Fara í efni

Byggðaráð Múlaþings

41. fundur 18. janúar 2022 kl. 08:30 - 11:45 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Berglind Harpa Svavarsdóttir formaður
  • Gauti Jóhannesson varaformaður
  • Hildur Þórisdóttir aðalmaður
  • Vilhjálmur Jónsson aðalmaður
  • Eyþór Stefánsson aðalmaður
  • Þröstur Jónsson áheyrnarfulltrúi
  • Þórunn Hrund Óladóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Björn Ingimarsson sveitarstjóri
  • Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri
  • Inga Þorvaldsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Inga Þorvaldsdóttir fulltrúi á stjórnsýslusviði

1.Fjármál 2022

Málsnúmer 202201015Vakta málsnúmer

Fjármálastjóri og sveitarstjóri fóru yfir og kynntu mál er varða fjármál og rekstur sveitarfélagsins.

2.Reglur byggðar á 7. grein reglurgerðar um fasteignaskatt nr. 1160 frá 2005

Málsnúmer 202112192Vakta málsnúmer

Fyrir liggur minnisblað um drög að reglum sem byggðar eru á 7. grein reglugerðar um fasteignaskatt nr. 1160/2005.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð samþykkir að leggja til við sveitarstjórn Múlaþings að fyrirliggjandi drög að reglum um styrki vegna fasteigna þar sem rekin er, án þess að vera í ágóðaskyni, menningar-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf. Skrifstofustjóra Múlaþings verði falið að sjá til þess að reglurnar verði kynntar með viðunandi hætti.

Samykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

3.Vefstefna Múlþings

Málsnúmer 202201013Vakta málsnúmer

Fyrir liggja drög að vefstefnu fyrir Múlaþing auk minnisblaðs frá skrifstofustjóra.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð leggur til að sveitarstjórn samþykki fyrirliggjandi drög að vefstefnu fyrir Múlaþing og feli skrifstofustjóra að sjá til þess að henni verði framfylgt.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

4.Húsnæðisáætlun og skipulagsmál

Málsnúmer 202104062Vakta málsnúmer

Fyrir liggja drög að húsnæðisáætlun fyrir Múlaþing er byggir m.a. á gögnum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem varða byggðakjarnana fjóra í sveitarfélaginu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram.
Byggðaráð Múlaþings samþykkir fyrirliggjandi drög að húsnæðisáætlun fyrir Múlaþing og vísar henni til sveitarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

5.Byggingarnefnd menningarhúss

Málsnúmer 202012176Vakta málsnúmer

Fyrir liggur fundargerð byggingarnefndar menningarhúss á Egilsstöðum frá 16. desember 2021.

Lagt fram til kynningar.

6.Uppbygging atvinnuhúsnæðis á Borgarfirði

Málsnúmer 202112019Vakta málsnúmer

Fyrir lá bókun heimstjórnar Borgarfjarðar, dags. 06.12.2021, þar sem því er beint til byggðaráðs að skoðað verði með hvaða hætti sveitarfélagið geti stuðlað að uppbyggingu atvinnuhúsnæðis á Borgarfirði t.d. með niðurfellingu gatnagerðargjalda.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að fá álit umhverfis- og framkvæmdaráðs á því hvort til greina komi að fara út í tilslakanir gjalda er snerta uppbyggingu atvinnuhúsnæðis á Borgarfirði og hvernig slíkt skuli útfært.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

7.Umsókn um landskipti, Gröf sumarbústaður

Málsnúmer 202112077Vakta málsnúmer

Fyrir byggðaráði liggur erindi frá landeigendum sumarbústaðalands í Gröf, L158093, þar sem óskað er eftir breytingu á jarðamerkjum. Aðliggjandi land er í eigu Múlaþings.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Með vísan til afgreiðslna umhverfis- og framkvæmdaráðs, dags. 05.01.2022, og heimastjórnar Fljótsdalshéraðs, dags. 10.01.2022, samþykkir byggðaráð Múlaþings fyrirliggjandi tillögu að ráðstöfun lands í eigu sveitarfélagsins. Skipulagsfulltrúa falin framkvæmd málsins.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

8.Íbúðakjarni á Seyðisfirði

Málsnúmer 202010458Vakta málsnúmer

Fyrir lá erindi frá Bæjartúni íbúðafélagi hses varðandi annars vegar hvort sveitarfélagið sé tilbúið að annast rekstur samkomurýmis í fyrirhuguðum íbúðakjarna á Seyðisfirði og hins vegar er óskað eftir viðræðum við sveitarfélagið varðandi mögulega aðkomu þess að kostnaði við jarðvinnu vegna verkefnisins. Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi með fulltrúum félags eldri borgara á Seyðisfirði og samskiptum við fulltrúa Bæjartúns hses þar sem þessi mál voru rædd m.a.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að sveitarfélagið annist rekstur samkomurýmis í fyrirhuguðum íbúðakjarna á Seyðisfirði í samstarfi við félag eldri borgara á Seyðisfirði og felur sveitarstjóra að ganga til samninga við Bæjartún íbúðafélag hses um leigu húsnæðisins.

