Fara í efni

Ljósleiðarar í dreifbýli Seyðisfjarðar

02.10.2023 Fréttir Seyðisfjörður

Fjarskiptasjóður, fyrir hönd ríkisins, hefur um nokkurra ára skeið styrkt lagningu ljósleiðara í dreifbýli víða um land undir verkheitinu “Ísland ljóstengt”. Fyrirkomulag hefur verið þannig að sjóðurinn veitir sveitarfélögum styrki að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Miðað er við að eigandi fasteignar greiði hluta kostnaðar, sveitarfélag hluta og fjarskiptasjóður það sem eftir er. Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hvernig þau standa að verkefnum en aðallega hafa þrjár leiðir verið farnar:

  • Sveitarfélög annast verkið sjálf, byggja ljósleiðarakerfi og reka það.
  • Sveitarfélög byggja ljósleiðarakerfið en selja það til fjarskiptafélags að verki loknu.
  • Sveitarfélög semja við fjarskiptafélag um uppbyggingu og rekstur og er þá fjarskiptafélagið eigandi að kerfinu að verki loknu.

Árið 2017 sótti Seyðisfjarðarkaupstaður fyrst um styrk til lagningu ljósleiðara í dreifbýli sveitarfélagsins og var verkinu skipt í þrjá áfanga sem eru þessir:

  1. Langitangi, Fjarðarsel og nágrenni, 6 staðir.
  2. Dvergasteinn, Sunnuhlíð, Selsstaðir.
  3. Hánefsstaðir-Skálanes, 2 staðir.

Samstarf var haft við Mílu við undirbúning verksins og annaðist Míla frumhönnun ljósleiðarakerfisins en áformað var að kerfið yrði tengt grunnkerfi Mílu á Seyðisfirði. Byrjað var á framkvæmdum við 3. áfanga í samstarfi við Rarik og Neyðarlínuna og var ljósleiðari einnig tengdur til Mjóafjarðar innan þessa áfanga.

Vinna við 1. og 2. áfanga hófst snemma árs 2023. Samið var við Rarik að samnýta verktaka vegna lagningar Rarik á háspennustreng til Dvergasteins, Sunnuhlíðar og Selsstaða og samið var við Mílu um að nýta röralagnir þeirra að hluta til Langatanga, Fjarðarsels og nágrennis. Báðum áföngum er nú lokið og hafa viðkomandi notendur verið tengdir ljósleiðara og geta notað fjarskiptaþjónustu frá þeim þjónustuveitendum sem þeir kjósa.

Við áfanga 1 og 2 annaðist Verkráð verkefnisstjórn og Raftel sá um ýmsa ráðgjöf.

Ljósleiðarar í dreifbýli Seyðisfjarðar
Getum við bætt efni þessarar síðu?