Fara í efni

Viðmiðunarreglur um vetrarþjónustu í Múlaþingi

Almennt

Markmið með vetrarþjónustu er að draga úr neikvæðum áhrifum snjós og íss á samgöngur í sveitarfélaginu með tilliti til einstaklinga, fyrirtækja og skólastarfs.

Vetrarþjónusta miðar að því að halda opnum helstu stofn- og tengibrautum, aksturleiðum skólabíla og almenningssamgangna og tryggja aðgengi að neyðarþjónustu eins og kostur er. Reynt er að lágmarka umferð snjómoksturstækja við skólastofnanir á helstu ferðatímum barna til og frá skóla.

Ef veður eða veðurútlit er með þeim hætti, áskilur sveitarfélagið sér rétt til að fella niður snjóhreinsun eða skerða þjónustu á meðan óveður gengur yfir. Vakin er athygli á að ekki er hægt að tímasetja nákvæmlega mokstur á einstökum vegum eða götum.

Verkstjórar þjónustumiðstöðva Múlaþings halda utan um vetrarþjónustu hver í sínum byggðakjarna en yfirumsjón hefur framkvæmda- og umhverfismálastjóri.

Starfsmenn þjónustumiðstöðva sinna vetrarþjónustu en jafnframt er leitað til verktaka á hverjum stað og leitast við að semja við aðila í nærsamfélaginu til að spara vegalengdir og tíma.

Sveitarfélagið annast ekki snjóhreinsun

  • á bílastæðum eða plönum einstaklinga og fyrirtækja.
  • frá sorpílátum og bílskúrum einstaklinga og fyrirtækja.
  • á einkavegum að húsnæði sem skilgreint er sem sumarhús í fasteignaskrá Þjóðskrár.
  • á einkavegum í og að sumarhúsahverfum.
  • þar sem einstaklingur er skráður með lögheimili en hefur ekki fasta búsetu allt árið á staðnum.
  • að einstökum ferðamannastöðum.
  • á hlöðum eða plönum við útihús í dreifbýli.

Félagsþjónustan getur beðið um þjónustu fyrir sína skjólstæðinga.

Þá ber þeim aðilum er sinna snjóhreinsun fyrir Múlaþing ekki að draga bíla upp úr festu.

Sveitarfélagið greiðir ekki kostnað vegna snjóhreinsunar sem til hefur verið stofnað án samþykkis, en í neyðartilvikum getur þó lögregla, slökkvilið og heilbrigðisstofnanir óskað eftir snjóhreinsun á kostnað sveitarfélagsins.

Dreifbýli

Snjóhreinsun og hálkueyðingu í dreifbýli Múlaþings er stjórnað af Framkvæmdadeild Múlaþings og Vegagerðinni.

Þjóðvegir

Vegagerðin sér um alla snjóhreinsun á þjóðvegum og er þjónustustig skilgreint í handbók þeirra um vetrarþjónustu.

Héraðs- og tengivegir

Vegagerðin skilgreinir héraðs- og tengivegi sem vegi þar sem heimilt er að beita reglu um helmingamokstur. Samkvæmt reglum Vegagerðarinnar er heimilt að moka þessa vegi með kostnaðarþátttöku Vegagerðarinnar allt að tvisvar sinnum í viku, meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla. Kostnaður við snjóhreinsun þessara vega skiptist til helminga á Vegagerð og sveitarfélagið. Komi til að moka þurfi helmingamokstur oftar en tvisvar í viku verður að liggja fyrir samþykki Vegagerðarinnar á greiðslu helmings kostnaðar á móti Múlaþingi. Vegagerðin sér um þann mokstur að höfðu samráði við verkstjóra þjónustumiðstöðva Múlaþings. Við ákvörðun á mokstri skal skólaakstur njóta forgangs.

Brekkur, beygjur og varhugaverðir staðir eru hálkuvarðir og sér Vegagerðin um það. Samkvæmt reglum Vegagerðarinnar er einnig heimilt að moka sérstaklega vegna jarðarfara og greiðir Vegagerðin þann kostnað að fullu.

Heimreiðar

Verkstjóri þjónustumiðstöðvar Múlaþings metur þörf á snjóhreinsun og hálkuvörnum, m.a. í samráði við skólabílstjóra.

Heimreiðar í dreifbýli þar sem skólaakstri er sinnt eru í forgangi og eru þær hreinsaðar virka daga þegar þörf er á. Aðrar heimreiðar í dreifbýli eru hreinsaðar virka daga þegar þörf er á, m.a. í tengslum við sorphirðu, komu mjólkurbíla og/eða félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu.