Byggðaráð Múlaþings hafnar aðkomu sveitarfélagsins að kostnaði við jarðvegsframkvæmdir vegna fyrirhugaðs íbúðakjarna á Seyðisfirði og felur sveitarstjóra að koma þessari afstöðu á framfæri við framkvæmdaaðila.

Samþykkt samhljóða án handauppréttingu.

9.Fundargerðir Sambands Íslenskra sveitarfélaga 2021

Málsnúmer 202102049Vakta málsnúmer

Fyrir liggur fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 10.12.2021.

Lagt fram til kynningar.

10.Almannavarnarnefnd í umdæmi lögreglustjórans á Austurlandi - fundargerðir 2021

Málsnúmer 202101106Vakta málsnúmer

Fyrir liggur fundargerð Almannavarnarnefndar Austurlands, dags. 13.12.2021.

Lagt fram til kynningar.

11.Aðalfundur Skólaskrifstofu Austurlands

Málsnúmer 202010613Vakta málsnúmer

Fyrir liggur fundargerð aðalfundar Skólaskrifstofu Austurlands, dags. 16.12.2021.

Lagt fram til kynningar.

12.Fundargerðir stjórnarfundar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga 2021

Málsnúmer 202103067Vakta málsnúmer

Fyrir liggur fundargerð stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 13.12.2021.

Lagt fram til kynningar.

13.Fundargerðir stjórnar HEF - 2021

Málsnúmer 202102237Vakta málsnúmer

Fyrir liggur fundargerð stjórnar HEF veitna, dags. 22.12.2021.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings styður áform varðandi uppbyggingu á Eiðum og mun afstaða varðandi mögulega nýtingu lands í eigu sveitarfélagsins verða tekin er hugmyndir varðandi slíkt berast sveitarfélaginu. Byggðaráð hvetur stjórn HEF veitna til að vinna áfram að þeirri greiningarvinnu m.a. sem nauðsynleg er þessu tengt. Byggðaráð Múlaþings tekur jafnframt undir með stjórn HEF veitna varðandi mikilvægi þess að sem fyrst verði komið á samráðsfundi með sveitarstjórn og stjórn félagsins. Sem stendur heimila fjöldatakmarkanir vegna sóttvarna ekki að aðilar komi saman á slíkan fund og er því sveitarstjóra falið, að höfðu samráði við framkvæmdastjóra HEF veitna, að boða til slíks fundar í fjarfundarformi.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

14.Stjórnarfundur Vísindagarðsins ehf 2022

Málsnúmer 202201055Vakta málsnúmer

Fyrir liggur fundargerð stjórnar Vísindagarðsins ehf., dags. 13.01.2021.

Lagt fram til kynningar.

15.Tækniminjasafn Austurlands, fjármál

Málsnúmer 202012074Vakta málsnúmer

Fyrir liggja gögn frá Tækniminjasafni Austurlands er voru m.a. til umfjöllunar á fundi stjórnar Tækniminjasafnsins með byggðaráði og sveitarstjóra 4.janúar 2022.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings sér ekki forsendur til þess að Tækniminjasafnið fái greiddan styrk vegna sumarstarfsfólks á árinu 2021 þar sem ekki var þörf á sumarstarfsmönnum það ár. Byggðaráð felur atvinnu- og menningarfulltrúa að koma þessari niðurstöðu á framfæri við stjórn Tækniminjasafnsins auk upplýsinga um fyrirhuguð framlög Múlaþings til safnsins samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2022.

Varðandi aðkomu Múlaþings að þarfagreiningu vegna aðstöðu Tækniminjasafnsins og skipan í starfshóp þessu tengt þá felur byggðaráð Múlaþings sveitarstjóra að fara nánar yfir málið með framkvæmda- og umhverfismálastjóra og fulltrúa sveitarfélagsins í vinnuhóp um heildarendurskoðun og stefnumótun Tækniminjasafnsins. Málið verði tekið fyrir að nýju er niðurstöður úr þeirri vinnu liggja fyrir.

