til að afla upplýsa hjá foreldrum um alla þá þætti sem snerta venjur, sérþarfir og annað sem skiptir máli fyrir velferð barns.

Allar upplýsingar sem dagforeldrar fá um aðstæður og hag barns og/eða fjölskyldu skal fara með sem trúnaðarmál, með þeirri veigamiklu undantekningu sem fram kemur í 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um tilkynningaskyldu til barnaverndarnefndar, sbr. og 6. mgr. 10. gr. reglna þessara. Dagforeldrar skulu undirrita þagnarheit við leyfisveitingu.

11. gr. Skyldur dagforeldra

Dagforeldrar skulu kynna sér ítarlega reglugerð nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum sem og reglur þessar.

Foreldrar eiga rétt á upplýsingum frá dagforeldrum um dagskipulag í grófum dráttum, matseðil í meginatriðum og aðra starfsemi utan heimahúss.

Foreldrar eiga rétt á að vita hversu mörg börn eru í daggæslunni, aldur þeirra og dvalartíma.

Dagforeldri getur ekki tekið á móti veiku barni. Ef grunur leikur á að barn sé að veikjast eða beri smit á barnið ekki að mæta í daggæslu. Ef barnið veikist eða slasast í daggæslu ber dagforeldri að láta foreldra vita eins fljótt og kostur er og foreldrar sæki barnið. Nauðsynlegt er að barnið nái að jafna sig vel heima af veikindum og mæti aftur þegar það er fært um að taka þátt í allri daglegri starfsemi úti sem inni. Börnum eru ekki gefin lyf hjá dagforeldrum nema brýna nauðsyn beri til.

Dagforeldrar skulu leita skriflegs leyfis foreldra fyrir flutningi barns í einkabifreið meðan á gæslu stendur.

Dagforeldrum er skylt að stuðla að öryggi barna í hvívetna meðan á dvöl stendur. Um öryggi barna vísast nánar til 29. gr. reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum.

Mikilvægt er að dagforeldrar og foreldrar virði gagnkvæman uppsagnarfrest. Aðilum stendur til boða að nota samningsform sem Fjölskyldumiðstöð hefur unnið en þar eru m.a. ákvæði um uppsagnarfrest.

Ef barn er vanhirt og/eða á við líkamlega eða andlega örðugleika að stríða ber dagforeldri að ræða það við foreldra. Verði dagforeldri þess áskynja að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, er því skylt að tilkynna það til barnaverndaryfirvalda, sbr. 17. gr. Barnaverndarlaga nr. 80/2002. Mælst er til að dagforeldri hafi samráð við leikskólafulltrúa um slík mál.

12. gr. Frí og leyfi dagforeldra

Dagforeldri á rétt á veikindaleyfi í allt að tíu daga á starfsárinu án þess að komi til lækkunar á framlagi Múlaþings eða frádrætti á dvalargjaldi foreldra. Veikindadagar umfram þessa daga dragast frá framlagi Múlaþings og dvalargjaldi.

Dagforeldrar hafa heimild til að taka sér allt að fimm daga leyfi á ári sem nýttir eru annað hvort milli jóla og nýárs, um páska eða í annan tíma í samráði við foreldra. Framlag Múlaþings skerðist ekki vegna þessara frídaga og dvalargjald foreldra helst óbreytt. Aðrar tilfallandi skammtíma fjarvistir dagforeldra s.s. vegna jarðarfara eða sérstakra fjölskylduaðstæðna skal samið um sérstaklega við foreldra.

Loki dagforeldri umfram framangreint af öðrum ástæðum lækkar framlag Múlaþings hlutfallslega og dagforeldri ber að draga dvalargjald foreldra frá.

Dagforeldri hefur ekki heimild til að fela öðrum daggæslu barna sem það hefur leyfi fyrir nema með samþykki foreldra, sem þá bera ábyrgð á barninu, sbr. 32. gr. í reglugerð nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum.

IV. kafli. Gildistaka o.fl.

13. gr. Málskot

Telji umsækjandi eða leyfishafi á rétt sinn hallað skv. reglum þessum er honum heimilt að vísa máli sínu til Fjölskylduráðs innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Fjölskylduráð skal fjalla um umsókn/mál og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er. Leggi umsækjandi fram ný gögn eftir að ákvörðun hefur verið tekin á hann rétt á að málið sé tekið til afgreiðslu á ný enda sé skilyrðum stjórnsýslulaga um endurupptöku máls fullnægt.

Að öðru leyti gilda viðeigandi ákvæði stjórnsýslulaga um málsmeðferð.

14. gr. Gildistaka

Reglur þessar eru settar með vísan til reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum.

Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 15. mars 2023

Síðast uppfært 17. mars 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?