Fara í efni

Hamarsvirkjun, beiðni um kynningu

Málsnúmer 202108056

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Djúpavogs - 17. fundur - 01.09.2021

Heimastjórn samþykkir að fá forsvarsmenn Artic Hydro á fund til að kynna hugmyndir um hugsanlegar virkjanir í gamla Djúpavogshreppi og kynna hvar þessr hugmyndir eru staddar innan rammáætlunar.

Byggðaráð Múlaþings - 37. fundur - 02.11.2021

Inn á fundinn mættu fyrir Artic Hydro þeir Skírnir Sigurbjörnsson, Kristinn Pétursson, Bjarki Þórarinsson og Haukur Einarsson og gerðu grein fyrir mögulegum framkvæmdum við Hamarsvirkjun.

Lagt fram til kynningar.

Byggðaráð Múlaþings - 41. fundur - 18.01.2022

Fyrir liggur erindi frá Þresti Jónssyni þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að af framkvæmdum við Hamarsvirkjun verði sem fyrst enda séu beinir hagsmunir sveitarfélagsins af því umtalsverðir.


Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að beina því til sveitarstjórnar að hún sendi ályktun til Umhverfisráðuneytisins þar sem því verði komið á framfæri að sveitarstjórn vilji að úr því verði skorið sem fyrst hvort fáist framkvæmdaleyfi til að reisa allt að 60MW virkjun í Hamarsdal, svo nefnda Hamarsvirkjun. Því verði beint til ráðuneytisins að hraða því ferli, sem mest má vera, að skorið verði úr um hvort Hamarsvirkjun komist í orkunýtingarflokk.

Eftirfarandi breytingatillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings lýsir yfir áhyggjum sínum af þeirri flóknu stöðu sem uppi er varðandi ferli rammaáætlunar. Ferlinu var m.a. ætlað að greiða úr ágreiningi í samfélaginu um virkjanamál en stöðugar og óásættanlegar tafir hafa orðið til þess að mikil óvissa er uppi varðandi málaflokkinn. Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í orkumálum er afar mikilvægt að ferlið allt verði tekið til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að sem fyrst liggi fyrir hvaða virkjanakostir eru færir og hverjir ekki. Tækifæri í atvinnulífi í Múlaþingi og á Austurlandi öllu byggir á því að afhending orku sé trygg og framboð fullnægjandi. Byggðaráð leggur því áherslu á að sem fyrst verði úr því skorið hvaða virkjanakostir í sveitarfélaginu verða í nýtingarflokki og beinir því til sveitarstjórnar að sveitarstjóra verði falið að koma þeim áherslum á framfæri við Umhverfisráðuneytið.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 20. fundur - 09.02.2022

Fyrir lá bókun frá fundi byggðaráðs, dags. 18.01.2022, þar sem því er beint til sveitarstjórnar Múlaþings að sjá til þess að komið verði á framfæri við ráðuneyti umhverfismála þeim áherslum að sem fyrst verði úr því skorið hvaða virkjanakostir í sveitarfélaginu verði í nýtingaflokki.

Til máls tóku: Helgi Hlynur Ásgrímsson, Þröstur Jónsson, Björn Ingimarsson, Kristjana Sigurðardóttir, Stefán Bogi Sveinsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Þröstur Jónsson og Gauti Jóhannesson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með byggðaráði og lýsir yfir áhyggjum vegna þeirrar flóknu stöðu sem uppi er varðandi feril rammaáætlunar. Sveitarstjórn Múlaþings leggur áherslu á að sem fyrst verði úr því skorið hvaða virkjanakostir í sveitarfélaginu verði í nýtingaflokki og felur sveitarstjóra að koma þessum áherslum á framfæri við ráðuneyti umhverfismála.

Samþykkt með 10 atkvæðum, einn var á móti (HHÁ)

Helgi Hlynur lagði fram eftirfarandi bókun:
Staða rammaáætlana er ekki vandamál heldur staða flutningskerfa raforku og stefnuleysi stjórnvalda hvað orkumál varðar. 29 % raforku á landinu er nýtt á austurlandi en 1% á vestfjörðum. 80% raforkunnar fer til stóriðju en rúm 4% til heimilanna og framleiðsluaukning undanfarinna ára hefur að mestu leyti farið í uppbyggingu gagnavera og bitcoin gröft. Ekki verður séð að nýjar virkjanir leysi neinn vanda ef ekki verður tryggt að orkan fari til orkuskipta eða til umhverfisvænna verkefna. Í fjórðu rammaáætlun sem hér um ræðir eru 36 vindorkuver undir. Alþingi á algerlega eftir að setja leikreglurnar um vindorkuna en rannsóknarleyfum er spreðað á báðar hendur. Sveitastjórn skyldi varast að ganga erinda Artic Hydro í þessu máli eða helsta eiganda þess fyrirtækis, hins franska Quadran. Enn eru sárin eftir Kárahjúkavirkjun og skoðanakúgunina sem henni fylgdi ekki gróin og fullkominn óþarfi að rífa ofan af þeim hrúðrið

Byggðaráð Múlaþings - 45. fundur - 22.02.2022

Fyrir lá erindi varðandi mögulega virkjun í Hamarsdal.