Varðandi hugmyndir er snúa að lóðaúthlutun á Lónsleiru, afnot af húsnæði í eigu sveitarfélagsins og mögulega yfirtöku sveitarfélagsins á húsnæði í eigu Tækniminjasafnsins verður slíkt tekið til skoðunar er nánari niðurstöður liggja fyrir varðandi flutning húsa og framtíðarskipulag á umræddu svæði.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

16.Áskorun vegna flugvallar Djúpavogs

Málsnúmer 202201014Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá Þóri Stefánssyni þar sem vakin er athygli á mikilvægi þess að flugvöllur Djúpavogs verði bættur þannig að hann standist þær kröfur er gerðar eru til sjúkraflugvalla.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að koma fyrirliggjandi ábendingum á framfæri við svæðisstjóra ISAVIA.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

17.Listaverk Sölva Aðalbjarnarsonar

Málsnúmer 202112165Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá Ólafi Arasyni varðandi listaverk Sölva Aðalbjarnarsonar. Jafnframt liggur fyrir minnisblað skrifstofustjóra Múlaþings þar sem farið er yfir það ferli sem hafið var varðandi staðsetningu útilistaverka Sölva auk þess að vakin er athygli á reglum er í gildi voru hjá Fljótsdalshéraði og Seyðisfjarðarkaupstað varðandi móttöku listaverka.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings tekur jákvætt í erindi Ólafs Arasonar varðandi það að taka á móti listaverkum Sölva og felur atvinnu- og menningarstjóra Múlaþings að taka málið til skoðunar í samráði við heimastjórn Fljótsdalshéraðs.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

18.Betri Borgarfjörður, brothættar byggðir

Málsnúmer 202110005Vakta málsnúmer

Fyrir liggur svarbréf Byggðastofnunar við erindi sveitarfélagsins, dags. 28.10.2021, þar sem þess var óskað að verkefnið Betri Borgarfjörður yrði framlengt. Jafnframt liggur fyrir bókun heimastjórnar Borgarfjarðar, dags. 10.01.2022, þar sem því er beint til byggðaráðs að, þó svo að Byggðastofnun muni ekki veita fjármagni til verkefnisins áfram, verði fundin farsæl leið til að halda verkefninu áfram.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings tekur undir með heimastjórn Borgarfjarðar og harmar að verkefnið skuli ekki hafa hlotið framlengingu um ár. Byggðaráð felur atvinnu- og menningarstjóra Múlaþings að taka til skoðunar með hvaða hætti verði að halda verkefninu áfram.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

19.Samstarf við University of the Highlands and Islands

Málsnúmer 202102099Vakta málsnúmer

Fyrir liggur að á fjárlögum fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir fjárframlags til UHI-verkefnisins upp á 25 millj.kr.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings fagnar því að stjórnvöld skuli hafi orðið við óskum um fjárframlag til þessa metnaðarfulla verkefnis sem er til þess fallið að efla Austurland til framtíðar þar sem að með þessu verður auðveldara fyrir ungt fólk á svæðinu að öðlast háskólamenntun úr heimabyggð. Byggðaráð samþykkir að skipaður verði stýrihópur um verkefnið er í sitji Jón Þórðarson, formaður, Gauti Jóhannesson og Tinna Jóhanna Magnusson. Verkefni stýrihópsins verði m.a. að undirbúa það að starfsemi UHI í Múlaþingi geti hafist í síðasta lagi á haustmánuðum þessa árs.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

20.Hamarsvirkjun, beiðni um kynningu

Málsnúmer 202108056Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá Þresti Jónssyni þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að af framkvæmdum við Hamarsvirkjun verði sem fyrst enda séu beinir hagsmunir sveitarfélagsins af því umtalsverðir.


Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun:
Byggðaráð Múlaþings samþykkir að beina því til sveitarstjórnar að hún sendi ályktun til Umhverfisráðuneytisins þar sem því verði komið á framfæri að sveitarstjórn vilji að úr því verði skorið sem fyrst hvort fáist framkvæmdaleyfi til að reisa allt að 60MW virkjun í Hamarsdal, svo nefnda Hamarsvirkjun. Því verði beint til ráðuneytisins að hraða því ferli, sem mest má vera, að skorið verði úr um hvort Hamarsvirkjun komist í orkunýtingarflokk.

Eftirfarandi breytingatillaga lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings lýsir yfir áhyggjum sínum af þeirri flóknu stöðu sem uppi er varðandi ferli rammaáætlunar. Ferlinu var m.a. ætlað að greiða úr ágreiningi í samfélaginu um virkjanamál en stöðugar og óásættanlegar tafir hafa orðið til þess að mikil óvissa er uppi varðandi málaflokkinn. Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í orkumálum er afar mikilvægt að ferlið allt verði tekið til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að sem fyrst liggi fyrir hvaða virkjanakostir eru færir og hverjir ekki. Tækifæri í atvinnulífi í Múlaþingi og á Austurlandi öllu byggir á því að afhending orku sé trygg og framboð fullnægjandi. Byggðaráð leggur því áherslu á að sem fyrst verði úr því skorið hvaða virkjanakostir í sveitarfélaginu verða í nýtingarflokki og beinir því til sveitarstjórnar að sveitarstjóra verði falið að koma þeim áherslum á framfæri við Umhverfisráðuneytið.

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

21.Laxeldi á Seyðifirði

Málsnúmer 202101050Vakta málsnúmer

Fyrir liggur álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum 10.000 tonna eldis á laxi í Seyðisfirði á vegum Fiskeldis Austfjarða.

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:45.

Getum við bætt efni þessarar síðu?