Fara í efni

Fyrirhuguð lokun bolfiskvinnslu á Seyðisfirði

Málsnúmer 202309098

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Múlaþings - 39. fundur - 13.09.2023

Fyrir liggur fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni um að stefnt sé að því að loka bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði 30. Nóvember næstkomandi.

Til máls tóku: Björn Ingimarsson, Hildur Þórisdóttir, Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, Björg Eyþórsdóttir, Vilhjálmur Jónsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson

Lagt fram til kynningar.

Byggðaráð Múlaþings - 94. fundur - 19.09.2023

Fyrir liggur fréttatilkynning Síldarvinnslunnar hf. um fyrirhugaða lokun bolfiskvinnslu á Seyðisfirði auk erindis er sveitarstóri sendi inn fyrir hönd sveitarfélagsins til Síldarvinnslunnar þar sem óskað er eftir því að fyrirhuguð lokun verði tekin til endurskoðunar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings tekur undir þær áherslur er koma fram í erindi því er sveitarstjóri hefur komið á framfæri við Síldarvinnsluna hf. fyrir hönd Múlaþings. Byggðaráð samþykkir jafnframt að taka þátt í mögulegum samráðshópi sem hafi það verkefni að greina valkosti varðandi framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði ásamt fulltrúa heimastjórnar Seyðisfjarðar, fulltrúa Síldarvinnslunnar og fulltrúa Austurbrúar. Atvinnu- og menningarmálastjóra Múlaþings verði falið að starfa með samráðshópnum.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Byggðaráð Múlaþings - 95. fundur - 26.09.2023

Til umfjöllunar er fyrirhuguð lokun Síldarvinnslunnar hf. á bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði og viðbrögð við erindi er sveitarstóri sendi inn fyrir hönd sveitarfélagsins til Síldarvinnslunnar þar sem óskað var eftir því að fyrirhuguð lokun yrði tekin til endurskoðunar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings lýsir yfir vonbrigðum yfir því að ekki hafi verið brugðist við ósk sveitarfélagsins um að hverfa frá ákvörðun um að loka bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Byggðaráð metur þó að komið sé til móts við ósk sveitarfélagsins um frestun fyrirhugaðrar lokunar sem gefur aukið svigrúm til undirbúnings aðgerða til að bregðast við til framtíðar og samþykkir að Vilhjálmur Jónsson og Þröstur Jónsson taki þátt í mögulegum samráðshópi sem hafi það verkefni að greina valkosti varðandi framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði, svo sem nútímavæðingu fiskvinnslu, ásamt fulltrúa heimastjórnar Seyðisfjarðar, fulltrúa Síldarvinnslunnar og fulltrúa Austurbrúar. Atvinnu- og menningarstjóra Múlaþings og sveitarstjóra verði falið að starfa með samráðshópnum.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Byggðaráð Múlaþings - 96. fundur - 03.10.2023

Sveitarstjóri upplýsti um að fyrir lægi tilnefning frá Austurbrú á fulltrúa í samráðshóp um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði og fór yfir framkomnar hugmyndir að atvinnustarfsemi til framtíðar. Tvær tillögur hafa borist frá utanaðkomandi aðilum og ein frá fulltrúum M-listans í Múlaþingi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjóra falið að óska eftir tilnefningum fulltrúa í samráðshóp um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði frá heimastjórn Seyðisfjarðar og Síldarvinnslunni. Er tilnefningar liggja fyrir er sveitarstjóra falið að kalla hópinn saman. Framkomnum hugmyndum að atvinnuskapandi starfsemi verði vísað til starfshópsins til umfjöllunar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 39. fundur - 11.10.2023

Til umfjöllunar var fyrirhuguð lokun Síldarvinnslunnar hf. á bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði og viðbrögð við erindi er sveitarstóri sendi inn fyrir hönd sveitarfélagsins til Síldarvinnslunnar þar sem óskað var eftir því að fyrirhuguð lokun yrði tekin til endurskoðunar. Fyrir fundinum lá einnig bókun frá byggðarráði dags. 26.09.2023 um að tilnefna fulltrúa heimastjórnar í samráðshóp um framtíð atvinnumála á Seyðisfirði.

Nú liggur fyrir að ákvörðun stjórnar Síldarvinnslunnar um að hætta alfarið bolfiskvinnslu á Seyðisfirði mun standa þrátt fyrir óskir og áskoranir sveitarfélagsins um að sú ákvörðun verði dregin tilbaka. Hins vegar hefur verið ákveðið að lengja starfstímann fram á vormánuði 2024 svo starfsfólki og sveitarfélaginu gefist aukið svigrúm til að takast á við svo alvarlegan forsendubrest í atvinnulífi Seyðisfjarðar.

Að beiðni byggðaráðs tilnefnir heimastjórn, Margréti Guðjónsdóttur, sem fulltrúa í samráðshópi sem hafi það verkefni að greina valkosti varðandi framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði. Auk fulltrúa heimastjórnar Seyðisfjarðar í hópnum verður fulltrúi Síldarvinnslunnar og fulltrúi Austurbrúar. Atvinnu- og menningarstjóri Múlaþings og sveitarstjóri starfa með hópnum.