Lagt fram til kynningar.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 47. fundur - 23.02.2022

Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggur erindi frá Stefáni Skafta Steinólfssyni varðandi hugmyndir um virkjun í Hamarsdal, sem hann er alfarið mótfallinn.

Lagt fram til kynningar.


Fulltrúi V-lista (PH) lagði fram eftirfarandi bókun:
Erindi Stefáns Skafta Steinólfssonar er góð áminning um að samfélagsleg sátt er einn af hornsteinum hvers samfélags. Skýrsla verkefnisstjórnar um 4. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landssvæða 2017 - 2021 byggir m.a. á og vitnar í viðtöl við fólk sem nú eru kjörnir fulltrúar í Múlaþingi. Um Hamarsvirkjum segir m.a. þetta í skýrslunni: "Vísbendingar eru komnar fram um að virkjunin geti orðið umdeild vegna umhverfisáhrifa og þannig valdið róti í samfélaginu. Kynning er lítil enn sem komið er sem eykur óvissu um áhrif að þessu leyti". Sem stendur er Hamarsvirkjun ekki valkostur samkvæmt rammaáætlun, nokkuð sem við öll þurfum að virða. Þá skal það áréttað að land sem um ræðir og fer undir virkjun ef af verður er a.m.k. að miklu í eigu ríkisins og því í raun sameign þjóðarinnar. Sveitarfélög og náttúruverndarnefndir geta valið að verða vörslumenn slíks lands, vilji þær það og velji. Varnaðarorð Stefáns Skafta eru mögulega fyrsti smjörþefurinn af þeim klofningi sem vel er þekktur og orðið getur meðal íbúa sveitarfélags um virkjanamál eins og hér um ræðir og þekkt er m.a. frá Kárahnjúkadeilunni. Það var þá, en nú og í anda íbúalýðræðis sem einmitt er hluti þess grunns sem okkar nýja sveitarfélag var stofnað á, þá viljum við atstýra slíku klofningi ef hægt er. Því hvet ég sveitarstjórn Múlaþings til að taka erindi Stefáns Skafta Steinólfssonar alvarlega, enda þarft að samtal og kynning varðandi þennan hugsanlega og trúlega umdeilda virkjanakost eigi sér stað.

Heimastjórn Djúpavogs - 38. fundur - 01.06.2023

Skírnir Sigurbjörnsson framkvæmdastjóri Arctic Hydro, Haukur Einarsson frá Mannvit, sérfræðingur í mati á umhverfisáhrifum, skipulagsmálum og leyfisveitingum, Sverrir Óskar Elefsen frá Mannvit, sérfræðingur í greiningu á hegðun íslenskara vatnsfalla, Bjarki Þórarinsson frá Mannvit, sérfræðingur í jarðvegsvinnu og mannvirkjagerð fyrir vatnsaflsvirkjanir, Ármann Ingason frá Mannvit, rafmagnsverkfræðingur og Kristinn Pétursson ráðgjafi sátu fundinn undir þessum lið og kynntu fyrirætlanir fyrirtækjanna varðandi Hamarsvirkjun og svöruðu spurningum fulltrúa í heimastjórn.

Heimastjórn þakkar fyrir greinargóða og upplýsandi kynningu.

Lagt fram til kynningar.

Gestir

  • Skírnir Sigurbjörnsson - mæting: 10:00
  • Bjarki Þórarinsson - mæting: 10:00
  • Kristinn Pétursson
  • Haukur Einarsson - mæting: 10:00
  • Ármann Ingason - mæting: 10:00
  • Sverrir Óskar Elefsen - mæting: 10:00

Heimastjórn Djúpavogs - 43. fundur - 09.11.2023

Fulltrúar Náttúruverndarsamtaka Austurlands sátu fundinn undir þessum lið og gerðu grein fyrir starfsemi samtakanna og ræddu fyrirhuguð áform um Hamarsvirkjun.

Heimastjórn þakkar fyrir greinargóða og upplýsandi kynningu.

Lagt fram til kynningar.

Gestir

  • Stefán Skafti Steinólfsson - mæting: 10:05
  • Guðrún Óskarsdóttir - mæting: 10:05
  • Ásrún Mjöll Stefánsdóttir - mæting: 10:05
Getum við bætt efni þessarar síðu?