Fara í efni

Reglur um úthlutun lóða hjá Múlaþingi

1. gr. Úthlutunaraðili

Umhverfis- og framkvæmdaráð, hér eftir nefnt ráðið, ákvarðar um úthlutanir á byggingarlóðum hjá Múlaþingi, í umboði sveitarstjórnar.

2. gr. Gildar lóðarumsóknir og hæfi lóðarumsækjenda

Umsókn um lóð skal gerð í rafrænu umsóknarkerfi á vegum sveitarfélagsins. Nauðsynlegar upplýsingar skulu fylgja með s.s. nafn, kennitala, heimilisfang, netfang og símanúmer ásamt öðrum hefðbundnum grunnupplýsingum. Umboðsmanni er heimilt að sækja um enda fylgi skriflegt umboð með umsókninni. Hæfur umsækjandi um byggingarlóð hjá Múlaþingi er einstaklingur eða lögaðili með heimilisfang og aðsetur innan Evrópska efnahagssvæðisins, er fjárráða og ekki í vanskilum við sveitarsjóð Múlaþings. Með umsókninni skal fylgja yfirlýsing fjármálastofnunar sem staðfestir fjárhagslega getu umsækjanda til fyrirhugaðra framkvæmda.

3. gr. Úthlutun lóða

Ráðið ákvarðar hvort lóðir, sem lausar eru til úthlutunar, skuli úthlutað samkvæmt A, B eða C lið. Úthlutun lóða skv. A og B lið fer fram á afgreiðslufundi skipulagsmála. Úthlutanir skv. C lið fara fram hjá ráðinu. Ráðið getur ákveðið að einstaklingar skulu njóta forgangs við úthlutun ákveðinna lóða umfram lögaðila.

A)    Ráðið felur skipulagsfulltrúa að auglýsa lóðir til umsóknar. Lóðirnar skulu vera sýnilegar á heimasíðu sveitarfélagsins. Umsóknarfrestur skal eigi vera skemmri en tvær vikur frá birtingu auglýsingar. Í auglýsingu skal koma fram staður og dagsetning opins afgreiðslufundar skipulagsmála þegar úthlutun mun eiga sér stað.

Umsækjendur geta sótt um fleiri en eina lóð, en aðeins einu sinni um hverja lóð. Hverjum umsækjanda skal aðeins úthlutað einni lóð. Hjón eða einstaklingar með sama lögheimili skulu skila sameiginlegri umsókn og teljast einn umsækjandi.

Sé um íbúðarlóðir að ræða, kemur einstaklingur eða lögaðili sem þegar hefur fengið lóð úthlutaða til byggingar, í sveitarfélaginu, án þess að lóðarleigusamningur hafi verið gerður, ekki til greina við úthlutun. Ráðið getur þó heimilað að vikið sé frá skilyrðinu ef umsækjandi sýnir fram á að hann geti byggt upp á fleiri lóðum á eðlilegum hraða, lóðir eru í mismunandi byggðakjörnum og/eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Séu fleiri en einn umsækjandi um lóð eða lóðir í sömu úthlutun, skal dregið á milli þeirra og þeim raðað í þeirri röð sem þeir eru dregnir, þó ekki fleiri en fimm umsóknir um hverja lóð.

Þetta skal framkvæmt á opnum afgreiðslufundi skipulagsmála þar sem lágmarki tveir starfsmenn umhverfis- og framkvæmdasviðs sitja.

Sé sami umsækjandi efstur á lista úrdráttar um fleiri en eina lóð gefst honum kostur á að velja á milli lóða innan viku frá úrdrætti. Berist ekki svar innan tímafrests þá velur skipulagsfulltrúi lóð til úthlutunar fyrir viðkomandi og úthlutar hinni eða hinum lóðunum til næsta umsækjanda í röðinni.
Verði lóðir afgangs eftir úthlutun, skal birta þær á heimasíðu sveitarfélagsins og úthlutað samkvæmt B lið.

B)    Umhverfis- og framkvæmdarráð felur skipulagsfulltrúa að birta lista yfir lausar lóðir á heimasíðu sveitarfélagsins og skal þeim úthlutað á afgreiðslufundi skipulagsmála til fyrsta hæfa umsækjanda, að því gefnu að viðkomandi sé ekki með fleiri en eina úthlutaða lóð án lóðarleigusamnings annarsstaðar í sveitarfélaginu. Ráðið getur þó heimilað að vikið sé frá skilyrðinu ef umsækjandi sýnir fram á að hann geti byggt upp á fleiri lóðum á eðlilegum hraða, lóðir eru í mismunandi byggðakjörnum og/eða ef sérstakar ástæður mæla með því.

