Fara í efni

Heimastjórn Borgarfjarðar

42. fundur 06. desember 2023 kl. 08:00 - 12:30 á skrifstofu sveitarfélagsins, Borgarfirði
Nefndarmenn
  • Eyþór Stefánsson formaður
  • Alda Marín Kristinsdóttir aðalmaður
  • Ólafur Arnar Hallgrímsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Jón Þórðarson fulltrúi sveitarstjóra
Fundargerð ritaði: Jón Þórðarson fulltrúi sveitarstjóra
Í upphafi fundar var borin upp tillaga að bæta dagskrárliðum 6 og 7 við dagskrá fundarins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

1.Fjárhagsáætlun Múlaþings 2024 - 2027

Málsnúmer 202306001Vakta málsnúmer

Fyrir liggur greinargerð með fjárhagsáætlun 2024 - 2027. Inn á fund heimastjórnar kom Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri Múlaþings og Hugrún Hjálmarsdóttir framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþings og fóru yfir fjárhags- og framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins.

Heimastjórn þakkar þeim fyrir komuna og upplýsandi samtöl. Heimastjórn hugnast fyrirliggjandi áætlanir varðandi Borgarfjörð.

Lagt fram til kynningar.

Gestir

  • Hugrún Hjálmarsdóttir - mæting: 08:30
  • Guðlaugur Sæbjörnsson - mæting: 08:15

2.Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023-2024

Málsnúmer 202312016Vakta málsnúmer

Fyrir liggur úthlutun almenns byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2023 - 2024.

Enn á ný fær Borgarfjörður eystri lágmarksúthlutun sem er 15 tonn. Heimastjórn leggur til að ekki verði sérreglur vegna úthlutunar hans og þarf því ekki að aðhafast frekar.

Vísað til sveitarstjórnar til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

3.Fjarðarborg - Samfélagsmiðstöð

Málsnúmer 202011069Vakta málsnúmer

Inn á fund heimastjórnar kom Óli Grétar Metúsalemsson frá Eflu.

Óli fór yfir og ræddi við heimastjórn um stöðu og næstu skref verkefnisins.

Stefnt er á að Óli komi reglulega inn á fundi heimastjórnar á meðan verktíma stendur.

Lagt fram til kynningar.

Gestir

  • Óli Grétar Metúsalemsson - mæting: 10:00

4.Húsnæðisáætlun Múlaþings 2024

Málsnúmer 202308176Vakta málsnúmer

Fyrir liggja drög að breyttri húsnæðisáætlun Múlaþings fyrir árið 2024.

Ljóst er að uppfæra þarf texta er snýr að Borgarfirði í drögunum, m.a. hefur eftirfarandi setning verið fjarlægð úr drögunum: „Múlaþing er virkur þátttakandi á leigumarkaði á Borgarfirði og kemur það til sem mótvægisaðgerð vegna þeirrar stöðu sem ríkt hefur í húsnæðismálum þar undanfarin ár þar sem stór hluti húsnæðis á staðnum er nýttur til sumardvalar en ekki heilsársbúsetu.“

Íbúafjöldi hefur aukist um 3,9% á ári síðustu 5 ár og telur heimastjórn aðgengi að leiguíbúðum vera lykilforsendu þeirrar fjölgunar en markaðsaðstæður á Borgarfirði gera fólki erfiðara fyrir að byggja húsnæði. Samkvæmt skýrslu Nordregio, Attractive rural municipalities in the Nordic countries 2020, vill ungt fólk í dag hafa frelsi til búsetu og binda sig ekki fjárhagslega með kaupum á húsnæði og því er algjör lykilforsenda að Múlaþing tryggi aðgengi að leiguíbúðum meðan markaðsaðstæður leyfa það ekki.

Heimastjórn fer fram á að ofangreind setning verði inn í nýrri húsnæðisáætlun og mun koma öðrum tillögum að textabreytingum á framfæri.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

5.Sjávarútvegsstefna og frumvarp til laga um sjávarútveg

Málsnúmer 202312047Vakta málsnúmer

Fyrir liggur á samráðsgátt stjórnvalda drög að sjávarútvegsstefnu og drög að frumvarpi til laga um sjávarútveg.

Heimastjórn leggur til að sem byggðafestuaðgerð verði kvóta úthlutað beint til byggðarlaga.
Heimastjórn hugnast ekki að línuívilnun verði afnumin.

Heimastjórn mun senda inn umsögn um málið í samræmi við umræður á fundinum.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

6.Fundir sveitarstjórnar, ráða og heimastjórna janúar til júlí 2024

Málsnúmer 202311115Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum liggja drög að fundadagatali sveitarstjórnar, ráða og heimastjórna janúar til júlí 2024.

Heimastjórn gerir engar athugasemdir við framlagt fundadagatal.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

7.Hreindýraarður 2023

Málsnúmer 202312049Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum liggur tölvupóstur frá Umhverfisstofnun, dagsettur 4. desember 2023, ásamt drögum að hreindýraarði fyrir árið 2023 á áfangasvæði / jarðir í sveitarfélaginu. Drögin liggja frammi til skoðunar á Hreppsstofu frá 5. til 15. desember 2023 og er það sá frestur sem gefinn er til að gera skriflegar athugasemdir.

Lagt fram til kynningar.

8.Fundir Heimastjórnar Borgarfjarðar

Málsnúmer 202010615Vakta málsnúmer

Næsti fundur heimastjórnar Borgarfjarðar verður í annarri viku janúarmánaðar. Erindi fyrir fundinn þurfa að berast fyrir kl. 12:00 fimmtudaginn 4. janúar. Erindi skal senda á netfangið jon.thordarson@mulathing.is, eythor.stefansson@mulathing.is eða bréfleiðis til Hreppsstofu.

Heimastjórn hyggst halda jólaglögg í 14. desember 17:00 - 19:00 í KHB. Meðal annars verða til sýnis teikningar af Fjarðarborg, yfirlitsmynd af fyrirhuguðum hafnarframkvæmdum og farið yfir helstu mál og framkvæmdir á komandi ári.

Fundi slitið - kl. 12:30.

Getum við bætt efni þessarar síðu?