Fara í efni

Reglur um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk

1. gr. Markmið og markhópur.

Reglur þessar byggja á 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og taka mið af leiðbeinandi reglum félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.1
Aksturþjónusta fatlaðs fólks er ætluð þeim sem uppfylla það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

2. gr.

Markmið akstursþjónustu Múlaþings er að gera þeim, sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu, nám, leita sér lækninga og hæfingar og njóta tómstunda. Haft er að leiðarljósi að styðja fatlað fólk til þátttöku í samfélaginu eins og kostur er hverju sinni.

Akstursþjónusta fyrir börn.

Forsjáraðilar fatlaðra barna geta sótt um akstur samkvæmt reglum þessum fyrir börn, t.d. vegna tómstunda, læknisferða, sjúkraþjálfunar eða til að rjúfa félagslega einangrun. Barn yngra en sex ára
skal ávallt vera í fylgd með fullorðnum einstaklingi þegar ferðast er með akstursþjónustu fatlaðs fólks.

Þurfi barn bílstól er það á ábyrgð forsjáraðila að útvega hann.

3. gr.

Skilyrði fyrir þjónustu samkvæmt reglum þessum eru:

  • Að notandi eigi lögheimili eða hafi skráð aðsetur í sveitarfélaginu.
  • Að notandi geti ekki komist ferða sinna með sambærilegum hætti og ófatlaðir íbúar sveitarfélagsins.

Heimilt er að veita undanþágur frá þessum skilyrðum skv. mati starfsfólks félagsþjónustu vegna sérstakra aðstæðna. Undanþágur eru teknar fyrir á fundum meðferðarteymis félagsþjónustu Múlaþings.

4. gr.

Íbúar í öðrum sveitarfélögum eiga kost á akstursþjónustu ef lögheimilisveitarfélag viðkomandi óskar eftir þjónustunni og skal samþykki lögheimilissveitarfélags liggja fyrir áður en þjónustan er veitt.

5. gr. Mat og framkvæmd þjónustunnar.

Fjölskylduráð ber ábyrgð á þjónustunni á vegum Múlaþings og hefur félagsmálastjóri yfirumsjón með henni.

Sótt er um rafrænt á mínum síðum hjá Múlaþingi á tilteknum eyðublöðum. Umsókn um akstursþjónustu er afgreidd á meðferðarfundi félagsþjónustu. Lagt er mat á umsókn, umfang þjónustu ákveðið ásamt tímalengd hennar.

Umsókn er svarað skriflega innan tveggja vikna frá því að hún berst. Í umsókn skulu koma fram almennar upplýsingar um umsækjanda s.s. fötlun, óskir um fjölda ferða og í hvaða tilgangi þær eru
farnar. Umsókn er metin með hliðsjón af getu og færni umsækjanda og möguleika hans til að nýta sér þjónustu almenningssamgangna og/eða aðra ferðamöguleika.

6. gr.

Félagsþjónusta Múlaþings rekur bíl sem sinnir akstursþjónustu fyrir fatlað fólk frá kl. 8.00 - 17.00 virka daga í þéttbýli Egilsstaða og Fella.

Félagsþjónusta Múlaþings ber ábyrgð á að allur öryggisbúnaður bifreiðar sem sinnir akstursþjónustu fatlaðs fólks sé í lagi skv. leiðbeiningum sem Samgöngustofa gefur út.

Bílstjóri ber ábyrgð á umsjón bíls sem ætlaður er til akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og að fyllsta öryggis sé gætt gagnvart farþegum. Hann starfar samkvæmt starfslýsingu bílstjóra félagsþjónustu
Múlaþings, siðareglum starfsmanna Múlaþings og virðir þagnarskyldu sem hann skrifar undir við ráðningu. Bílstjóri skal hafa aukin ökuréttindi og hafa sótt námskeið í skyndihjálp.

Óheimilt að ráða starfsmann til þess að sinna akstursþjónustu við fatlað fólk sem hlotið hefur refsidóm vegna brots á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um kynferðisbrot.
Sama gildir um refsidóm vegna brots á 211. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga.

Starfsmaður félagsþjónustunnar skipuleggur akstursáætlun í samvinnu við bílstjóra og með þarfir notenda í huga.

Bílstjóri tekur á móti breytingum á áætluðum ferðum s.s. vegna veikinda. Við framkvæmd þjónustunnar skal taka mið af því að farþegum sé sýnd tilhlýðileg virðing og sveigjanleiki.

7. gr.

Akstursþjónusta skal taka mið af þörfum hvers og eins. Fjöldi ferða er háður takmörkunum en við það skal miðað að þær verði ekki fleiri en 60 á mánuði. Hægt er að sækja um undanþágu frá þessu
hámarki. Ferðir til og frá vinnu, skóla, hæfingu og lækninga ganga fyrir öðrum ferðum.

Ferð er skilgreind í reglum þessum sem akstur milli tveggja staða, en ekki akstur fram og til baka.

Umsóknir um ferðir vegna afþreyingar eða tómstunda skulu metnar í samráði við umsækjanda hverju sinni.

Umsóknir um akstursþjónustu þeirra sem ekki geta nýtt sér akstursbíl, t.d. vegna búsetu í öðrum þéttbýliskjörnum eða dreifbýli, tímabundinnar dvalar í öðru sveitarfélagi eða þörf á þjónustu utan
dagvinnutíma eru teknar fyrir á meðferðarfundum félagsþjónustu og metnar út frá þörfum hvers einstaklings. Leitast skal við að sýna sveigjanleika og tryggja fjölbreytt þjónustuframboð á sviði akstursþjónustu t.d. með notkun leigubíla eða með samningum við einkaaðila.

8. gr. Gjaldtaka.

Akstursþjónusta fyrir fatlað fólk er gjaldfrjáls á dagvinnutíma og innan þéttbýlis Egilsstaða og Fella. Um gjald fyrir akstursþjónustu utan þess tíma og akstursþjónustu í dreifbýli vísast til gjaldskrár
akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.

9. gr. Málskotsréttur umsækjanda.

Ákvörðun um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk er tekin á meðferðarfundum félagsþjónustu.

Umsækjandi um akstursþjónustu getur krafist rökstuddra, skriflegra svara um forsendur ef umsókn er synjað. Ákvörðun um synjun má áfrýja til fjölskylduráðs Múlaþings. Skal það gert skriflega
innan fjögurra vikna. Ákvörðunum fjölskylduráðs er unnt að skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála.

10. gr. Gildistími.

Reglur þessar sem samþykktar voru af sveitarstjórn Múlaþings 12. janúar 2022 öðlast þegar gildi.

Reglurnar birtar í Stjórnartíðindum

Síðast uppfært 03. ágúst 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?