Fara í efni

Siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Múlaþingi

1. grein – Markmið

Markmið reglnanna er að skilgreina það hátterni sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar Múlaþings sýni af sér við störf sín fyrir hönd sveitarfélagsins. Jafnframt að upplýsa íbúa um þær kröfur sem þeir geta gert til kjörinna fulltrúa. Með kjörnum fulltrúum er bæði átt við fulltrúa sveitarstjórnar og alla aðra fulltrúa sem sveitarstjórn kýs til setu í ráðum og nefndum Múlaþings, svo sem fulltrúa byggðaráðs, fastanefnda og annarra samkvæmt 48. grein í samþykkt um stjórn Múlaþings.

2. grein – Trúnaður

Kjörnir fulltrúar skulu gæta þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna, samkvæmt lögum, reglum eða eðli máls. Þeir skulu virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á lokuðum fundum í ráðum og nefndum Múlaþings og um innihald skjala eða annarra gagn er þeir fá aðgang að starfs síns vegna og trúnaður skal ríkja um. Trúnað ber að halda áfram eftir að störfum lýkur.

3. grein – Gæsla almannahagsmuna

Kjörnir fulltrúar skulu í störfum sínum fylgja lögum, reglum og samþykktum Múlaþings og sannfæringu sinni. Þeir skulu gæta almannahagsmuna og hagsmuna sveitarfélagsins, auk þess sem þeim ber að hafa í heiðri grundvallaratriði góðrar stjórnsýslu. Þeir skulu í störfum sínum gæta heildarhagsmuna samfélagsins.

4. grein – Ábyrgð og upplýsingagjöf

Kjörnum fulltrúum ber að starfa af kostgæfni, fyrir opnum tjöldum og vera tilbúnir að rökstyðja ákvarðanir sínar og tilgreina þá þætti sem ákvarðanir þeirra eru byggðar á. Þeir skulu bera ábyrgð gagnvart íbúum sveitarfélagsins og svara fyrirspurnum almennings og fjölmiðla um framkvæmd þeirra starfa sem þeir bera ábyrgð á sem kjörnir fulltrúar. Þeim ber ekki að veita neinar trúnaðarupplýsingar eða upplýsingar er varða einkalíf annarra kjörinna fulltrúa, starfsfólks eða þriðja aðila.

5. grein - Háttvísi, virðing og valdmörk

Í störfum sínum skulu kjörnir fulltrúar koma fram af háttvísi. Þeim ber að virða ákvörðunarvald, réttindi og hlutverk annarra kjörinna fulltrúa og starfsfólks sveitarfélagsins. Kjörnir fulltrúar hafa ekki boðvald yfir starfsfólki sveitarfélagsins, nema í gegnum samþykktir á fundum. Einstakir kjörnir fulltrúar hafa því ekki umboð til þess að gefa starfsfólki fyrirmæli og skulu ekki hafa áhrif á störf þeirra og ákvarðanir. Þeir mega ekki hvetja eða aðstoða kjörinn fulltrúa eða starfsmann Múlaþings við að brjóta þær meginreglur sem hér eru settar fram. Þeir mega ekki hlutast til um að starfsfólk geri neitt það sem hefur þann tilgang að verða kjörnum fulltrúa á beinan eða óbeinan hátt til hagsmunalegs ávinnings, né heldur aðila nátengdum honum eða ákveðnum hópum eða fyrirtækjum. Kjörnir fulltrúar skulu einnig gæta þess að nýta sér ekki óopinberar upplýsingar til að hagnast á þeim persónulega eða hjálpa öðrum til þess.

6. grein – Gjafir og fríðindi

Kjörnir fulltrúar skulu í störfum sínum aldrei falast eftir eða þiggja gjafir, hluti eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum, sem fela í sér veruleg fjárhagsleg verðmæti eða persónulega ávinning. Aðeins skal heimilt að þiggja gjafir sé um að ræða tækisfærisgjafir sem gefnar eru í tengslum við fundi eða aðra viðburði og að andvirði þeirra sé óverulegt. Upplýsa skal byggðaráð um viðtöku gjafa samkvæmt þessu. Boðsferðir af öllu tagi skulu lagðar fyrir byggðaráð til umfjöllunar og samþykktar fyrir fram með rökstuðningi.

7. grein – Hagsmunaárekstrar

Kjörnir fulltrúar skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum. Þegar kjörinn fulltrúi á óbeinna eða beinna persónulegra hagsmuna að gæta í máli sem er til umfjöllunar hjá sveitarfélaginu skal hann gera grein fyrir þessum hagsmunum áður en umræður fara fram og atkvæði eru greidd ef vafi getur leikið á um hæfi hans. Kjörnir fulltrúar taka ekki þátt í undirbúningi og afgreiðslu mála sem þeir eru vanhæfir í samkvæmt Sveitarstjórnarlögum. Kjörnum fulltrúum sem sitja í stjórnum í einkareknum eða opinberum félögum, sem gætu átt hagsmuna að gæta vegna beinna eða óbeinna viðskipta við sveitarfélagið, ber að upplýsa um slíkt.

8. grein – Ábyrgð í fjármálum

Kjörnum fulltrúum ber að virða fjárhagsáætlun og grundvallarreglur um fjármálastjórn sem tryggja réttmæta og ábyrga meðferð á almannafé íbúa Múlaþings. Við störf sín skulu þeir ekki aðhafast neitt sem felur í sér misnotkun á almannafé, s.s. einkanotkun á byggingum sveitarfélagsins, bílum, tækjum eða verkfærum, nema slík notkun falli undir heimildir sem ákveðnar eru af sveitarstjórn.

9. grein – Stöðuveitingar

Kjörnum fulltrúum ber að tryggja að störf eða stöðuveitingar byggist á hæfi einstaklingsins eingöngu og að hæfasti einstaklingurinn sé ávallt valinn í viðkomandi starf. Kjörnir fulltrúar skulu í starfi sínu hjá Múlaþingi ekki gera neitt sem veitir þeim starfslegan ávinning á meðan þeir sitja sem kjörnir fulltrúar eða eftir að þeir hafa látið af störfum.

10. grein – Miðlun

Kjörnum fulltrúum ber að tileinka sér þessar siðareglur, lýsa því yfir að þeir séu reiðubúnir til að hafa þessar siðareglur að leiðarljósi og staðfesti þann vilja með undirskrift sinni í upphafi hvers kjörtímabils. Framboðum sem bjóða fram til sveitarstjórnar Múlaþings skulu kynntar siðareglur þessar og endurskoðun þeirra samkvæmt 15. grein samþykkta um stjórn Múlaþings og upplýsi ávallt væntanlega frambjóðendur sína um þær. Siðareglur Múlaþings á hverjum tíma skulu vera hluti af starfsskyldum stjórnenda sveitarfélagsins. Þær skulu vera aðgengilegar starfsfólki sveitarfélagsins og fjölmiðlum, til dæmis á heimasíðu sveitarfélagsins, til að þessir aðilar getir gert grein fyrir þeim.

11. grein – Gildistaka og endurskoðun

Reglur þessar taka gildi með samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings og skulu ávallt endurskoðaðar fyrir lok árs á fyrsta starfsári nýkjörinnar sveitarstjórnar.

Samþykkt á fundi sveitarstjórnar Múlaþings 11. nóvember 2020
Samþykkt að halda reglunum óbreyttum á fundi byggðaráðs 5. júní 2022

Síðast uppfært 05. júlí 2022
Getum við bætt efni þessarar síðu?