Í kjölfar ákvörðunar um lokun bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar, þar sem 30 heilsárstörf á Seyðisfirði tapast, telur heimastjórn Seyðisfjarðar brýnt að í þeirri greiningu sem fyrirhuguð er á framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði verði áhersla á að laða að starfsemi sem skapað getur heilsársstörf. Til að svo megi verða þarf vinna hópsins að geta byggt á traustum og skýrum forsendum. Í því ljósi er m.a. mikilvægt að niðurstaða um framtíð fiskeldis í Seyðisfirði liggi fyrir og þeirri óvissu er um hana hefur ríkt undanfarin ár verði eytt.

Heimastjórn Seyðisfjarðar leggur því eftirfarandi tillögu fyrir sveitarstjórn Múlaþings:

“Sveitarstjórn Múlaþings samþykkir að fela sveitarstjóra að fara þess á leit við Matvælastofnun að afgreiðsla rekstarleyfisumsóknar vegna fyrirhugaðs laxeldis í Seyðisfirði verði sett í forgang."

Með þessari tillögu sem lögð er fram er ekki verið að taka afstöðu til fiskeldis eða einnar atvinnugreinar umfram aðra heldur eingöngu til að stuðla því að eyða óvissu og tryggja markvissara starf samráðshópsins.

Samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn Múlaþings - 40. fundur - 18.10.2023

Fyrir liggur bókun frá fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar frá 11.10.2023 þar sem því er beint til sveitarstjórnar að fela sveitarstjóra að fara þess á leit við Matvælastofnun að afgreiðsla rekstrarleyfisumsóknar vegna fyrirhugaðs laxeldis í Seyðisfirði verði afgreidd. Fram kemur að með þessu verði eytt óvissu en ekki sé verið að taka afstöðu til fiskeldis eða til einstakra atvinnugreina umfram aðrar. Einnig liggur fyrir áskorun frá félögum í VÁ, Félagi um verndun fjarðar þar sem lagst er gegn tillögu heimastjórnar Seyðisfjarðar.

Til máls tóku: Björg Eyþórsdóttir, Jóhann Hjalti Þorsteinsson, Pétur Heimisson, Guðný Lára Guðrúnardóttir, Þröstur Jónsson sem bar upp tillögu, Björg Eyþórsdóttir, Einar Freyr Guðmundsson, Eyþór Stefánsson, Ívar Karl Hafliðason, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Björn Ingimarsson, Þröstur Jónsson, Pétur Heimisson, Björg Eyþórsdóttir, Eyþór Stefánsson.

Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi tillögu:
Ekki er að fullu ljóst hver tilgangur beiðni heimastjórnar er. Auk þess hefur einn fulltrúa heimastjórnar Seyðisfjarðar dregið stuðning sinn til baka við bókun heimastjórnar. Því vísar sveitarstjórn málinu aftur til heimastjórnar Seyðisfjarðar svo heimastjórn geti komið með skýrari beiðni til sveitarstjórnar ef vill.

Tillagan felld með 6 atkvæðum (VJ, BE, GLG, ÍKH, EFG, JB), 5 greiddu henni atkvæði.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings samþykkir, að tillögu heimastjórnar Seyðisfjarðar, að fela sveitarstjóra að fara þess á leit við Matvælastofnun að niðurstaða fáist við afgreiðslu rekstrarleyfisumsóknar vegna fyrirhugaðs laxeldis í Seyðisfirði. Með þessu verði eytt óvissu en ekki er með þessari ósk verið að taka afstöðu með eða á móti fiskeldi eða verið að leggja áherslu á einstakar atvinnugreinar umfram aðrar. Mikilvægt er þó að vandað verði til verka við afgreiðslu umsóknar.

Samþykkt með 6 atkvæðum, 2 sátu hjá (EÞ, JHÞ), 3 voru á móti (ÞJ, PH, HHÁ).

Pétur Heimisson lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd hans og Helga Hlyns Ásgrímssonar:
Ofangreind samþykkt meirihluta sveitarstjórnar Múlaþings er ótrúverðug í ljósi þess að sami meirihluti hefur hingað til ekki viljað taka afstöðu með eða á móti laxeldi með þeim rökum að sveitarstjórn hafi ekki aðkomu að skipulagi tengt mögulegu laxeldi í Seyðisfirði. Við treystum því að Matvælastofnun víki hvergi frá því markaða ferli sem á við og fylgja skal við afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi vegna laxeldis. Tímbundnum alvarlegum erfiðleikum í atvinnulífi á Seyðisfirði vegna fyrirhugaðrar lokunar bolfiskvinnslu má ekki mæta með neins konar flýtimeðferð á slíku leyfisveitngaferli. Verði slíkt gert, þá væri það á kostnað annarra hagsmuna sem tekur langan tíma að meta og gæti haft skelfilegar afleiðingar. Dæmi um slíka hagsmuni eru öryggi skipasiglinga og sæfarenda (var ekki afgreitt í haf- og strandsvæðaskipulagi), áhættumat erfðablöndunar sem er í uppnámi eftir fordæmalausan laxaflótta úr kvíum í Patreksfirði og þarf því væntanlega að gera að nýju, forsendur burðarþolsmats vegna laxeldis hafa verið gagnrýndar af Ríkisendurskoðanda sem vekur spurningu um hvort burðarþol þurfi að meta aftur. Við teljum því alla tilburði til að fá flýtimeðferð á afgreiðslu rekstrarleyfis (synjun eða samþykkt) vegna umsóknar Fiskeldis Austfjarða um að hefja laxeldi í Seyðisfirði óeðlilega.
Getum við bætt efni þessarar síðu?