Einungis eru hreinsaðar heimreiðar að bæjum þar sem er föst búseta og viðkomandi íbúar með skráð lögheimili. Aðilar sem taka upp fasta búsetu og skrá lögheimili á stöðum í dreifbýli sem ekki hefur verið mokað að geta haft samband við verkstjóra þjónustumiðstöðvar varðandi hreinsun.

Sveitarfélagið annast ekki hreinsun heimreiða að sumarhúsum, óháð því hvort þar er skráð lögheimili eða ekki. Sveitarfélagið greiðir ekki fyrir snjóhreinsun eða hálkuvarnir inni á sumarhúsasvæðum.

Vetrarþjónusta á fyrstu 50 m frá bæjum eru á vegum húseigenda.

Hreinsun á innansveitarvegum nýtur forgangs umfram hreinsun heimreiða.

Þéttbýli

Snjóhreinsun og hálkueyðingu í þéttbýli er stjórnað af Framkvæmdadeild Múlaþings.

Verkstjóri þjónustumiðstöðvar á viðkomandi svæði forgangsraðar verkefnum í snjóhreinsun og hálkueyðingu í samræmi við forgangskort. Þeir kalla út verktaka sem fylgja skulu fyrirmælum hvað varðar fyrirkomulag og gæði hreinsunar. Sveitarfélagið sér ekki um hreinsun á heimkeyrslum að fyrirtækjum eða íbúðarhúsum í þéttbýli, gildir það einnig um heimkeyrslur að lögbýlum sem eru innan þéttbýlis.

Forgangsröðun vetrarþjónustu gangstíga og gatna í þéttbýli

Á heimasíðu Múlaþings má finna kort yfir forgangsröðun vetrarþjónustu á göngustígum og götum í þéttbýli.

Appelsínugular götur

Appelsínugular götur eru þær götur og vegir þar sem þjónustu er alfarið sinnt af Vegagerðinni.

Forgangur 1 - Rauðar götur

Allar stofnbrautir og aðaltengigötur ásamt fjölförnum safngötum, meðal annars tengingar að neyðarþjónustu og skólastofnunum auk leiðarkerfis almenningssamgangna. Lögð er áhersla á að rauðar götur séu alltaf greiðfærar og að hreinsun þeirra sé lokið fyrir kl. 08:00 að morgni virka daga.
Bílastæði og plön við skóla, leikskóla, íþróttamiðstöðvar, slökkvistöðvar og björgunarmiðstöðvar eru í forgangi og skulu jafnframt vera hreinsuð fyrir 08:00 virka daga.

Forgangur 2 - Gular götur

Fáfarnar safngötur og húsagötur. Hreinsun hefst þegar hreinsun er lokið á rauðum götum og er fyrst lögð áhersla á að stinga í gegn þannig að fært sé inn í götur áður en almenn snjóhreinsun fer fram. Almennt er snjór hreinsaður frá innkeyrslum. Þau tilfelli geta komið upp að ekki er hreinsað frá innkeyrslum fyrr en nokkru eftir að gata hefur verið hreinsuð. Við snjóhreinsun gatna er þó líklegt að snjóruðningar eða -kögglar geti orðið eftir við innkeyrslur sem ekki næst að hreinsa og þurfa íbúar það sjá um þá hreinsun sjálfir. Bílastæði og plön við tónlistarskóla, ráðhús, söfn og aðrar stofnanir sveitarfélagsins skulu hreinsuð samhliða.

Hálkuvarnir í þéttbýli

Þörf á hálkuvörnum er metin eftir aðstæðum hverju sinni og er það í höndum verkstjóra þjónustumiðstöðva að skipuleggja vinnu við þær. Notaður er saltblandaður sandur við hálkuvarnir.

Hálkusandur stendur íbúum til boða og geta þeir nálgast hann við þjónustumiðstöðvar.

Göngustígar og gangstéttar

Gert er ráð fyrir að gangstéttar að skólastofnunum og íþróttamiðstöðvum séu hreinsaðar. Lögð er áhersla á að þær séu alltaf greiðfærar og að hreinsun á þessum göngustígum og gangstéttum sé lokið fyrir kl. 08:00 að morgni virka daga. Mikil áhersla er lögn á snjóhreinsun á göngustígum og gangstéttum.

Fyrirvari

Reglur þessar eru settar fram sem viðmið og ber að líta þær sem slíkar. Sérstakar aðstæður vegna snjóþyngsla eða erfiðs tíðarfars geta raskað áformum um snjóhreinsun og hálkuvarnir.

Hvorki Vegagerðin né Múlaþing bera ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem kann að verða, takist ekki að framfylgja viðmiðunarreglum þessum.

Samþykkt í umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings 20. mars 2023

Síðast uppfært 25. júlí 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?