Fara í efni

Fiskeldi Austfjarða 10.000 t Laxeldi í Seyðisfirði - Frummatsskýrsla

Málsnúmer 202011108

Vakta málsnúmer

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 5. fundur - 25.11.2020

Fyrir liggur frummatsskýrsla vegna 10.000 tonna laxeldis í Seyðisfirði, ásamt viðaukum. Þá liggur fyrir umsagnarbeiðni frá Skipulagsstofnun um framangreinda skýrslu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að fela framkvæmda- og umhverfismálastjóra að láta taka saman drög að umsögn sem lögð verði fyrir næsta fund ráðsins til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 2. fundur - 30.11.2020

Heimastjórn á Seyðisfirði fer fram á að Fiskeldi Austfjarða komi sem fyrst á opinberu samtali með heildstæðri kynningu á fyrirhuguðu laxeldi í Seyðisfirði því ekkert opinbert samtal hefur átt sér stað milli fyrrverandi bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og fyrirtækisins.

Heimastjórn mótmælir harðlega fyrirhugaðri staðsetningu sjókvíaeldissvæðis við Háubakka inn á "Kringlunni"og fer þess á leit að fallið verði frá þeirri staðsetningu, m.a. með vísan til þess að umrætt svæði er veigamikill hluti af athafnasvæði hafnarinnar. Höfnin er sérhönnuð ferjuhöfn og hér kemur mikill fjöldi skemmtiferðaskipa ár hvert sem oft þurfa á legu á Kringlunni að halda.

Heimastjórn vekur jafnframt athygli á því að Seyðisfjörður er einstök náttúrperla sem ber að standa vörð um. Innsigling um fjörðinn er afar glæsileg og vekur gríðarlega athygli þeirra sem hér koma. Því er lögð áhersla á að virku samráði verði komið á með fulltrúum samfélagsins og Fiskeldi Austfjarða varðandi staðsetningu og mögulega útfærslu sjókvíaeldis utar í firðinum út frá reglum um hver sé réttarstaða Seyðisfjarðarhafnar.

Heimastjórn leggur einnig ríka áherslu á að við fyrirhugaða uppbyggingu og rekstur verði horft til þess að nýta þann mannauð og þjónustu sem fyrir er á svæðinu eins og kostur er í beinum og afleiddum störfum.

Heimastjórn gerir þá kröfu á Fiskeldi Austfjarða að það hefji strax samtal við sveitarfélagið og íbúa Seyðisfjarðar um málið.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 6. fundur - 02.12.2020

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja drög að umsögn um frummatsskýrslu, unnin af skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir framlögð drög að umsögn, með áorðnum breytingum, og vísar málinu til sveitarstjórnar til afgreiðslu.
Jafnframt beinir umhverfis- og framkvæmdaráð því til sveitarstjórnar að gera sitt til að í tíma verði lokið gerð haf- og strandsvæðaskipulags. Markmið þess væri að Seyðisfjörður yrði fyrstur fjarða til að lúta haf- og strandsvæðaskipulagi þar sem hagsmunaaðilar allir geti komið að þeirri vinnu sem varðar megináherslur um framtíðarnýtingu fjarðarins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 4. fundur - 09.12.2020

Fyrir liggja drög að umsögn um frummatsskýrslu, unnin af skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins og samþykkt af umhverfis- og framkvæmdanefnd.

Til máls tóku: Björn Ingimarsson, sem kynnti móttöku undirskriftalista frá íbúum á Seyðisfirði, þar sem andmælt er sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Jódís Skúladóttir, sem kynnti breytingartillögu við framlagða bókun. Hildur Þórisdóttir, Elvar Snær Kristjánsson, sem bar fram fyrirspurn, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Björn Ingimarsson, sem svaraði fyrirspurn, Kristjana Sigurðardóttir, Jódís Skúladóttir, Hildur Þórisdóttir, Þröstur Jónsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Vilhjálmur Jónsson, Jódís Skúladóttir, Elvar Snær Kristjánsson, Þröstur Jónsson, Eyþór Stefánsson, Jakob Sigurðsson og Eyþór Stefánsson.

Jódís Skúladóttir og Hildur Þórisdóttir lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Sveitarstjórn leggur áherslu á þær athugasemdir sem fram koma í umsögn sveitarfélagsins, meðal annars þar sem skortir á frekari rannsóknir. Fiskeldi Austfjarða er eindregið hvatt, ekki síst í ljósi mótmæla stórs hluta íbúa Seyðisfjarðar, að bíða þess að vinnu við skipulag haf - og strandsvæða verði lokið með aðkomu samfélagsins og annarra hagsmunaaðila áður en lengra verður haldið.

Tillagan borin upp og greiddu 2 henni atkv. (JSk og HÞ.) 2 sátu hjá ( ES. KS.)en 7 voru á móti og var tillagan þar með felld.


Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi drög að umsögn um frummatsskýrslu og felur skipulagsfulltrúa að koma henni til Skipulagsstofnunar.

Sveitarstjórn leggur áherslu á ábyrga og fjölbreytta atvinnuuppbyggingu í Múlaþingi og fagnar því að Fiskeldi Austfjarða skuli hafa brugðist við áherslum heimastjórnar varðandi staðsetningu við Háubakka og að fyrirhugaðir séu upplýsinga- og samráðsfundir með fulltrúum samfélagsins á Seyðisfirði. Sveitarstjórn leggur jafnframt áherslu á mikilvægi þess að lokið verði við gerð haf- og strandsvæðaskipulags fyrir Austfirði og að hagsmunaaðilum á svæðinu verði tryggð aðkoma að þeirri vinnu varðandi framtíðarnýtingu í Múlaþingi öllu.

Samþykkt með 9 atkv. 1 var á móti (JSk) en 1 sat hjá (HÞ)
Getum við bætt efni þessarar síðu?