Fara í efni

Heilsársvegur um Öxi

Málsnúmer 202304027

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Múlaþings - 35. fundur - 12.04.2023

Ný lög um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum (PPP) voru samþykkt á Alþingi í júní 2020 en markmið laganna var að flýta uppbyggingu mikilvægra samgönguinnviða, stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi.
Fram kemur í nýrri fjármálaáætlun til 2028 að ekki hafi reynst forsendur til að vinna samvinnuverkefni á borð við Axarveg á þeim grunni sem til stóð. Ráða þurfi fram úr fjármögnun og meta hvort sumar vegbæturnar ætti að kosta með hefðbundnum hætti.

Til máls tóku: Hildur Þórisdóttir, Jónína Brynjólfsdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Þröstur Jónsson og Helgi Hlynur Ásgrímsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings leggur áherslu á að unnið verði að framkvæmdum við heilsársveg um Öxi í samræmi við samgönguáætlun þó svo að fjármögnun í samstarfi við einkaaðila reynist ekki raunhæf leið. Í aðdraganda sameiningar Múlaþings var áhersla lögð á mikilvægi þess að af þessari framkvæmd yrði og voru viðbrögð ríkisvaldsins við því jákvæð enda bætir Axarvegur vegasamband á Austurlandi, styrkir byggð og eykur umferðaröryggi, en eins og Austfirðingar urðu áþreifanlega varir við nýverið er öryggi á þjóðvegi 1, Suðurfjarðarleið, verulega ábótavant í ljósi snjóflóða- og skriðuhættu.Einnig er um að ræða gífurlega mikilvæga bót á samgöngum og styttingu flutningsleiða Austurlands við aðra landshluta, og þar með minnkun kolefnislosunar, og því með öllu óásættanlegt að framkvæmdir frestist frekar en orðið hefur.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Djúpavogs - 48. fundur - 04.04.2024

Heimastjórn Djúpavogs beinir því til sveitarstjórnar að þess verði farið á leit við innviðaráðherra að taka vegaframkvæmdir við Öxi af lista PPP verkefna og að ríkið fjármagni framkvæmdina. Mikilvægt er að framkvæmdir hefjist strax á næsta ári og gerist þess þörf þá verði verkefninu áfangaskipt þannig að hægt verði að ljúka því á að hámarki þremur árum.

Heimastjórn bendir á að Axarvegur sé sá vegkafli á landinu sem fellur hvað best að markmiðum samgönguáætlunar um aukið öryggi, styttingu vegalengda, tengingu byggða og umhverfismál og því eðlilegt að fjármunum verði forgangsraðað í anda þess.

Samþykkt samhljóða

Sveitarstjórn Múlaþings - 47. fundur - 10.04.2024

Fyrir liggur bókun frá fundi heimastjórnar Djúpavogs, dags. 04.04.2024, varðandi heilsársveg um Öxi.

Til máls tóku: Ívar Karl Hafliðason, Hildur Þórisdóttir, Eiður Gísli Guðmundsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Eiður Gísli Guðmundsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Þröstur Jónsson og Eyþór Stefánsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings samþykkir að fara þess á leit við innviðaráðherra að taka vegaframkvæmdir við Öxi af lista PPP verkefna og að ríkið fjármagni framkvæmdina enda sé hún brýn samgöngubót og í samræmi við svæðisskipulag Austurlands 2022-2044. Mikilvægt er að framkvæmdir hefjist strax á næsta ári og gerist þess þörf þá verði verkefninu áfangaskipt þannig að hægt verði að ljúka því á að hámarki þremur árum. Jafnframt tekur sveitarstjórn Múlaþings undir ábendingu heimastjórnar Djúpavogs varðandi þá staðreynd að Axarvegur sé sá vegkafli á landinu sem fellur hvað best að markmiðum samgönguáætlunar um aukið öryggi, styttingu vegalengda, tengingu byggða og umhverfismál og því eðlilegt að fjármunum verði forgangsraðað í anda þess.

Sveitarstjóra falið að koma á fundi með ráðherra til að fylgja málinu eftir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?