Fara í efni

Breytingar á sorphirðu á nýju ári

16.12.2022 Fréttir

Krafan um aukna sjálfbærni og bætta meðhöndlun úrgangs hefur aukist umtalsvert undanfarin ár. Í kjölfar þess voru umfangsmiklar lagabreytingar samþykktar á Alþingi í júní 2021 sem munu ganga í gildi þann 1. janúar 2023. Tilgangurinn með breyttum lögum er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs. Rík áhersla er lögð á endurvinnslu og endurnotkun hverskonar og sem besta flokkun úrgangs.

Þá taka í gildi lög nr. 103/2021 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Meginkrafan í lögunum er að innheimta skuli vera sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs sem er sniðin að því magni og þeirri tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér. Á þetta við um úrgang frá heimilum, grenndar- og endurvinnslustöðvum og öðrum safnstöðvum.

Meðal helstu breytinga sem snúa að íbúum má nefna:

  • Sama flokkunarkerfi mun gilda um allt land og verður skylt að flokka úrgang í að minnsta kosti sjö flokka sem eru pappír, plast, lífúrgangur, textíll, málmar, gler og spilliefni.
  • Við heimili verður úrgangur flokkaður í fjóra flokka í stað þriggja eins og nú er, það er ekki má lengur setja plast og pappa saman í ílát. Merkingar á sorpílátum verða samræmdar um allt land til að einfalda flokkun og gera hana skilvirkari.
  • Innleiðing á kerfi sem kallast „Borgað þegar hent er“ miðar að því að sá sem hendir greiðir fyrir það í stað þess að sorphirðugjöldum sé jafnað niður á alla íbúa. Með innleiðingu þessa kerfis greiða íbúar minna fyrir meðhöndlun á úrgangi með því að flokka betur og draga þannig úr magni hans. Nokkrar útfærslur eru til af slíkum kerfum en í grófum dráttum er hægt að skipta þeim upp í kerfi sem annarsvegar nota rúmmál sem viðmið og hinsvegar þyngd. Útfærslur eru mishentugar fyrir sveitarfélög og eiga að stuðla að sjálfbæru samfélagi og betri dreifingu á kostnaði við meðhöndlun úrgangs. Vonast er til að hægt sé að lækka þjónustugjöld á íbúa með þessu og að kostnaður sveitarfélagsins vegna úrgangs lækki með tímanum.

Lögin munu taka gildi um áramótin en innleiðing breytinganna og aðlögun að þeim mun standa yfir allt árið 2023. Því er ljóst að ærið verkefni er fyrir höndum að kanna hvaða leiðir henta Múlaþingi og íbúum best. Sveitarfélagið mun jafnt og þétt veita upplýsingar um stöðu innleiðingarinnar og hvernig fyrirkomulagi verður háttað.

Breytingar á sorphirðu á nýju ári
Getum við bætt efni þessarar síðu?