Fara í efni

Reglur um úthlutun á leiguhúsnæði í eigu Múlaþings (aðrar en félagslegar íbúðir)

1. gr.

Markmið með þessum reglum er að móta skýran ramma um úthlutun á leiguhúsnæði í eigu Múlaþings, annars en félagslegs húsnæðis.

2. gr.

Við útleigu á íbúðum sveitarfélagsins, sem byggðar hafa verið með stofnframlagi ríkisins og sveitarfélagsins, skv. lögum um almennar íbúðir nr. 52/2016, gildir 6. grein reglugerðar um um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir nr. 183/2020, um tekju- og eignamörk með síðari breytingum.

Árstekjur leigjenda íbúða, skv. grein þessari, við upphaf leigu skulu ekki nema hærri fjárhæð en 6.957.000 kr. fyrir hvern einstakling en 9.740.000 kr. fyrir hjón og sambúðarfólk. Við þá fjárhæð bætast 1.739.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu. Með tekjum er í reglugerð nr. 183/2020 átt við allar tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, samkvæmt skattframtali síðasta árs, staðfestu af ríkisskattstjóra, að teknu tilliti til frádráttar skv. 1., 3., 4. og 5. tölulið A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar skv. 31. gr. sömu laga.

Samanlögð heildareign leigjenda almennra íbúða að frádregnum heildarskuldum við upphaf leigu, með vísan til 72.-75. gr. laga um tekjuskatt samkvæmt skattframtali síðasta árs, staðfestu af ríkisskattstjóra, skal ekki nema hærri fjárhæð en 7.509.000 kr.

Fjárhæðirnar að ofan eru byggðar á reglugerð nr. 183/2020 og taka breytingum eftir því sem reglugerðinni er breytt hverju sinni.

Önnur atriði sem hafa skal til hliðsjónar við forgangsröðun til úthlutunar, samkvæmt grein þessari eru:

Umsækjandi hafi eða ætli sér að hafa lögheimili í sveitarfélaginu og þá þarf að liggja fyrir staðfesting um að lögheimilisbreyting sé í ferli.

 • Umsækjandi hafi náð 18 ára aldri
 • Óöryggi umsækjanda í húsnæðismálum eða ófullnægjandi húsnæðisaðstaða
 • Fjölskyldustærð
 • Samfélagsleg áhrif

Hægt er að leigja öðrum íbúðir samkvæmt þessari grein ef ekki sækja aðrir sem ofangreint á við. Íbúðin skal þá aðeins leigð til eins árs í senn.

Heimastjórnir Múlaþings annast úthlutun leiguíbúða Múlaþings, samkvæmt grein þessari, innan valdmarka heimastjórna eins og þau eru skilgreind í 36. gr. samþykkta um stjórn Múlaþings í umboði framkvæmda- og umhverfismálastjóra og lýtur staðfestingu hans samkvæmt 15. grein Viðauka II um breytingu á samþykkt um stjórn Múlaþings, nr. 1042/2020.

3. gr.

Um annað íbúðarhúsnæði í eigu sveitarfélagsins, sem ekki er háð kvöðum og reglum varðandi stöðu leigjanda gildir eftirfarandi:

Heimastjórnir, í samráði við sveitarstjóra, annast úthlutun íbúðanna og auglýsingu þeirra gerist þess þörf, í umboði framkvæmda- og umhverfismálastjóra og lýtur staðfestingu hans samkvæmt 15. grein Viðauka II um breytingu á samþykkt um stjórn Múlaþings, nr. 1042/2020.

Til hliðsjónar fyrir úthlutun samkvæmt auglýsingu skal hafa eftirfarandi:

 • Samfélagsleg áhrif
 • Umsækjandi hafi náð 18 ára aldri
 • Óöryggi umsækjanda í húsnæðismálum eða ófullnægjandi húsnæðisaðstaða
 • Fjölskyldustærð

Sveitarfélagið getur ráðstafað umræddum íbúðum án auglýsingar.

4. gr.

Almennt gildir þetta um leiguhúsnæði í eigu sveitarfélagsins, sbr. grein 2 og 3 í reglum þessum:

 • Íbúðir eru reyklausar
 • Hunda- og kattahald er ekki heimilt
 • Umsækjandi skal vera með lögheimili í Múlaþingi á meðan að leigusamningur er í gildi
 • Áskilinn er réttur til að hafna umsóknum á forsendum þess að fyrri reynsla eða umsagnir gefi tilefni til að efast um góða umgengni leigutaka eða skil hans á leigu
 • Aðrar umgengisreglur má finna í leigusamningi

5. gr.

Við auglýsingu íbúða til leigu skal umsóknarfrestur vera tvær vikur.

Leigusamningar samkvæmt reglum þessum skulu almennt vera tímabundnir með möguleika á framlengingu. Komi fram ósk um framlengingu leigusamnings skal hún afgreidd af framkvæmda- og umhverfismálastjóra.

Tímabundnum leigusamningi lýkur á umsömdum degi án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila.

Sé gerður ótímabundinn samningur gilda um hann Húsaleigulög hvað uppsagnarákvæði varðar.

Gera skal skriflega leigusamninga á hefðbundu formi húsaleigusamninga og gilda um þá Húsaleigulög.

6. gr.

Umsóknir um leiguhúsnæði í eigu sveitarfélagsins skulu berast viðkomandi heimastjórn á sérstökum umsóknareyðublöðum á Þjónustugátt Múlaþings sem er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins.

7. gr.

Við afhendingu leiguíbúðar þarf að leggja fram tryggingafé eða bankaábyrgð samsvarandi 3 mánaða leigu.

Skilyrði fyrir leigu er að leigjandi sé með sjálfvirka millifærslu í greiðsluþjónustu hjá fjármálafyrirtæki og þarf við afhendingu íbúðar að liggja fyrir skrifleg staðfesting þar að lútandi.

Almennt skal leiga reiknuð þannig að hún standi undir rekstri viðkomandi húsnæðis miðað við reglur um Eignasjóð.

Upphæð leigunnar er bundin vísitölu neysluverðs, en leiga breytist að öðru leyti samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar Múlaþings.

Í leigusamningi skal kveðið á um það að leigutaka sé óheimilt að framleigja íbúðina. Óheimilt er að reka atvinnustarfsemi í leiguíbúðum Múlaþings.

8. gr.

Umsjónarmaður fasteigna hjá Múlaþingi, eða einhver í hans umboði, sér um viðhald leiguíbúða sveitarfélagsins. Úttekt á ástandi íbúðar er almennt gerð við upphaf og lok leigu. Í leigusamningi koma fram ákvæði um ástand hins leigða, úttektir, viðhald og umgengni.

Í leigusamningi skal kveðið á um skiptingu kostnaðar vegna viðhalds og reksturs húsnæðis.

Samþykkt á fundi byggðaráðs Múlaþings 15. nóvember 2022

Síðast uppfært 17. nóvember 2022
Getum við bætt efni þessarar síðu?