C)    Umhverfis- og framkvæmdarráð ákveður hvort úthluta skuli lóðum beint til framkvæmdaraðila eða að fram fari útboð um lóðir. Með lóðaumsókn skal fylgja framkvæmda- og tímaáætlun væntanlegra byggingarframkvæmda. Ráðið staðfestir úthlutun og samning við framkvæmdaraðila.

4. gr. Úthlutunarskilmálar

Umsækjandi sem fær úthlutað byggingarlóð, er tilkynnt um úthlutunina með bréfi eða tölvupósti.

Óheimilt er að framselja lóðarúthlutun.

Umsækjandi fær senda kröfu frá sveitarfélaginu um greiðslu lóðarúthlutunargjalds og gatnagerðargjalds.
Byggingarfulltrúa er heimilt að veita lóðarhafa leyfi til að gera mælingar, jarðvegskannanir, grafa fyrir húsi á lóð eða flytja þangað nauðsynlegt efni, án þess að byggingarleyfi liggi fyrir, enda sé það gert á þann hátt sem hann mælir fyrir um. Kostnaður vegna slíkra framkvæmda er alfarið á ábyrgð lóðarhafa og er ekki endurgreiddur þótt lóð sé innkölluð eða henni skilað.

5. gr. Afturköllun lóðarúthlutunar

Skipulagsfulltrúi getur afturkallað lóðarúthlutun, ef lóðarhafi heldur ekki byggingar- og skipulagsskilmála, m.a. varðandi fresti til að sækja um byggingarleyfi, verkhraða o.s.frv.

Úthlutun skal afturkölluð ef:

  • Gatnagerðargjöld, uppbyggingargjald og lóðarúthlutunargjald kemst í 30 daga vanskil.
  • Lóðarhafi hefur ekki fengið útgefið byggingarleyfi á lóð innan 12 mánaða frá ákvörðun um lóðarúthlutun. Skipulagsfulltrúa er heimilt að framlengja frestinn í eitt skipti til allt að 12 mánaða óski lóðarhafi eftir því með formlegum hætti.
  • Umsækjandi gerir ekki lóðarleigusamning við sveitarfélagið innan fjögurra vikna frá því að honum er tilkynnt að samningurinn sé tilbúinn til undirritunar.

Afturköllun úthlutunar skal tilkynnt með sannanlegum hætti með fjögurra vikna fyrirvara.

6. gr. Skil á lóð þar sem framkvæmdir eru ekki hafnar

Lóð sem úthlutað er skv. lið A í 3. gr. og skilað er innan 6 mánaðar frá úrdrætti skal bjóða þeim sem næstur var í röðinni. Séu skilin 6 mánuðum eða síðar frá útdrætti skal lóð birt sem laus til úthlutunar á heimasíðu Múlaþings.

Lóð sem úthlutað var skv. B lið 3. gr. og er skilað, skal birt sem laus til úthlutunar.

Lóð sem úthlutað var skv. C lið 3. gr. og er skilað, skal umhverfis- og framkvæmdarráð taka afstöðu til ráðstöfun hennar.

7. gr. Lóðarleigusamningar

Gera skal lóðarleigusamning við lóðarhafa þegar undirstöður burðarvirkis eru fullgerðar, þær frágengnar með einangrun. Fyllt skal inn í sökkla og að þeim. Umhverfis- og framkvæmdarráð getur heimilað að lóðarleigusamningur sé gerður fyrr.

8. gr. Sérákvæði

Heimilt er að taka frá lóðir, ef um augljósa hagsmuni er að ræða, svo sem þegar það liggur fyrir að fyrirtæki eða stofnun á nálægri lóð þurfi að eiga kost á því að stækka lóð sína síðar, eða ef sveitarfélagið sjálft eða opinberar stofnanir þurfa að tryggja sér byggingarrétt. Slíkar ráðstafanirskal leggja fyrir ráðið til endurskoðunar á fimm ára fresti. Ef fyrir liggur að taka þurfi lóð eða lóðir frá skal lóðarumsækjandi óska eftir deiliskipulagsbreytingu, sé þess þörf, innan eins árs frá því að viðkomandi fékk lóðina frátekna.

9. gr. Gildistaka

Samþykkt tekur gildi frá afgreiðsludegi sveitarstjórnar Múlaþings. Um leið falla úr gildi Reglur um úthlutun lóða hjá Múlaþingi frá 11. maí 2022.


Samþykkt af sveitarstjórn Múlaþings 11. janúar 2023

Síðast uppfært 20. janúar 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?